Fjármálastjórar hérlendis jákvæðastir

Fjármálastjórar hér á landi mælast jákvæðastir gagnvart þróun tekna (EBITDA) og fjárfestinga á næstu 12 mánuðum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag þar sem fjallað er um nýlega könnun Deloitte sem framkvæmd var í september og náði til 1.150 fjármálastjóra fyrirtækja í 15 löndum, þar af 300 hérlendis.

Á meðan jákvætt viðhorf íslenskra fjármálastjóra gagnvart þróun tekna á næstu 12 mánuðum mælist 61% er hlutfallið 18% meðal fjármálastjóra í Evrópu. Rætt er við Lovísu Önnu Friðbjörnsdóttur, sviðsstjóra fjármálaráðgjafar hjá Deloitte á Íslandi í fréttinni. Hún segir að á sama tíma og bjartsýni sé að aukast hérlendis sé hún að dragast saman hjá stjórnendum í Evrópu. Hún segir að mögulega séu íslenskir stjórnendur vanari sviptingum. Íslendingar séu áfallavanir og að það geti verið að það þurfi meira til að slá Íslendinga út af laginu. Markaðsaðstæður hér á landi séu þá skárri en víða annarsstaðar í Evrópu og að áhrif hækkandi orkuverðs séu meiri þar en hér.

Viðhorf fjármálastjóra í Evrópu gagnvart þróun EBITDA mælist neikvætt í könnunni en viðhorf fjármálastjóra hérlendis voru jákvæð. Þá kemur einnig fram að viðhorf íslenskra fjármálastjóra gagnvart nýráðningum á næsta ári séu jákvæð um 26%. Lovísa Anna segir að viðhorf íslenskra fjármálastjóra til ráðninga fylgi allt annarri þróun en í Evrópu. Þar bíti verðbólgan meira og þar séu stjórnendur frekar að hugsa um að fækka starfsfólki. Hérlendis sjái stjórnendur fram á að ráða fleira starfsfólk sem helst í hendur við umræðu um skort á vinnuafli á Íslandi.

Þá vekur athygli að áhyggjur af verðbólgu sé stærsti ytri áhættuþátturinn í rekstri íslenskra fyrirtækja, en það er í fyrsta skipti frá því að könnunin var fyrst framkvæmd árið 2014 sem gengisþróun íslensku króununnar er ekki nefnd sem stærsti þátturinn. Meirihluti fjármálastjóra hér á landi sé að gera ráð fyrir styrkingu íslensku króununnar sem skýri hvers vegna gengisþróunin sé að mælast með minna vægi en áður. Áhyggjur af vaxtastigi er sá þáttur sem mælist næststærstur af ytri áhættuþáttum.

Tekið upp úr frétt í Viðskiptablaðinu 17. nóvember 2022.