Hópmorð í Úkraínu

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Á árunum 1932 til 1933 olli alræðisstjórn Stalíns hungursneyð í Úkraínu sem dró milljónir Úkraínumanna til dauða. Hungursneyðin var bein afleiðing þvingaðrar stefnu Sovétríkjanna um samyrkjubúskap, auk þess sem svelti var kerfisbundið beitt sem refsingu, meðal annars ef bændur gátu ekki afhent tilskilið magn búvöru. Svæðin sem urðu verst úti í þessum aðgerðum voru girt af til að koma í veg fyrir að hungraðir íbúar gætu flúið milli svæða og til að koma í veg fyrir flutning matvæla til svæðanna. Markmið sovéskra stjórnvalda með sveltinu var enn fremur að bæla niður úkraínska þjóðarvitund. Úkraínumenn voru því vísvitandi sveltir í pólitískum tilgangi.

Þótt Rússar hafi alla tíð neitað að um hópmorð (e. genocide) hafi verið að ræða er ljóst að hungursneyðin stemmir við skilgreiningu hennar. Af þeim sökum hef ég, ásamt hópi alþingismanna úr öllum flokkum, lagt fram tillögu til þingsályktunar um hungursneyðina í Úkraínu. Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að hungursneyðin í Úkraínu sem stóð yfir frá 1932 til 1933 hafi verið hópmorð. Með því bregðumst við þingmenn við ákalli Úkraínu um að ríki heimsins lýsi yfir að Holodomor hafi verið hópmorð. Fjölmörg ríki hafa þegar brugðist við ákallinu. Með þessu færi Holodomor á lista yfir ómannúðlega glæpi alræðisríkja gegn mannkyni sem útrýmdu milljónum manna á fyrri hluta 20. aldar.

Það er mat okkar þingmannanna sem stöndum að tillögunni að mikilvægt sé að senda skýr skilaboð um þessa hörmulegu atburði í mannkynssögunni og vekja á þeim athygli til að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig. Annað eins hefur nú gerst. Slík skilaboð um voðaverk fyrri tíma geta sömuleiðis styrkt viðleitni alþjóðasamfélagsins til að tryggja framgang og vernd grundvallarmannréttinda og frelsis um allan heim. Og auðvitað er innrás Rússlands í Úkraínu alveg sérstakt tilefni til að samþykkja þetta núna. Sporin hræða svo sannarlega.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. desember 2022