Lækkun skatta er ákvörðun

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs:

Allir stjórnmálamenn standa frammi fyrir sambærilegum áskorunum. Það er hlutverk þeirra að sjá til þess að rekstur hins opinbera, hvort sem er ríkis eða sveitarfélaga, gangi upp réttum megin við núllið en á sama tíma að tryggja að hið opinbera veiti þá grunnþjónustu sem því er ætlað að veita. Þetta gengur misvel upp en frá þessum verkefnum verður ekki vikið. Það þarf því pólitíska stefnu til að fylgja því eftir.

Í of mörgum tilvikum kjósa stjórnmálamenn að sækja það fjármagn sem til þarf í vasa skattgreiðenda með einum eða öðrum hætti, í stað þess að forgangsraða verkefnum til að tryggja að reksturinn gangi upp og að viðunandi þjónusta sé veitt. Það er pólitísk ákvörðun, sem hefur þó afleiðingar.

Það má með einföldum hætti segja að sveitarfélögin hafi mörg hver með fasteignagjöldum fengið nokkuð frítt spil í skattahækkunum á liðnum árum. Fasteignagjöld, þar sem fasteignaskattur er stærsti liður fasteignagjalda, hafa hækkað samhliða hækkandi fasteignaverði og fært sveitarfélögum umtalsverðar tekjur. Það fjármagn verður þó ekki til af engu, heldur er það sótt í launatekjur heimila og veltu fyrirtækja. Það er pólitísk ákvörðun að bera virðingu fyrir því fjármagni sem fólk vinnur sér inn og líta ekki á það sem sjálfsagðan hlut að hið opinbera eigi heimtingu á því.

Fasteignaskattar lækka

Með það í huga mun meirihlutinn í Kópavogi lækka fasteignaskatta á komandi ári. Skattur á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,2% í 0,17% og skattur á atvinnuhúsnæði úr 1,44% í 1,42%. Þetta var kynnt í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar sem birt var fyrr í þessari viku. Að sama skapi munu almennar gjaldskrár ekki hækka í samræmi við miklar kostnaðarhækkanir.

Fasteignaskattar í Kópavogi verða með þessari lækkun með þeim lægstu á landsvísu en allir bæjarbúar njóta góðs af lækkuninni. Áætlað er að fasteignagjöld muni fylgja verðlagsþróun næsta árs og hækka að meðaltali um 5%, en fasteignagjöldum er ætlað að standa undir þjónustu á borð við sorphirðu, snjómokstur og viðhald gatna svo dæmi séu tekin. Ef ekki hefði komið til lækkunar fasteignaskatta hefðu gjöldin hækkað um 15%, eða um 400 milljónir króna. Í Reykjavík aftur á móti er ekki fyrirhugað að lækka fasteignskatta, að öðru óbreyttu munu því fasteignagjöld á borgarbúa hækka um tug prósenta á næsta ári þrátt fyrir óbreytta þjónustu.

Það er pólitísk ákvörðun að lækka skatta og með því að lækka, í þessu tilviki fasteignaskatta, erum við að svara ákalli íbúa um lægri álögur. Í kosningabaráttunni sl. vor spurðum við bæjarbúa hvað það væri sem skipti þá mestu máli. Fasteignagjöld voru þar ofarlega á blaði enda eru þau áþreifanleg þar sem fólk greiðir þau um hver mánaðamót.

Ábyrgur rekstur

Við munum ráðast í hagræðingaraðgerðir sem nema um 230 milljónum króna á næsta ári, eða um 0,5% af heildarútgjöldum bæjarins. Þrátt fyrir það munum við setja aukið fjármagn í mennta- og velferðarmál og á sama tíma eru áætlaðar umfangsmiklar framkvæmdir, fyrir um sex milljarða króna, á vegum Kópavogsbæjar, s.s. bygging skóla og leikskóla, viðhald fasteigna í eigu bæjarins og gatnagerð svo tekin séu dæmi.

Einhver kynni að spyrja sig að því af hverju meirihlutinn tekur ákvörðun um að lækka álögur og sjálfsagt hafa stjórnmálamenn ýmsar tillögur um það hvernig verja mætti því fjármagni sem mögulega væri hægt að innheimta með hækkun gjalda. Svarið við því leynist í orðunum væri hægt að innheimta, því það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Nærtækast er að horfa til Reykjavíkur, þar sem bæði fólk og fyrirtæki hafa vegna aukinnar skattheimtu kosið með fótunum og komið sér fyrir í öðrum sveitarfélögum.

Það er líka pólitísk ákvörðun að ætla heimilum og fyrirtækjum að greiða hærri skatta vegna óráðsíðu eða vanrækslu í rekstri hins opinbera. Stjórnmálamenn eru kjörnir fulltrúar þeirra og þurfa að standa undir þeirri ábyrgð sem því fylgir. Þess vegna þarf að forgangsraða og í Kópavogi er það stefna okkar sem myndum meirihluta í bæjarstjórn að hagræða til að eiga þess kost að setja aukið fjármagn í velferðar- og skólamál – og hlífa um leið skattgreiðendum við auknum álögum.

Áætlun ársins 2023 endurspeglar ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun þar sem álögum og gjöldum er stillt í hóf og þjónusta við bæjarbúa er í forgangi. Það er verkefnið og því verkefni ætlum við að sinna vel til að Kópavogur verði áfram í fremstu röð þegar horft er til lífsgæða hér á landi.

Morgunblaðið, 10. nóvember 2022.