Lækkum framlög til stjórnmálaflokka

Diljá Mist Einardóttir alþingismaður:

Frum­varp mitt og fleiri sjálf­stæðismanna til laga um breyt­ingu á lög­um um starf­semi stjórn­mála­sam­taka var á dag­skrá þings­ins í vik­unni. Gild­andi lög frá 2006 settu mik­il­væga laga­lega um­gjörð um eft­ir­lit með fjár­reiðum stjórn­mála­flokka. Með lög­un­um voru sett­ar tals­verðar höml­ur á fjár­mögn­un stjórn­mála­flokka. Sam­hliða var fram­lag til þeirra úr rík­is­sjóði hækkað veru­lega.

Frá setn­ingu lag­anna frá 2006 hafa op­in­ber fram­lög til stjórn­mála­flokka marg­fald­ast og eru nú helsta tekju­lind þeirra. Þessi fjár­fram­lög koma til viðbót­ar fram­lagi í formi kostnaðar vegna aðstoðarmanna og starfs­manna þing­flokka sam­kvæmt ákvörðun í fjár­lög­um. Lög­in ger­breyttu því starfs­um­gjörð stjórn­mála­flokka. Með sí­hækk­andi op­in­ber­um fram­lög­um sam­fara tak­mörk­un á tekju­öfl­un stjórn­mála­flokka hafa flokk­arn­ir í raun verið gerðir að rík­is­stofn­un­um.

Breyt­ing­arn­ar sem við leggj­um nú til snúa að lækk­un op­in­berra styrkja til stjórn­mála­flokka og miða að auknu sjálf­stæði og óhæði gagn­vart rík­inu. Hversu háðir stjórn­mála­flokk­ar eru orðnir rík­is­fram­lög­um hef­ur, að mati okk­ar flutn­ings­manna, dregið úr mögu­leik­um stjórn­mála­flokka til að sinna hlut­verki sínu, þvert á mark­mið lag­anna.

Sam­hliða þess­um breyt­ing­um yrði mik­il­vægt að auka mögu­leika stjórn­mála­flokka á sjálf­stæðri tekju­öfl­un og eru því lagðar til breyt­ing­ar í þá átt. Eft­ir sem áður yrði stjórn­mála­flokk­um þó þröng­ur stakk­ur sniðinn við mót­töku fram­laga og áfram yrði auðvitað skylt að veita upp­lýs­ing­ar um öll fjár­fram­lög til stjórn­mála­flokka.

Við leggj­um einnig til að lág­marks­skil­yrði um at­kvæðafjölda stjórn­mála­sam­taka til að fá út­hlutað fé úr rík­is­sjóði verði hækkað úr 2,5% í 4%. Þar veg­ast á sjón­ar­mið um að mik­il­vægt sé að und­an­skilja ekki sjálf­krafa flokka sem hafa ekki náð manni kjörn­um á Alþingi í þágu lýðræðis. En hins veg­ar að hlut­fallstal­an hvetji ekki fólk til fram­boðs vegna fjár­öfl­un­ar­mögu­leika. Við telj­um ólýðræðis­legt að út­hluta mikl­um fjár­mun­um skatt­greiðenda í þágu stjórn­mála­starf­semi og hug­mynda­fræði sem al­farið hef­ur verið hafnað í lýðræðis­leg­um kosn­ing­um. Þar á móti er lagt til að stjórn­mála­sam­tök sem ekki upp­fylla skil­yrðin um fram­lög úr rík­is­sjóði fái enn rýmri heim­ild­ir til sjálf­stæðrar tekju­öfl­un­ar.

Sú þróun sem hef­ur orðið hér á landi vegna hárra fram­laga hins op­in­bera til stjórn­mála­flokka hef­ur dregið úr stjórn­mála­starfi flokka og tengsl­um þeirra við flokks­menn og at­vinnu­lífið. Enda þurfa flokk­arn­ir sí­fellt minna á þeim að halda í ör­ugg­um faðmi hins op­in­bera.

Grund­völl­ur þess að stjórn­mála­flokk­ar séu horn­steinn lýðræðis í land­inu er að þar fari fram virk starf­semi og þjóðmá­laum­ræða. Rík­is­styrk­irn­ir hafa dregið úr hvata flokk­anna til að sinna því hlut­verki. Stjórn­mála­flokk­ar eiga jú ein­ung­is að vera skipu­lögð lýðræðis­leg sam­tök fólks­ins sem þá mynd­ar. Í fram­kvæmd hef­ur fjár­styrk­ur hins op­in­bera því hamlað starf­semi og sjálf­stæði stjórn­mála­flokka. Það geng­ur þvert á upp­haf­legt mark­mið með setn­ingu lag­anna. Það er því von mín að lög­gjaf­inn taki vel í breyt­inga­til­lög­una.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2022.