Óli Björn Kárason alþingismaður:
Donald Trump hefur tilkynnt, eins og flestir reiknuðu með, að hann sækist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaframbjóðandi árið 2024. National Review [NR], áhrifamikið tímarit meðal hægrimanna í Bandaríkjunum, biðlar í leiðara til flokksbundinna repúblikana að hafna forsetanum fyrrverandi án þess að hika eða efast. Trump segir ritstjórn tímaritsins vera léttavigt, sem þjóni engum tilgangi og útgáfan eigi ekkert annað skilið en að leggja upp laupana.
Ritstjórn NR var alla tíð gagnrýnin á Trump sem forseta. Þrátt fyrir árangur á nokkrum sviðum hafi forsetatíð hans einkennst af skipulagsleysi og óreiðu, vegna þess hve óútreiknanlegur Trump hafi alla tíð verið. Oft hafi hann hegðað sér eins og álitsgjafi gagnvart eigin ríkisstjórn, gefið út tilskipanir á Twitter eða verið með vanhugsaðar yfirlýsingar sem enginn gat tekið mark á. Hann fórnaði ráðherrum og ráðgjöfum ef honum sýndist svo. „Trump hafði takmarkaðan skilning á stjórnskipun okkar og þegar öllu er á botninn hvolft bar hann litla virðingu fyrir henni,“ skrifar leiðarahöfundur NR.
Vanhæfni Trumps til að hegða sér í samræmi við þær kröfur sem almenningur gerir til forseta gróf undan honum frá upphafi til enda. NR fullyrðir að þessi vangeta hafi átt stóran þátt í því að Trump laut í lægra haldi fyrir veikum frambjóðanda demókrata – Joe Biden – árið 2020. Og skapgerð Trumps gerði honum ókleift að sætta sig við ósigurinn. Hann gerði skammarlegar tilraunir til að hnekkja niðurstöðum kosninganna. Leiðarahöfundur NR segir að forsetinn fyrrverandi hafi misnotað vald sitt, gert tilraun til að kúga Mike Pence varaforseta til að fresta einhliða eða breyta fjölda atkvæða á fundi í öldungadeildinni 6. janúar 2020. Varaforsetinn lét ekki undan þrýstingi og múgurinn réðst inn í þinghúsið.
Flokkur í heljargreipum
Repúblikanaflokkurinn hefur verið í heljargreipum Trumps, sem hefur gert allt til að fá stuðning við ranghugmyndir og lygar um kosningarnar 2020. Hann hefur ýtt undir samsæriskenningar og ofstækismenn en grafið undan þeim sem hafa andmælt innan flokksins. Og haft töluverðan árangur.
Kosningar á miðju kjörtímabili hafa oftar en ekki verið erfiðar fyrir flokk sitjandi forseta. Í byrjun mánaðar fóru fram kosningar til fulltrúadeildarinnar auk þess sem kosið var um þriðjung öldungadeildarþingmanna og marga ríkisstjóra. Repúblikanar gerðu sér vonir um að endurheimta meirihluta í báðum deildum þingsins. Þær vonir brugðust. Flokkurinn náði naumum meirihluta í fulltrúadeildinni en demókratar héldu öldungadeildinni. Frambjóðendur sem nutu stuðnings og velþóknunar Trumps áttu yfirleitt erfitt uppdráttar.
Repúblikanar unnu góðan kosningasigur árið 2014 þegar þeir náðu tíu manna meirihluta í öldungadeildinni og 59 manna meirihluta í fulltrúadeildinni. Í forsetakosningunum 2016 fékk Trump aðeins 46,2% atkvæða – nokkru minna en keppinautur hans Hillary Clinton – en meirihluta kjörmanna. Fjórum árum síðar fékk Trump, þá sitjandi forseti, 46,8% atkvæða og laut í lægra haldi fyrir Joe Biden.
Í kosningum til fulltrúadeildarinnar 2018 – á miðju kjörtímabili Trumps – misstu repúblikanar meirihlutann í fulltrúadeildinni. Þeim tókst ekki að endurheimta meirihlutann árið 2020 og misstu stjórn á öldungadeildinni. Og þótt tekist hafi að tryggja minnsta mögulega meirihluta í fulltrúadeildinni nú í nóvember þá er ljóst að staða flokksins hefur veikst á síðustu árum. Demókratar ráða enn öldungadeildinni. Ríkisstjórum úr röðum repúblikana hefur fækkað úr 31 í 25 og víða hefur flokkurinn misst meirihluta á ríkisþingum.
Leiðarahöfundur NR neitar því ekki að Trump hafi aðdráttarafl sem stjórnmálamaður. Hann hafi heillað marga kjósendur sem kunni að meta baráttuvilja hans og óheflaða framkomu. Í forkosningum standi repúblikanar hins vegar frammi fyrir því að velja Trump sem frambjóðanda til forseta 2024 eða einhvern annan sem er andstæða hans. Leiðtoga sem er ekki stórkostlega eigingjarn eða siðferðilega vafasamur. Enn sé hins vegar of snemmt að segja til um hvort einhver hafi burði til að bjóða Trump birginn.
Hvar eru Reagan og Kemp?
Sá er þetta skrifar hefur aldrei verið í aðdáendaklúbbi forsetans fyrrverandi. Áður en Trump náði að tryggja sér endanlega útnefningu repúblikana árið 2016 hélt ég því fram að með sérlega snjöllum hætti hefði Trump nýtt sér lýðskrum og spilað á lægstu hvatir kjósenda. Í mars sama ár varpaði ég fram spurningu hér á þessum stað: „Hvar er Ronald Reagan okkar tíma? Hvar er hægrimaðurinn – íhaldsmaðurinn með hið meyra, blæðandi hjarta? Hvar er arftaki hugsjóna Jacks Kemps?“
Ronald Reagan og Jack Kemp sannfærðu samherja sína í Repúblikanaflokknum um að með bjartsýni á efnahagslega framtíð væri hægt að ná eyrum og stuðningi kjósenda sem áður höfðu fylgt demókrötum að málum – allt frá verkamönnum til minnihlutahópa, frá fátækum fjölskyldum stórborganna til millistéttarinnar.
Donald Trump er andstæða alls þess sem Reagan og Kemp stóðu fyrir. Þeir spiluðu aldrei á lægstu hvatir mannlegra tilfinninga. Þvert á móti. Ekki síst þess vegna ættu repúblikanar að fara að ráðum NR og segja nei takk, herra Trump.
Repúblikanaflokkurinn er í pólitískum ógöngum – í pólitískri herkví Donalds Trumps. Framtíð flokksins ræðst af því hvort flokksmönnum tekst að brjótast út úr herkvínni – endurnýja hugsjónir Reagans og Kemps. Og það blæs heldur ekki byrlega fyrir demókrötum. Flokkur þeirra hefur færst langt til vinstri og er þjakaður af pólitískri rétthugsun og slaufun. Joe Biden, sem ætlar að sækjast eftir endurkjöri eftir tvö ár, sýnir merki um elliglöp. Varaforsetinn er pólitísk léttavigt.
Það skiptir okkur á Íslandi miklu hver og hvers konar einstaklingur situr í Hvíta húsinu. Það skiptir heiminn allan miklu. Þess vegna er ástæða til að hafa áhyggjur af þróun stjórnmála í Bandaríkjunum. Það er með ólíkindum að 335 milljóna manna þjóð eigi ekki betri kosti en Trump eða Biden.
Morgunblaðið, 23. nóvember 2022.