Bjarni

Árangur í semeiningum stofnana

„Við erum í dag með stofnanakerfi þar sem stærsta ríkisstofnunin, Landspítalinn, er með 6.500 starfsmenn en minnsta einingin okkar er með 2 starfsmenn. Á þessar sjálfstæðu rekstrareiningar gerum við sömu kröfur um öll þessi atriði sem ég nefndi og fleiri til. Við eigum ótvíræð tækifæri til að skipuleggja okkur upp á nýtt, og nýta kraftinn og mannauðinn okkar betur til að veita góða þjónustu inn í framtíðina,“ sagði Bjarni Benediktsson á viðburði um skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera sem haldinn var í gær.

Þar sagði Bjarni mikilvægt að skipuleggja opinbera þjónustu út frá þörfum nútímasamfélags og að stofnanir hafi burði til þess að sinna skyldum sínum. Þar ræddi hann bæði fjölda og gríðarlegan stærðarmun stofnana, en stofnanir ríkisins eru nú um 160 talsins auk 40 ríkisfyrirtækja sem ríkið á að hluta eða öllu leyti og tugi sjálfstæðra stjórnsýslunefnda.

„Ef við værum að teikna stofnanakerfið upp í umhverfi nútímans, þá myndum við seint velja að hafa yfir 160 sjálfstæða rekstraraðila í að veita þjónustu ríkisins. Hver í sínu horni að finna út úr praktískum úrlausnarefnum í upplýsingagjöf, tæknilegri stoðþjónustu, áætlanagerð, jafnlaunavottun og svo framvegis – samhliða eiginlegum kjarnaverkefnum sínum,“ sagði Bjarni.

Lagði hann áherslu á að skipulag og starf stofnana yrði að taka mið af þeim sem þjónustan beinist að og sagði: „Það er stefna stjórnvalda að efla stofnanakerfið með sameiningum smærri eininga til að þær hafi burði til þess að sinna stórum og krefjandi verkefnum og tryggja þannig betri og öruggari þjónustu við fólkið í landinu.“

Góður árangur hefur náðst á síðustu árum með sameiningar stofnana. Skattaembætti hafa verið sameinuð í eitt embætti sem svo sameinaðist við tollinn og skattrannsóknarstjóra. Þá má nefna sameiningu Seðlabankans og fjármálaeftirlits, breytingar á sýslumannsembættum og löreglustjórum til fækkunar og stofnun Samgöngustofu sem stofnuð var úr smærri einingum.

Sjá nánar hér á frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins.