Lækkum framlög til stjórnmálaflokka

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Frumvarp mitt og fleiri sjálfstæðismanna til laga um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka var á dagskrá þingsins í vikunni. Gildandi lög frá 2006 settu mikilvæga lagalega umgjörð um eftirlit með fjárreiðum stjórnmálaflokka. Með lögunum voru settar talsverðar hömlur á fjármögnun stjórnmálaflokka. Samhliða var framlag til þeirra úr ríkissjóði hækkað verulega.

Frá setningu laganna frá 2006 hafa opinber framlög til stjórnmálaflokka margfaldast og eru nú helsta tekjulind þeirra. Þessi fjárframlög koma til viðbótar framlagi í formi kostnaðar vegna aðstoðarmanna og starfsmanna þingflokka samkvæmt ákvörðun í fjárlögum. Lögin gerbreyttu því starfsumgjörð stjórnmálaflokka. Með síhækkandi opinberum framlögum samfara takmörkun á tekjuöflun stjórnmálaflokka hafa flokkarnir í raun verið gerðir að ríkisstofnunum.

Breytingarnar sem við leggjum nú til snúa að lækkun opinberra styrkja til stjórnmálaflokka og miða að auknu sjálfstæði og óhæði gagnvart ríkinu. Hversu háðir stjórnmálaflokkar eru orðnir ríkisframlögum hefur, að mati okkar flutningsmanna, dregið úr möguleikum stjórnmálaflokka til að sinna hlutverki sínu, þvert á markmið laganna.

Samhliða þessum breytingum yrði mikilvægt að auka möguleika stjórnmálaflokka á sjálfstæðri tekjuöflun og eru því lagðar til breytingar í þá átt. Eftir sem áður yrði stjórnmálaflokkum þó þröngur stakkur sniðinn við móttöku framlaga og áfram yrði auðvitað skylt að veita upplýsingar um öll fjárframlög til stjórnmálaflokka.

Við leggjum einnig til að lágmarksskilyrði um atkvæðafjölda stjórnmálasamtaka til að fá úthlutað fé úr ríkissjóði verði hækkað úr 2,5% í 4%. Þar vegast á sjónarmið um að mikilvægt sé að undanskilja ekki sjálfkrafa flokka sem hafa ekki náð manni kjörnum á Alþingi í þágu lýðræðis. En hins vegar að hlutfallstalan hvetji ekki fólk til framboðs vegna fjáröflunarmöguleika. Við teljum ólýðræðislegt að úthluta miklum fjármunum skattgreiðenda í þágu stjórnmálastarfsemi og hugmyndafræði sem alfarið hefur verið hafnað í lýðræðislegum kosningum. Þar á móti er lagt til að stjórnmálasamtök sem ekki uppfylla skilyrðin um framlög úr ríkissjóði fái enn rýmri heimildir til sjálfstæðrar tekjuöflunar.

Sú þróun sem hefur orðið hér á landi vegna hárra framlaga hins opinbera til stjórnmálaflokka hefur dregið úr stjórnmálastarfi flokka og tengslum þeirra við flokksmenn og atvinnulífið. Enda þurfa flokkarnir sífellt minna á þeim að halda í öruggum faðmi hins opinbera.

Grundvöllur þess að stjórnmálaflokkar séu hornsteinn lýðræðis í landinu er að þar fari fram virk starfsemi og þjóðmálaumræða. Ríkisstyrkirnir hafa dregið úr hvata flokkanna til að sinna því hlutverki. Stjórnmálaflokkar eiga jú einungis að vera skipulögð lýðræðisleg samtök fólksins sem þá myndar. Í framkvæmd hefur fjárstyrkur hins opinbera því hamlað starfsemi og sjálfstæði stjórnmálaflokka. Það gengur þvert á upphaflegt markmið með setningu laganna. Það er því von mín að löggjafinn taki vel í breytingatillöguna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2022.