Óli Björn Kárason alþingismaður:
Frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði hefur valdið titringi meðal margra, jafnt stjórnmálamanna sem forystumanna stéttarfélaganna. Kannski var ekki við öðru að búast en umræðan sem hefur skapast hefur að mestu verið málefnaleg og án stóryrða sem á stundum er gripið til þegar deilt er um þjóðfélagsmál.
Rökræðan um félagafrelsi á vinnumarkaði hefur dregið fram hugmyndafræðilegan ágreining sem er og hefur alltaf verið til staðar í íslensku samfélagi. Annars vegar standa þeir sem treysta einstaklingnum til að taka ákvarðanir um eigin hag og hins vegar þeir sem telja nauðsynlegt að hafa vit fyrir einstaklingum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, orðaði þetta vel í fjörugum umræðum um frumvarpið í liðinni viku: „… viljum við að samfélaginu sé stýrt þannig að við hérna, vitringarnir á Alþingi, vitum betur og tryggjum fólkinu aðild að stéttarfélögum þrátt fyrir að þau skilji ekki að það er þeim fyrir bestu, vegna þess að við höfum komist að því hvað er fólki fyrir bestu? Þetta snýst nefnilega um svona grundvallaratriði. Er fólkinu treystandi til þess að taka ákvarðanir um sitt eigið líf? Eða þurfa atvinnurekendur og launþegahreyfingin, og eftir atvikum alþingismenn, að taka fram fyrir hendurnar á fólki og segja því hvað er þeim fyrir bestu? Þess vegna er það kjarnaatriði í þessu máli að þetta snýst um frelsi. Þetta snýst um trúna á því að ef maður virkjar fólk til þátttöku um ákvarðanir sem varða þeirra eigið líf að þá muni samfélaginu fyrst vakna líf og framfarir verða. En ekki þegar við tökum þann rétt af fólki.“
Frelsi í orði ekki á borði
Eins og ég hef áður bent á hér á þessum stað og ítrekaði, þegar ég mælti fyrir frumvarpinu, er félagafrelsi á íslenskum vinnumarkaði í orði en því miður ekki á borði. Þar ræður þyngst forgangsréttarákvæði í kjarasamningum, þó fleiri atriði spili inn í. Forgangsréttarákvæðin fela í sér svo mikla þvingun gagnvart launafólki að leggja má það að jöfnu við skylduaðild.
Eins og búast mátti við hefur ýmis gagnrýni verið sett fram á efni frumvarpsins og þá hugmyndafræði að tryggja íslensku launafólki í raun félagafrelsi – sömu réttindi og launafólk nýtur í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Rauði þráðurinn er að frumvarpið feli í sér skerðingu á réttindum launafólks og veiki verkalýðshreyfinguna. Hvorugt er rétt.
Fyrst um þá staðhæfingu að samtök launafólks veikist, nái félagafrelsi fram að ganga.
Ég hafna þessari fullyrðingu. Ekki aðeins vegna þess að ég hef meiri trú en svo á verkalýðshreyfingunni, heldur vegna þess að ég er sannfærður um að frelsið geti styrkt starfsemi verkalýðsfélaga. Af hverju? Vegna þess að verkalýðsfélögin munu hafa sérstaka hagsmuni af því að sannfæra launafólk um að hagsmunum þess sé best borgið með því að ganga til liðs við viðkomandi stéttarfélög. Þau munu leggja sig í líma við að gæta hagsmuna viðkomandi. Forysta verkalýðshreyfingarinnar mun skynja að íslenskt launafólk fær meiri áhuga á réttindum sínum og kjörum og meiri áhuga á starfsemi verkalýðshreyfingarinnar en nú er, hættir að vera jafn afskiptalaust og það er, telur sér skylt, vegna þess að það tók sjálfstæða ákvörðun um að tilheyra félaginu, að taka þátt í að móta starf þess og stefnu og það mun taka þátt í að velja einstaklinga til forystu sem það treystir. Ég vona að forystufólk í verkalýðshreyfingunni hafi ekki áhyggjur af aukinni virkni og áhuga almennra félaga á störfum og stefnu eigin stéttarfélags.
Misskilningur og vanþekking
Í opinberri umræðu hafa komið fram ýmsar fullyrðingar um efni frumvarpsins, sem ýmist eru byggðar á misskilningi eða hreinlega vanþekkingu, þar sem augljóst er að viðkomandi hefur ekki kynnt sér efni frumvarpsins.
Fullyrðing: Atvinnurekendur geta kosið að ráða aðeins til sín fólk sem stendur utan stéttarfélaga.
Þessi staðhæfing byggist á misskilningi, enda kemur skýrt fram í 3. gr. frumvarpsins að vinnuveitanda „…er óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans“. Í 4. gr. er auk þess mælt fyrir um skaðabótaskyldu vinnuveitanda, brjóti hann gegn ákvæðum 3. gr.
Fullyrðing: Launamaður getur ákveðið hvert sjúkrasjóðsgreiðslur fara.
Rangt. Eina breytingin í frumvarpinu, hvað sjúkrasjóði varðar, er sú að aukin skylda er lögð á atvinnurekanda sem hefur í för með sér að allt launafólk nýtur sjúkratrygginga, óháð stéttarfélagsaðild. Að óbreyttum lögum er atvinnurekanda skylt að greiða í sjúkrasjóði „viðkomandi stéttarfélags“. Standi launamaður hins vegar utan félags neita stéttarfélög alla jafna að taka við greiðslum í sjúkrasjóð fyrir hans hönd. Í þeim tilvikum er launamaðurinn ekki sjúkratryggður, enda hefur atvinnurekandinn sinnt sinni skyldu, lögum samkvæmt, og engar frekari kröfur gerðar til hans. Í frumvarpinu er hins vegar mælt fyrir um að við slíkar aðstæður verði á atvinnurekanda skylt að tryggja launamanninn á eigin ábyrgð. Með þessu verður allt launafólk á íslenskum vinnumarkaði sjúkratryggt. Varla getur það talist „aðför að launafólki“.
Fullyrðing: Atvinnurekendum verður gefið tækifæri til að greiða launafólki smánarlaun. Það verður ekkert til sem heitir lágmarkslaun, sem samið sé um í kjarasamningum.
Þetta er kolrangt. Ákvæði frumvarpsins gefa atvinnurekendum ekki tækifæri til að greiða launafólki smánarlaun, enda hefur frumvarpið engin áhrif á lágmarkslaun. Í 1. mgr. 1. gr. laga starfskjaralaga nr. 55/1980 segir eftirfarandi:
„Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.“
Með engum hætti er hróflað við þessum skýru ákvæðum starfskjaralaga. Lágmarkslaun verða enn í gildi samkvæmt kjarasamningum og það verður, hér eftir sem hingað til, lögbrot að greiða lægri laun.
Mikilvægi stéttarfélaga
Sú umræða sem hefur skapast í kringum frelsisfrumvarpið hefur ekki aðeins varpað ljósi á hugmyndafræðilegan ágreining um rétt einstaklingsins. Hún hefur ekki síður knúið fram umræður um mikilvægt hlutverk og skyldur verkalýðsfélaga. Síðustu mánuði og raunar misseri hefur opinber umræða um samtök launafólks því miður einkennst fremur af deilum, hjaðningavígum og innanmeinum. Nái frumvarpið að breyta því er til mikils unnið.
Ég skil áhyggjur margra verkalýðsleiðtoga af því að með því að virða félagafrelsi launafólks á borði en ekki aðeins í orði, veikist samtök launafólks. Sjálfur er ég sannfærður um að hið þveröfuga gerist. Í frelsinu felst styrkur. Launafólk fær aukinn áhuga á réttindum sínum og sannfærist betur um að barátta fyrir þeim verður best háð sameiginlega. Um leið aukast kröfurnar til þeirra sem veljast til forystu og aðhaldið eykst. Varla getur nokkur staðið gegn því.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. október 2022.