Maríjon nýr framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins

Maríjon Ósk Nóadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins.

Maríjon er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur undanfarið starfað sem lögfræðingur á skrifstofu flokksins. Áður en hún hóf störf hjá Sjálfstæðisflokknum sinnti Maríjon fjölmiðla- og lögfræðiráðgjöf hjá almannatengslafyrirtækinu Kvis. Þá er hún jafnframt með víðtæka reynslu á sviði lögfræði og starfaði m.a. sem lögfræðingur hjá Fjarskiptastofu og sem fulltrúi hjá Nordik lögfræðiþjónustu.

„Við erum einstaklega lánsöm að fá Maríjon til liðs við okkur en hún hefur mikla og góða reynslu sem mun nýtast vel í störfum okkar í borginni,” segir Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Maríjon hefur áður verið viðriðin pólitískt starf Sjálfstæðisflokksins en hún sat meðal annars í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna á yngri árum og var verkefnastjóri hjá flokknum í borgarstjórnarkosningum 2010.

„Það eru forréttindi að fá að vinna við áhugamál sitt og láta gott af sér leiða á meðan fyrir borgarbúa og alla þá einstaklinga sem borgina sækja. Reykjavík á mikið inni og það á borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins einnig. Ég mun gera mitt besta til að halda utan um þennan góða hóp og það öfluga starf sem hann vinnur“, segir Maríjon Ósk Nóadóttir.