Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum eða rúmlega 80 milljónir manna. Málefni fólks á flótta er því stórt umræðuefni í Evrópu allri. Innrás Rússa í Úkraínu hefur auðvitað aukið þennan vanda stórkostlega. Á síðustu árum hefur engin pólitísk samstaða ríkt um málefni útlendinga og ítrekað hefur ráðherra verið rekinn til baka með frumvarp um breytingar á útlendingalögum. Nýverið fór allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í ferð til Noregs og Danmerkur til að kanna stöðu útlendingamála þar og hvers eðlis pólitíska umræðan er þar.
Hlutfallslega sækja mun fleiri um alþjóðlega vernd hér á landi en í hinum ríkjum Norðurlandanna, sem verður að teljast sérkennilegt út frá stærð og legu landsins. Árin 2019, 2020 og 2021 voru umsóknir á Norðurlöndunum hlutfallslega flestar hér á landi, næstflestar í Svíþjóð og mun færri í hinum löndunum. Sama þróun virðist vera á þessu ári. Á árinu 2021 voru 23 umsóknir um alþjóðlega vernd á hverja 10.000 íbúa hér á landi á meðan þær voru 11 á hverja 10.000 íbúa í Svíþjóð.
Óhætt er að segja að í Noregi og Danmörku ríki töluverð pólitísk og samfélagsleg sátt um málaflokkinn. Á báðum stöðum er lagt mikið upp úr hlutverki þess alþjóðakerfis sem umsóknir og veiting alþjóðlegrar verndar er. Mikilvægt er að umsækjendur fái réttláta og vandaða málsmeðferð, sem auðvitað hefur líka verið kappsmál okkar. En þegar þeirri málsmeðferð er lokið hafa Norðmenn og Danir öfluga og skilvirka endursendingastefnu fái umsækjandi synjun um alþjóðlega vernd. Norskir og danskir þingmenn töluðu um þá stefnu sem mikilvægan hluta kerfisins og þar virðist ekki verða sama ólga og hér á landi þegar kemur að brottvísun þeirra sem hlotið hafa synjun.
Á síðustu árum hefur verið áberandi hér á landi hversu hátt hlutfall umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur þegar hlotið vernd í öðru Evrópuríki. En Ísland sker sig úr hvað þetta varðar með séríslenskar reglur fyrir umsækjendur í þeirri stöðu. Er eðlilegt að Ísland geri það? Eru þeir sem hlotið hafa vernd í öðru Evrópuríki í neyð og óttast um líf sitt og frelsi – en það er neyðin sem verndarkerfið er sniðið utan um.
Sveitarfélögin og aðlögun að íslensku samfélagi
Þegar fólk fær svo vernd á Íslandi er mikilvægt að vel sé tekið á móti þeim, þeim hjálpað að læra á íslenskt samfélag, börnum hjálpað að aðlagast skóla og frístund, þeim kennd íslenska auk almennrar aðstoðar. Norðmenn hafa gert þetta mjög vel og þar leika sveitarfélögin lykilhlutverk. Sveitarfélögin fá greiðslur frá ríkinu með hverjum einstaklingi sem þau þjónusta og það er þeirra hagur að veita sem besta þjónustu. Því betur sem aðlögunin gengur því betra fyrir einstaklingana, skólana, atvinnulífið og samfélagið allt. Ég tel einsýnt að við getum lært af frændum okkar í Noregi hvað þetta varðar. Enda ljóst að mikil þörf er á því að sveitarfélögin taki virkan þátt í því að taka á móti flóttamönnum. Það hafa þau mörg gert mjög vel og eru ófáar góðar sögur af kvótaflóttamönnum sem hingað hafa komið. Nauðsynlegt er að nýta þá þekkingu og reynslu flóttamönnunum, sveitarfélögunum og okkur öllum til heilla.
Dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi
Síðastliðin 100 ár eða svo hefur lífskjörum á Íslandi fleygt fram. Samhliða þeirri þróun hafa lífslíkur aukist ásamt því að barneignir hafa dregist saman. Með bættum lífsgæðum, aukinni þjónustu og hlutfallslega færri vinnandi höndum hafa opnast tækifæri fyrir erlenda ríkisborgara að sækja landið heim til að vinna og búa hér til fjölskyldu og líf til lengri tíma. Ísland er sem betur fer aðili að Evrópska efnahagsvæðinu (EES) sem þýðir að við erum opinn vinnumarkaður fyrir þær 500 milljónir manna sem í ríkjum EES-búa. Þannig geta íbúar ríkja EES dvalið hér í lengri eða skemmri tíma, starfað og tekið þátt í samfélaginu okkar. Þetta hefur svo sannarlega komið sér vel fyrir okkur Íslendinga og ekkert síður þá sem vilja sækja Ísland heim til náms eða þá Íslendinga sem vilja læra eða starfa í öðrum EES-löndum.
En fyrir þá sem búa utan ríkja EES og langar að flytja til Íslands, þá getur sú leið verið mjög torfær og jafnvel ófær. Ákveðnar leiðir eru opnar fyrir umsóknir um tímabundið atvinnuleyfi og ber þar helst að nefna tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar. Hins vegar er mun erfiðara að sækja um atvinnuleyfi ef ekki er hægt að flagga sérfræðingavottorði.
Væri ekki eðlilegra að liðka til í regluverki okkar þannig að fólk geti sótt hér um dvalar- og atvinnuleyfi þó það sé ekki ríkisborgar EES-landanna? Á sama tíma myndi álagið léttast af verndarkerfinu okkar sem gæfi okkur aukið svigrúm til að sinna því fólki betur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2022