Yfirlýsing frá kjörbréfanefnd 44. landsfundar Sjálfstæðisflokksins

Í færslu formanns Sjálfstæðisfélags Kópavogs á samfélagsmiðlinum facebook í dag er vísað til samskipta hennar við kjörbréfanefnd sem starfar í umboði miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda 44. landsfundar flokksins sem fram fer um komandi helgi.

Nefndin hefur það hlutverk að yfirfara kjörbréf þeirra fulltrúa sem félög og fulltrúaráð á vegum flokksins hafa kjörið til setu á fundinum.

Nefndin hefur verið að störfum síðan á mánudag. Henni hafa borist ýmsar ábendingar sem leyst hefur verið úr. Meðal annars bárust ábendingar varðandi kjör fulltrúa í Kópavogi sem vert væri að athuga. Af því tilefni boðaði nefndin m.a. formann Sjálfstæðisfélags Kópavogs til fundar til að skýra nokkur atriði varðandi framkvæmd fulltrúakjörs.

Í færslu formanns Sjálfstæðisfélags Kópavogs er vegið ómaklega að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins og látið í veðri vaka að það vinni fyrir einn frambjóðanda umfram annan. Kjörbréfanefnd vísar þessum fullyrðingum formannsins á bug. Starfsfólk Sjálfstæðisflokksins vinnur með þau gögn sem stjórnir sjálfstæðisfélaga og fulltrúaráða senda til skrifstofu flokksins. Starfsfólk er ekki úrskurðaraðili í álitamálum og ber ekki ábyrgð á fulltrúakjöri á landsfund. Starfsfólk Sjálfstæðisflokksins ber enga ábyrgð á því að nefndin hafi talið þörf á að kalla formann Sjálfstæðisfélags í Kópavogs til fundar. Ekkert hefur komið fram við yfirferð kjörbréfanefndar á kjörbréfum sem bendir til annars en að starfsfólk Sjálfstæðisflokksins hafi unnið sín verk af ábyrgð og einurð við undirbúning fundarins.

Kjörbréfanefnd ber fulla ábyrgð á sinni vinnu og niðurstöðum nefndarinnar. Nefndin harmar að formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs hafi séð tilefni til að vega að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins.

Reykjavík, 3. nóvember 2022,

Brynjar Níelsson, formaður kjörbréfanefndar
Arnar Þór Stefánsson
Davíð Þorláksson