Útlendingamál

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heim­in­um eða rúm­lega 80 millj­ón­ir manna. Mál­efni fólks á flótta er því stórt umræðuefni í Evr­ópu allri. Inn­rás Rússa í Úkraínu hef­ur auðvitað aukið þenn­an vanda stór­kost­lega. Á síðustu árum hef­ur eng­in póli­tísk samstaða ríkt um mál­efni út­lend­inga og ít­rekað hef­ur ráðherra verið rek­inn til baka með frum­varp um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um. Ný­verið fór alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd Alþing­is í ferð til Nor­egs og Dan­merk­ur til að kanna stöðu út­lend­inga­mála þar og hvers eðlis póli­tíska umræðan er þar.

Hlut­falls­lega sækja mun fleiri um alþjóðlega vernd hér á landi en í hinum ríkj­um Norður­land­anna, sem verður að telj­ast sér­kenni­legt út frá stærð og legu lands­ins. Árin 2019, 2020 og 2021 voru um­sókn­ir á Norður­lönd­un­um hlut­falls­lega flest­ar hér á landi, næst­flest­ar í Svíþjóð og mun færri í hinum lönd­un­um. Sama þróun virðist vera á þessu ári. Á ár­inu 2021 voru 23 um­sókn­ir um alþjóðlega vernd á hverja 10.000 íbúa hér á landi á meðan þær voru 11 á hverja 10.000 íbúa í Svíþjóð.

Óhætt er að segja að í Nor­egi og Dan­mörku ríki tölu­verð póli­tísk og sam­fé­lags­leg sátt um mála­flokk­inn. Á báðum stöðum er lagt mikið upp úr hlut­verki þess alþjóðakerf­is sem um­sókn­ir og veit­ing alþjóðlegr­ar vernd­ar er. Mik­il­vægt er að um­sækj­end­ur fái rétt­láta og vandaða málsmeðferð, sem auðvitað hef­ur líka verið kapps­mál okk­ar. En þegar þeirri málsmeðferð er lokið hafa Norðmenn og Dan­ir öfl­uga og skil­virka end­ur­send­inga­stefnu fái um­sækj­andi synj­un um alþjóðlega vernd. Norsk­ir og dansk­ir þing­menn töluðu um þá stefnu sem mik­il­væg­an hluta kerf­is­ins og þar virðist ekki verða sama ólga og hér á landi þegar kem­ur að brott­vís­un þeirra sem hlotið hafa synj­un.

Á síðustu árum hef­ur verið áber­andi hér á landi hversu hátt hlut­fall um­sækj­enda um alþjóðlega vernd hef­ur þegar hlotið vernd í öðru Evr­ópu­ríki. En Ísland sker sig úr hvað þetta varðar með sér­ís­lensk­ar regl­ur fyr­ir um­sækj­end­ur í þeirri stöðu. Er eðli­legt að Ísland geri það? Eru þeir sem hlotið hafa vernd í öðru Evr­ópu­ríki í neyð og ótt­ast um líf sitt og frelsi – en það er neyðin sem vernd­ar­kerfið er sniðið utan um.

Sveit­ar­fé­lög­in og aðlög­un að ís­lensku sam­fé­lagi

Þegar fólk fær svo vernd á Íslandi er mik­il­vægt að vel sé tekið á móti þeim, þeim hjálpað að læra á ís­lenskt sam­fé­lag, börn­um hjálpað að aðlag­ast skóla og frí­stund, þeim kennd ís­lenska auk al­mennr­ar aðstoðar. Norðmenn hafa gert þetta mjög vel og þar leika sveit­ar­fé­lög­in lyk­il­hlut­verk. Sveit­ar­fé­lög­in fá greiðslur frá rík­inu með hverj­um ein­stak­lingi sem þau þjón­usta og það er þeirra hag­ur að veita sem besta þjón­ustu. Því bet­ur sem aðlög­un­in geng­ur því betra fyr­ir ein­stak­ling­ana, skól­ana, at­vinnu­lífið og sam­fé­lagið allt. Ég tel ein­sýnt að við get­um lært af frænd­um okk­ar í Nor­egi hvað þetta varðar. Enda ljóst að mik­il þörf er á því að sveit­ar­fé­lög­in taki virk­an þátt í því að taka á móti flótta­mönn­um. Það hafa þau mörg gert mjög vel og eru ófá­ar góðar sög­ur af kvóta­flótta­mönn­um sem hingað hafa komið. Nauðsyn­legt er að nýta þá þekk­ingu og reynslu flótta­mönn­un­um, sveit­ar­fé­lög­un­um og okk­ur öll­um til heilla.

Dval­ar- og at­vinnu­leyfi á Íslandi

Síðastliðin 100 ár eða svo hef­ur lífs­kjör­um á Íslandi fleygt fram. Sam­hliða þeirri þróun hafa lífs­lík­ur auk­ist ásamt því að barneign­ir hafa dreg­ist sam­an. Með bætt­um lífs­gæðum, auk­inni þjón­ustu og hlut­falls­lega færri vinn­andi hönd­um hafa opn­ast tæki­færi fyr­ir er­lenda rík­is­borg­ara að sækja landið heim til að vinna og búa hér til fjöl­skyldu og líf til lengri tíma. Ísland er sem bet­ur fer aðili að Evr­ópska efna­hagsvæðinu (EES) sem þýðir að við erum op­inn vinnu­markaður fyr­ir þær 500 millj­ón­ir manna sem í ríkj­um EES-búa. Þannig geta íbú­ar ríkja EES dvalið hér í lengri eða skemmri tíma, starfað og tekið þátt í sam­fé­lag­inu okk­ar. Þetta hef­ur svo sann­ar­lega komið sér vel fyr­ir okk­ur Íslend­inga og ekk­ert síður þá sem vilja sækja Ísland heim til náms eða þá Íslend­inga sem vilja læra eða starfa í öðrum EES-lönd­um.

En fyr­ir þá sem búa utan ríkja EES og lang­ar að flytja til Íslands, þá get­ur sú leið verið mjög tor­fær og jafn­vel ófær. Ákveðnar leiðir eru opn­ar fyr­ir um­sókn­ir um tíma­bundið at­vinnu­leyfi og ber þar helst að nefna tíma­bundið at­vinnu­leyfi vegna starfa sem krefjast sér­fræðiþekk­ing­ar. Hins veg­ar er mun erfiðara að sækja um at­vinnu­leyfi ef ekki er hægt að flagga sér­fræðinga­vott­orði.

Væri ekki eðli­legra að liðka til í reglu­verki okk­ar þannig að fólk geti sótt hér um dval­ar- og at­vinnu­leyfi þó það sé ekki rík­is­borg­ar EES-land­anna? Á sama tíma myndi álagið létt­ast af vernd­ar­kerf­inu okk­ar sem gæfi okk­ur aukið svig­rúm til að sinna því fólki bet­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2022