Kaupmáttur vaxið um 57% frá 2012

Vöxtur kaupmáttar á Íslandi frá árinu 2012 er 57%. Til samanburðar hefur vöxtur kaupmáttar á hinum Norðurlöndunum verið á bilinu 2-10% á sama tímabili. Þetta kemur fram í skýrslu Katrínar Ólafsdóttur dósents við Háskólann í Reykjavík sem tekin var saman að beiðni forsætisráðuneytisins og lögð fyrir þjóðhagsráð í ágúst sl.

Sé kaupmáttur allt aftur til ársins 2008 skoðaður var hann 39% á tímabilinu sem sýnir að kaupmátturinn hefur vaxið mjög hin síðustu ár. Á sama tímabili var kaupmátturinn 4-16% á hinum Norðurlöndunum.

Muninn má að mestu skýra með mismunandi verðbólguþróun þessara landa. Athygli vekur að launaþróun hér á landi á meira skylt með Eystrasaltsríkjunum á tímabilinu en með hinum Norðurlöndunum þar sem laun hafa hækkað minna en á Íslandi. Vöxtur launa í Litháen var meiri en á Íslandi á tímabilinu en ívið minni í Eistlandi og Lettlandi.

Þó eru tekjur á mann á Íslandi sambærilegar tekjur á öðrum Norðurlöndum. Landsframleiðsla á mann var hærri í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, en lægri í Finnlandi. Þó kaupmáttur hér á landi sé í takti við Eystrasaltsríkin þá á hið sama ekki við um landsframleiðslu. Landsframleiðsla á mann á Norðurlöndunum var töluvert meiri á tímabilinu en í Eystrasaltsríkjunum. Hún var þannig 40% meiri á Íslandi en að meðaltali í Eystrasaltsríkjunum.

„Það er því eðlilegt að sjá meiri kauphækkanir í löndum sem teljast nýmarkaðsríki en þróuðum ríkjum og því kemur ekki á óvart að launahækkanir í Eystrasaltsríkjunum séu meiri en á Norðurlöndunum. Ísland er aftur á móti í sérflokki þegar kemur að verðbólgu,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluna má finna hér.