Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski

Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta íslenska konan til að taka sæti á Alþingi, fæddist 14. desember árið 1867 á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún sat á Alþingi frá 1922 til 1930 og var ein þeirra sem kom að stofnun Sjálfstæðisflokksins árið 1929.

Um veru sína á Alþingi skrifaði Ingibjörg stuttu eftir að þingsetu hennar lauk:

„Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur – en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það, að ráðist sé á þær sérstaklega, af því að þær eru konur.“

Ingibjörg var öflugur málsvari kvenna og kvennasamtaka á þingi. Hún barðist ötullega fyrir velferðarmálum og réttindum kvenna, barna og þeirra sem höllum fæti stóðu í samfélaginu. Ingibjörg var brautryðjandi á ýmsum sviðum og gegndi m.a. mikilvægu hlutverki í uppbyggingu menntunar í þágu kvenna. Hún sinnti m.a. kennslu við Kvennaskólann í Reykjavík í fjölmörg ár og tók við hlutverki skólastýru árið 1906 sem hún sinnti í 35 ár. Á þessum árum snérust umræðum um menntamál einkum að því hvort leggja ætti höfuðáherslu á að mennta konur sem húsmæður og beina þeim inn á heimilin eða hvort þeim ættu að vera allar leiðir opnar til þátttöku og starfa úti á vinnumarkaðnum. Ingibjörg lýsti skoðun sinni þannig að hún sæi ekki að það eina sem konum byðist væri að „sitja undir askloki því sem kallast að gæta bús og barna … Nútíminn heimtar meira af konunum, og þær vilja fá tækifæri til þess að búa sig undir störf á sem flestum sviðum.“

Þá lét hún einnig mjög til sín taka í málefnum kvenna almennt, félags-, velferðar- og réttindamálum. Var hún einn stofnenda Lestrarfélags kvenna í Reykjavík og ein tólf kvenna er samdi frumvarp, sem flutt var á Alþingi árið 1915, um þörfina fyrir byggingu Landspítala. Það ár var Ingibjörg skipaður formaður Landspítalasjóðsnefndar og gegndi hún því embætti til æviloka. Þegar Ingibjörg settist á þing árið 1922 var það hennar fyrsta verk að leggja fram þingsályktunartillögu um að bygging spítalans yrði sett í algjöran forgang. Árið 1925 var síðan gerður samningur um byggingu spítalans og lagði Landspítalasjóðurinn fram helming áætlaðs byggingarkostnaðar. Uppbygging spítalans var mikið velferðarmál sem komst í höfn skömmu eftir að Ingibjörg kvaddi þingið en spítalinn tók til starfa í lok árs 1930. Fátækralöggjöfinni var breytt af hennar frumkvæði á þann veg að þótt efnisskortur valdi því að foreldrar geti ekki séð börnum sínum farborða geti það ekki talist gild ástæða til að skilja að móður og barn við fátækraflutninga ef foreldrarnir eru að örðu leyti færir um að veita börnum sínum gott uppeldi.

Ingibjörg var brautryðjandi í réttindabaráttu kvenna og hún helgaði líf sitt baráttumálum sínum sem áttu hug hennar allan. Henni er að jafnaði lýst sem ákveðinni konu sem bjó yfir mikilli gæsku og kímnigáfu. Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna árið 2015 var afhjúpuð stytta af Ingibjörgu við Alþingi. Styttan er sú fyrsta af nafngreindri konu í allri Reykjavíkurborg.