Lóðaskortur er leiðarljós vinstri meirihlutans í húsnæðismálum

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:

Hús­næðismál voru meg­in­efni síðasta fund­ar borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur. Fyr­ir fund­in­um lá til­laga Sjálf­stæðis­flokks­ins um að haf­ist verði handa við skipu­lagn­ingu framtíðar­í­búðasvæðis í Geld­inga­nesi með hliðsjón af skipu­lags­vinnu Sunda­braut­ar. En und­ir­bún­ing­ur Sunda­braut­ar er von­andi loks haf­inn af al­vöru eft­ir langvar­andi töf vinstri flokk­anna í borg­ar­stjórn.

Þótt ekki verði byggt á Geld­inga­nesi á allra næstu árum er æski­legt að skipu­lag íbúðabyggðar þar verði unnið sam­hliða vinnu við skipu­lag og hönn­un Sunda­braut­ar, sem mun setja mik­inn svip á nesið. Geld­inga­nes hent­ar vel til íbúa­byggðar og Sunda­braut get­ur fallið vel að henni. For­senda þess er þó sú að byggðin og braut­in séu skipu­lögð sam­hliða en ekki með bútasaumi.

Áður en til­lag­an um framtíðarbyggð á Geld­inga­nesi var flutt á fund­in­um, lýsti Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri yfir því að hún yrði felld af full­trú­um meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar, Pírata og Viðreisn­ar. Hef­ur það ekki gerst áður að meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar gefi út slíka yf­ir­lýs­ingu um lýðræðis­lega til­lögu áður en tek­ist hef­ur að kynna hana og ræða í borg­ar­stjórn eins og lög gera ráð fyr­ir. Slík málsmeðferð er ný­mæli og vænt­an­lega hluti af yf­ir­lýstri stefnu nýs meiri­hluta að efla lýðræðis­leg vinnu­brögð í borg­ar­stjórn.

Keldna­land fái ekki sam­keppni

Al­ex­andra Briem, borg­ar­full­trúi og formaður um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs, gerði grein fyr­ir stefnu nýs meiri­hluta í skipu­lags­mál­um á fund­in­um. Útskýrði hún þétt­ing­ar­stefnu meiri­hlut­ans og sagði að verið væri að und­ir­búa Keldna­land sem næsta stóra upp­bygg­ing­ar­svæði enda væri það í sam­ræmi við svo­kallaðan sam­göngusátt­mála. Að bæta við Geld­inga­nesi, sem væri stórt svæði og mikið til ósnortið, væru mis­tök á næstu árum og jafn­vel ára­tug­um. Síðan sagði hún orðrétt sam­kvæmt vandaðri um­fjöll­un Kjarn­ans um málið:

„Við vilj­um ekki vera að byggja upp Geld­inga­nes á til dæm­is sama tíma og Keldna­landið, þá í beinni sam­keppni við Keldna­landið, enda er það eitt af mark­miðum sam­göngusátt­mál­ans að reyna að fá gott verð fyr­ir það Keldna­land, enda er því ætlað að fjár­magna stór­an hluta sam­göngusátt­mál­ans af hálfu rík­is­ins. Því væri það í raun til höfuðs því verk­efni að setja í gang annað nýtt stórt út­hverfi sam­tím­is. Ég held að það væru mis­tök,“ sagði Al­ex­andra.

Lóðaskort­ur hækk­ar hús­næðis­verð

Stefna nýs meiri­hluta í skipu­lags­mál­um verður varla orðuð skýr­ar. Lóðaskorti skal m.ö.o. viðhaldið í borg­inni til að sem best verð fá­ist fyr­ir bygg­ing­ar­lóðir í Keldna­landi, sem ætlað er að fjár­magna stór­an hluta svo­nefnds sam­göngusátt­mála. Halda þarf lóðaverði uppi til að tryggja að afrakst­ur hins op­in­bera verði sem mest­ur við skipu­lagn­ingu Keldna­lands­ins og sölu lóða úr því til al­menn­ings. Gott fram­boð lóða á hag­stæðu verði í öðrum hverf­um myndi auðvitað lækka lóðaverð og þannig trufla áður­nefnd­ar fyr­ir­ætlan­ir.

Þessi stefna vinstri meiri­hlut­ans í Reykja­vík geng­ur auðvitað í ber­högg við hags­muni tugþúsunda Reyk­vík­inga, ekki síst ungs fólks, sem hef­ur lítið á milli hand­anna en þráir ekk­ert heit­ar en að kom­ast í eigið hús­næði. Lóðaskort­ur stuðlar að háu lóðaverði sem hef­ur aft­ur á móti hátt hús­næðis­verð í för með sér. Á meðan hús­næðismál í Reykja­vík eru föst í þess­um víta­hring vinstri flokk­anna, verður hús­næðis­vand­inn ekki leyst­ur.

Keldna­hverfi verði fal­legt og mann­væn­legt

Keldna­land er fal­legt svæði og þar er því gott tæki­færi til að hanna fal­legt og eft­ir­sókn­ar­vert íbúðahverfi. Æskilegt er að það verði skipu­lagt með svipuðum hætti og gert var með góðum ár­angri í næsta ná­grenni, þ.e. Folda­hverfi og Húsa­hverfi. Áður­nefnd yf­ir­lýs­ing for­manns skipu­lags­ráðs vek­ur hins veg­ar ugg um að við skipu­lag Keldna­hverf­is verði meiri áhersla lögð á mikla upp­bygg­ingu og há­marks­a­frakst­ur af lóðasölu en að skapa þar fal­legt og mann­væn­legt hverfi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. október 2022.