Stefnir í metár fárra gjaldþrota

Gjaldþrot fyrirtækja á þessu ári eru í algjöru lágmarki og stefnir í metár í þeim efnum. Það sem af er ári hafa gjaldþrot fyrirtækja verið 259 og með sama áframhaldi verða þau innan við 350 á þessu ári, en frá árinu 2008 hafa þau ekki verið færri en 588 og alla jafnan á bilinu 700-1.000. Í fyrra voru gjaldþrot fyrirtækja 957 og 765 árið þar á undan. Þetta kemur fram í frétt í Fréttablaðinu fyrir helgi.

Þar er rædd við Konráð S. Guðjónsson efnahagsráðgjafa Samtaka atvinnulífsins sem segir að þegar viðsnúningur í atvinnulífinu sé eins og raun ber vitni sé eðlilegt að gjalþrotum fækki. En að lítill fjöldi gjaldþrota endurspegli einnig að einhverju leyti hvernig fjármögnunarumhverfi fyrirtækja var á síðasta ári. Í fyrra hafi verið tiltölulega lítil verðbólga, krónan að styrkjast, vextir voru lágir  og eignaverð að hækka.

Fyrirfram hefði mátt búast við að gjaldþrot yrðu fleiri í kjölfar heimsfaraldurs en að það hafi þó ekki orðið raunin þar sem gjaldþrot árið 2018 hafi verið fleiri en árin 2020 og 2021. Konráð segir jafnframt að áhrif af áföllum geti verið töluvert lengi að koma fram. Einungis eitt gjaldþrot kom fram í ágúst á þessu ári. Þróunin hér er öfug miðað við Evrópu þar sem gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað, einkum á seinni helmingi þessa árs, mest í Unverjalandi, á Spáni og í Frakklandi.

Unnið upp úr frétt í Fréttablaðinu 18. nóvember 2022.