Eru dyrnar opnar í heil­brigðis­kerfinu fyrir veikasta fólkið okkar?

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Samkvæmt tölum frá Landlækni hafa aldrei fleiri látist úr ofskammti lyfja en síðasta ár. 46 einstaklinga létust þá úr lyfjaeitrun, þar af níu undir þrítugu.

Enn eitt metið er slegið og óhætt að tala um faraldur lyfjatengdra andláta. Flestir látinna voru á aldrinum 30 til 44 ára. Algengustu orsakir þessara eitrana eru ópíóðar og önnur sterk verkjalyf.

Þetta eru vondar fréttir. Á sama tíma og mikilvæg viðhorfsbreyting hefur átt sér stað í þá veru að fíknisjúkdóma eigi meðhöndla í heilbrigðiskerfinu virðist kerfið ekki í stakk búið til þess að taka á þessum vanda. Við höfum reynt að leggja okkar af mörkum með eftirfylgni með því að stjórnvöld fylgi eftir þessari viðhorfsbreytingu með aðgerðum. Meðal þess sem ég hef lagt áherslu á á þinginu eru skaðaminnkandi aðgerðir í þágu einstaklinga með vímuefnavanda.

Nú nýlega fékk ég svar við fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um heimildir lækna til að ávísa skaðaminnkandi ópíóðum og sambærilegum efnum til einstaklinga með vímuefnavanda. Í svarinu kemur fram að hérlendis sé veitt svokölluð uppbótarmeðferð við ópíóðafíkn og veruleg aukning hafi orðið á slíkri lyfjameðferð. Þannig hafi fjöldi einstaklinga í slíkri meðferð verið 276 árið 2019, en 438 árið 2021. Meðferðin felst í ávísun ópíóðalyfs, Buprenorfins, sem getur fullnægt þörfinni fyrir ópíóða en um leið dregið úr fíkn í aðra ópíóða með hættulegri verkun. Eingöngu læknar með þekkingu og reynslu af fíknisjúkdómum mega ávísa umræddu lyfi. Fólk með vímuefnavanda hefur að vísu gert athugasemdir við að þau skilyrði séu sett fyrir lyfjagjöf að hún sé í tengslum við eiginlega vímuefnameðferð.

Lyfjameðferð við ópíóðafíkn er sögð kostnaðarsöm og vandmeðfarin. Við megum samt ekki gleyma að sjúklingarnir eru afskaplega veikir og illa haldnir af lífshættulegum fíknisjúkdómi. Við þurfum að leita allra leiða til þess að aðstoða þennan viðkvæma hóp fólks og taka þeim opnum örmum í heilbrigðiskerfinu. Líkt og við tökum á móti fólki sem glímir við aðra sjúkdóma. Líf þeirra, heilsa og mannleg reisn má ekki setja skör lægra en annarra sjúklinga.

Greinin birtist á visir.is 19. nóvember 2022.