Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Augljóst er að Strætó og Sorpu hefur skort eðlilegt eftirlit og styrka handleiðslu aðaleiganda síns, Reykjavíkurborgar, undanfarin ár.
18. nóvember 2022 var ársfundur þriggja byggðasamlaga: Sorpu, Strætós og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þessi mikilvægu fyrirtæki velta samanlagt um 18 milljörðum króna. Þau eru í raun dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar þar sem hún fer með rúmlega 60% eignarhlut í þeim öllum. Helsti handhafi eigendavalds þessara fyrirtækja er borgarstjórinn í Reykjavík og ber hann sem slíkur mikla ábyrgð á rekstri þeirra.
Grafalvarleg staða Strætós
Staða Strætós bs. er grafalvarleg og kom fram í kynningu stjórnenda á ársfundinum að félagið væri á mörkum þess að vera rekstrarhæft. Tap félagsins nam um 1.100 milljónum króna fyrstu níu mánuði ársins en í samþykktri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 93 milljóna tapi. Eigið fé Strætós er nú neikvætt um 225 milljónir. Greiðsluhæfi félagsins er óviðunandi og kom fram að fresta hefði þurft greiðslu reikninga fyrir helgi vegna fjárskorts.
Alvarleg mistök voru gerð með kaupum og innleiðingu á nýju greiðslukerfi Strætós og hafa margvísleg vandamál komið upp við rekstur þess. Það er slæmt fyrir Strætó, sem má illa við því að missa tekjur, en ekki síður hvimleitt fyrir viðskiptavini. Í heilt ár hafa farþegar fengið þau svör að um byrjunarörðugleika væri að ræða, sem brátt yrðu úr sögunni. Á fundinum kom hins vegar fram að lykilbúnaður greiðslukerfisins, þ.e. skannarnir í vögnunum, væru ónothæfir til síns brúks og væri eina ráðið að skipta þeim öllum út og kaupa nýja.
Tilraunastarfsemi á kostnað skattgreiðenda
Dýr mistök hafa einnig átt sér stað hjá Sorpu. Fyrirtækið byggði jarðgerðarstöðina GAJA þar sem lífrænn úrgangur átti að mygla og rotna í stórum stíl og verða að moltu. Langvinnir erfiðleikar hafa komið upp við rekstur stöðvarinnar, sem tekin var í notkun árið 2020. Stöðin er enn í svokölluðum uppkeyrslufasa og samningsbundin afköst hafa ekki náðst. Hráefni GAJA hefur ekki myglað sem skyldi en hins vegar er komin upp mygla í sjálfu húsinu!
Í desember 2021 var greint frá því í DV að upphaflegur kostnaður við GAJA hefði átt að vera 3,7 milljarðar kr. en væri þá kominn í 6,2 milljarða. Hluta vandræðanna virðist mega rekja til þess að vinnsluaðferðir stöðvarinnar byggjast á nýjungum, sem hafa hvergi verið reyndar áður og þaðan af síður sannað sig. Bygging GAJA er því í raun afar dýrt tilraunaverkefni á kostnað skattgreiðenda. Á ársfundinum spurði ég um endanlegan kostnað við stöðina án þess að svör fengjust.
Vandanum velt yfir á almenning
Í kynningu Sorpu á umræddum ársfundi segir m.a. eftirfarandi: ,,Áhersla á aðhald og jafnvægi í rekstri á undanförnum árum, hefur skilað félaginu heilbrigðum fjárhag til frekari fjárfestinga í innviðum og hringrásarhagkerfinu.“
Skoða má sannleiksgildi þessarar fullyrðingar í ljósi þess hvernig Sorpa stendur að byggingu GAJA og mikilla gjaldskrárhækkana fyrirtækisins á undanförnum árum. Eins og hjá mörgum opinberum fyrirtækjum virðist kostnaður ekki skipta máli. Gjaldskrár eru bara hækkaðar og vandanum velt yfir á almenning. Verulegar hækkanir urðu á gjaldskrá fyrirtækisins á árinu 2021. Þá er áætlað að þjónustutekjur Sorpu muni aukast um 27% milli áranna 2021-2022 vegna mikilla gjaldskrárhækkana á yfirstandandi ári. Stefnt er að minni gjaldskrárhækkunum á komandi ári en þó á gjald vegna almenns heimilisúrgangs að hækka um 13%.
Styrka handleiðslu eiganda skortir
Ljóst er að byggðasamlögin þrjú standa frammi fyrir miklum áskorunum. Sorpa og Strætó glíma við mikinn vanda og hið síðarnefnda við bráðavanda. Afar mikilvægt er að fulltrúar eigenda, þ.e. sveitarstjórnarfólk á höfuðborgarsvæðinu, ræði vanda félaganna og framtíðarhorfur af hreinskilni og hispursleysi. Þegar slíkir erfiðleikar steðja að er sérstaklega mikilvægt að eftirlit með byggðasamlögunum sé virkt og að þau njóti handleiðslu eigenda sinna í ríkum mæli. Þar skiptir handleiðsla langstærsta eigandans, Reykjavíkurborgar, auðvitað höfuðmáli. Augljóst er að Sorpu og Strætó hefur skort eðlilegt eftirlit og styrka handleiðslu aðaleiganda síns, Reykjavíkurborgar, undanfarin ár.
Það er því með miklum ólíkindum að borgarstjóri, handhafi langstærsta hlutabréfsins í félögunum þremur, skuli ekki hafa sótt einhvern mikilvægasta ársfund þeirra um árabil og tekið þar þátt í umræðum, heldur kosið að fara til Barcelona í staðinn.
Vöntun á verkstjórn
Auk þess að vera í eigendafyrirsvari félaganna þriggja er borgarstjóri formaður stjórnar Slökkviliðsins, en áætluð velta þess er 4,6 milljarðar króna á komandi ári. Ég efast um að stjórnarformaður nokkurs fyrirtækis af sömu stærðargráðu, taki ráðstefnu í Barcelona fram yfir þær sjálfsögðu skyldur stjórnarformanns að sækja ársfund þess.
Því miður segir þetta ákveðna sögu um verkstjórnina hjá borginni undir stjórn núverandi borgarstjóra og þau lausatök, sem eru á rekstri hennar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. nóvember 2022.