Efnahagslegur vítahringur Evrópusambandsins

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn en þó einkum inn­rás Rússa í Úkraínu hafa af­hjúpað djúp­stæða veik­leika í efna­hags­lífi Evr­ópu. Sú hætta er fyr­ir hendi að erfitt verði fyr­ir ríki Evr­ópu­sam­bands­ins [ESB] að vinna sig út úr þeim efna­hagsþreng­ing­um sem bar­ist er við. Vand­inn virðist krón­ísk­ur.

Í ræðu á ár­leg­um fundi sendi­herra ESB hélt Josep Bor­ell ut­an­rík­is­mála­stjóri sam­bands­ins því fram að aðild­ar­rík­in hefðu rofið sam­bandið milli vel­meg­un­ar og ör­ygg­is. Hag­sæld land­anna hefði byggst á ódýrri orku frá Rússlandi og greiðum aðgangi að kín­versk­um mörkuðum, jafnt fyr­ir út­flutn­ing og inn­flutn­ing. Rúss­neskt gas hefði verið ódýrt og talið hag­kvæmt með ör­uggu fram­boði. Kína hefði verið vett­vang­ur fjár­fest­inga og upp­spretta ódýrra iðnaðar­vara. Þannig hefði kín­verskt verka­fólk, með sín lágu laun, gert meira og staðið sig miklu bet­ur við að halda verðbólgu í skefj­um en all­ir seðlabank­ar álf­unn­ar sam­an­lagt.

Á sama tíma og vel­meg­un ríkja ESB hafi verið byggð á Kína og Rússlandi – aðgengi út­flutn­ings að ri­samarkaði og nægu fram­boði af hag­stæðri orku – fram­selji Evr­ópa ör­yggi sitt til Banda­ríkj­anna. Josep Bor­ell horf­ir á gjör­breytta heims­mynd. Þótt sam­starfið við Banda­rík­in hafi verið gott og far­sælt geti póli­tísk­ir vind­ar í Washingt­on breytt um stefnu. Aug­ljóst sé að ESB verði að marka nýja stefnu í orku­mál­um og fram­leiða orku inn­an sam­bands­ins – verða óháð öðrum. „Besta ork­an er sú sem þú fram­leiðir heima,“ sagði Bor­ell í ræðu sinni. Efna­hags­leg vel­sæld verði ekki leng­ur byggð á Rússlandi og Kína. Orka frá Rússlandi sé hvorki ódýr né ör­ugg. Aðgang­ur að Kína verði sí­fellt erfiðari. Þetta krefj­ist rót­tækr­ar end­ur­skipu­lagn­ing­ar á hag­kerfi aðild­ar­ríkj­anna og skapi póli­tísk vanda­mál. Um leið kom­ist lönd ESB ekki hjá því að axla meiri ábyrgð á eig­in ör­yggi.

Kross­göt­ur

Óháð því hvort tekið er und­ir með ut­an­rík­is­mála­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins eða ekki má öll­um vera ljóst að sam­bandið stend­ur á kross­göt­um. Margt bend­ir til þess að vandi aðild­ar­ríkj­anna sé jafn­vel djúp­stæðari en Bor­ell rakti í áður­nefndri ræðu.

Öll lönd ganga í gegn­um hagsveifl­ur – góðæri og sam­drátt, upp­gang og krepp­ur. Aðlög­un­ar­hæfni efna­hags­lífs Vest­ur­landa á liðinni öld var mik­il. Á tím­um sam­drátt­ar gátu Evr­ópu­bú­ar treyst á frum­kvöðla og að fjár­magn leitaði í arðbær­ar fjár­fest­ing­ar sem byggðu und­ir hag­vöxt framtíðar­inn­ar. Hug­vit og sterk­ir innviðir iðnfram­leiðslu með aðgengi að nægri orku leiddu upp­bygg­ingu eft­ir efna­hags­sam­drátt – og raun­ar heims­styrj­ald­ir.

Ralph Schoell­hammer, lektor í hag­fræði og stjórn­mála­fræði við Web­ster-há­skól­ann í Vín, var­ar við því í ný­legri blaðagrein að aðstæður sem gerðu lönd­um Evr­ópu kleift að vinna sig út úr krepp­um hafi gjör­breyst til hins verra. Ekki sé leng­ur hægt að reikna með því að mynd­ar­legt vaxt­ar­skeið og ný­sköp­un fylgi í kjöl­far sam­drátt­ar. Skort­ur á orku og minnk­andi sam­keppn­is­hæfni á flest­um sviðum, allt frá mennt­un til tækni og ný­sköp­un­ar, leiði til efna­hags­legr­ar hnign­un­ar. Til verður víta­hring­ur – eða spírall sam­drátt­ar.

Þegar fjár­fest­ar átta sig á þess­ari staðreynd minnk­ar trú­in á efna­hags­leg­um bata ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins og fjár­mögn­un­ar­kostnaður eykst sem skuld­sett­ir rík­is­sjóðir ráða illa eða ekki við. Schoell­hammer seg­ir að það sé sér­stak­lega pirr­andi að vand­ræðin séu sjálf­skap­ar­víti. Einu sinni var ESB nær sjálf­bært hvað viðkom jarðgasi en á ár­un­um 2011 til 2021 minnkaði gas­fram­leiðslan um helm­ing. Á árum áður var Þýska­land með öfl­uga raf­orku­fram­leiðslu í kjarn­orku­ver­um en þeim hef­ur flest­um verið lokað í mis­skildu trausti á því að hag­kvæmt og tryggt fram­boð af orku kæmi frá Rússlandi. Und­ir­stöður Þýska­lands sem efna­hags­legs stór­veld­is líkj­ast brauðlöpp­um. Orkukrepp­an bæt­ist ofan á gríðarlega erfiðleika í lönd­um Suður-Evr­ópu. Skuld­sett­ir rík­is­sjóðir eru að slig­ast og gamla stór­veldið Frakk­land er í raun gjaldþrota þegar tekið er til­lit til þungra líf­eyr­is­skuld­bind­inga sem eru ófjár­magnaðar og velt inn í framtíðina á sama tíma og þjóðin eld­ist. Við blas­ir stór­kost­leg­ur niður­skurður vel­ferðar­kerf­is­ins og/​eða mikl­ar skatta­hækk­an­ir sem aft­ur knýja spíral­inn niður.

Pissa í skó­inn

Hætt­an er sú að for­ystu­fólk ESB velji „auðveldu“ leiðina í ör­vænt­ing­ar­fullri viðleitni til að vinna gegn þreng­ing­um og versn­andi lífs­kjör­um. Á Íslandi segj­um við að pissa í skó­inn. Rík­is­út­gjöld verða auk­in. En auk­in út­gjöld sam­hliða minni verðmæta­sköp­un leiðir óhjá­kvæmi­lega til verðbólgu – enn meiri verðbólgu. Og svarið. Jú, út­gjöld­in verða auk­in enn frek­ar. Spírall­inn held­ur áfram.

Schoell­hammer held­ur því fram að lít­ill sem eng­inn vilji sé hjá ráðamönn­um ESB til að brjót­ast út úr víta­hringn­um. Þess vegna séu efna­hags­vand­ræði Evr­ópu rétt að byrja. Þessi skoðun renn­ir stoðum und­ir full­yrðing­ar Joseps Bor­ells ut­an­rík­is­mála­stjóra ESB um nauðsyn rót­tækr­ar end­ur­skipu­lagn­ing­ar inn­an aðild­ar­ríkj­anna.

Í sam­b­urði við ESB er staða okk­ar á Íslandi í flestu öf­undsverð. Við erum að stór­um hluta sjálf­bær í orku­mál­um með virkj­un fall­vatna og jarðhita. Við eig­um mögu­leika á því að tryggja full­komið sjálf­stæði í orku­mál­um með orku­skipt­um á kom­andi árum, en til þess þurf­um við að vera reiðubú­in til að auka raf­orku­fram­leiðslu með nýt­ingu jarðvarma, fall­vatna og vinds­ins. Staða rík­is­sjóðs er sterk­ari en flestra annarra ríkja og skuld­ir sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu með því lægsta sem þekk­ist. Líf­eyri­s­kerfið er sterkt og einn af horn­stein­um efna­hags­legr­ar vel­sæld­ar á kom­andi árum. Við höf­um náð að nýta auðlind­ir hafs­ins, ekki aðeins með sjálf­bær­um held­ur einnig með arðsöm­um hætti. Við eig­um öfl­ugt há­tæknifyr­ir­tæki og ótrú­leg­an fjölda tækn­isprota. Í sam­an­b­urði við aðrar þjóðir Evr­ópu erum við enn ung en fram und­an eru áskor­an­ir.

En jafn­vel þótt við stönd­um styrk­um fót­um erum við ekki ónæm fyr­ir vanda annarra landa. Nái lönd ESB ekki að vinna sig hratt út úr efna­hags­leg­um þreng­ing­um hef­ur það nei­kvæð áhrif hér á landi. Þreng­ing­ar í Evr­ópu eru áskor­an­ir okk­ar Íslend­inga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. október 2022.