Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Ég geri mér grein fyrir því að erfitt verður að sameina forystu verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekendur og stjórnmálamenn um að reisa þriðju stoðina undir eignamyndun launafólks og stuðla þannig að fjárhagslegu sjálfstæði þess. Eignamyndun millistéttarinnar og þeirra sem lægri laun hafa er byggð á tveimur meginstoðum; annars vegar á lífeyrisréttindum og hins vegar á verðmæti eigin húsnæðis. Með skattalegum hvötum og auknu frelsi í lífeyrismálum er mögulegt að skjóta þriðju stoðinni undir eignamyndun launafólks; gera því kleift að byggja upp eigið eignasafn í formi hlutabréfa og annarra verðbréfa.
Mér hefur verið það lengi ljóst að mörgum vinstri manninum þyki það lítilsigldur hugsunarháttur að láta sig dreyma um að launafólk geti tekið virkan þátt í atvinnulífinu með því að eignast hluti í fyrirtækjum, litlum og stórum. Í stað þess að stuðla að eignamyndun almennings eru vinstri menn uppteknir af því smíða flókið þrepaskipt skattkerfi með viðamiklum millifærslum og tilheyrandi jaðarsköttum. Margir tortryggja atvinnulífið og vilja fremur leggja steina í götur fyrirtækja en greiða leið þeirra til uppbyggingar og nýsköpunar með einföldu regluverki og hófsömum sköttum. Á stundum er engu líkara en að velgengni í viðskiptum sé refsiverð í hugum vinstri manna sem lengst ganga. Þeir sem aðhyllast slíka hugmyndafræði, sósíalistar og bandamenn þeirra, hafa alla tíð reynt að grafa undan séreignarstefnunni sem miðar að því að gera sem flestum kleift að eignast eigið húsnæði.
Hugmyndafræði eymdar og skorts
Í grein sem ég skrifaði í tímaritið Þjóðmál vorið 2016 hélt ég því fram að séreignarstefnan og fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna séu hornsteinar borgaralegs samfélags: „Þetta vita sósíalistar og þess vegna eru þeir á móti séreignarstefnunni og hafa engan skilning á löngun einstaklinganna að standa á eigin fótum með því að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði sitt og sinna. Borgarfulltrúi Samfylkingar hefur haldið því fram að séreignarstefnan sé stórhættuleg og að nauðsynlegt sé að skapa annan valkost. Atlagan að séreignarstefnunni er hluti af langvinnum átökum um samfélagsgerðina, þar sem takast á öfl stjórnlyndis og frjálslyndis, sameignarsinna og séreignarsinna. Markmiðið er að grafa undan grunngildum samfélags sem byggist á frjálsum viðskiptum og frelsi einstaklingsins þar sem ríkið er verkfæri borgaranna en ekki þegnar ríkisvaldsins.“
Hægt er að kalla hugmyndafræði sem skilur ekki mikilvægi þess að stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinga ýmsum nöfnum. Hugmyndafræði eymdarinnar og skortsins kemur upp í hugann. Gegn slíkri hugmyndafræði standa þeir sem berjast fyrir því að gera sem flestum kleift að verða eignafólk og tryggja þeim fjárhagslegt sjálfstæði. Fátt tryggir betur frelsi einstaklingsins – valfrelsi hans hvort heldur er á vinnumarkaði, í húsnæðismálum eða á öðrum sviðum en fjárhagslegt sjálfstæði sem aftur er einn af hornsteinum jafnréttis.
Stjórnmálamenn sem aðhyllast hugmyndafræði eignastefnunnar telja það skyldu sína að stuðla að fjárhagslegu öryggi einstaklinga og fjölskyldna. Þeir skilja samhengið á milli fjárhagslegs sjálfstæðis, lágra skatta og atvinnufrelsis.
Byggt undir eignamyndun
Í samstarfi við aðra þingmenn Sjálfstæðisflokksins hef ég undanfarin ár barist fyrir því að innleiddir verði skattalegir hvatar til að auðvelda launafólki að fjárfesta beint í fyrirtækjum. Við höfum lagt fram frumvarp um að veita einstaklingum heimild, með ákveðnum takmörkunum, til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóða. Og það er hægt að ganga lengra til að styrkja eignamyndun almennings; með því að auka frelsi launafólks til að ráðstafa séreignarsparnaði sínum til að byggja upp lífeyri.
Ráðstöfun séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu eign var mikilvægt skref í þeim efnum – skref sem tekin voru undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Með lögfestingu tilgreindrar séreignar opnast frekari möguleikar á að veita launafólki frelsi til að byggja upp sparnað með beinni þátttöku í atvinnulífinu. Heimila á einstaklingum að nýta tilgreinda séreign til að byggja upp eigið eignasafn í formi hlutabréfa og annarra verðbréfa.
Með skattaafslætti og heimild til að ráðstafa tilgreindri séreign í sjálfstætt verðbréfasafn er stuðlað að beinni þátttöku launafólks í atvinnurekstri. Hagsmunir þeirra og atvinnulífs eru hnýttir betur saman, sem leitt getur til aukins áhuga á atvinnulífinu og betri skilnings um stöðu hagkerfisins og þeirra áhrifa sem breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja, t.d. skattbreytingar eða almenn launaþróun, kunna að hafa í för með sér. Um leið er rudd leið fyrir launafólk til að hafa áhrif á störf og stefnu fyrirtækja.
Gegn hugmyndum af þessu tagi verður örugglega staðið. Stjórnmálamenn og álitsgjafar sem skipulega ala á fjandskap í garð atvinnulífsins hugsa líklega til þess með hryllingi að launafólk taki með beinum hætti þátt í atvinnulífinu. En ekki verður öðru trúað en að góður skilningur sé á því meðal skynsamra forystumanna innan verkalýðshreyfingarinnar, hve mikilvægt það er að reisa þriðju styrku stoðina undir fjárhagslegt sjálfstæði launafólks. Með stuðningi þeirra, atvinnulífsins og borgaralegra stjórnmálaflokka getur draumurinn orðið að veruleika, þrátt fyrir rótgróna andstöðu hagsmunaafla.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. október 2022.