Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Starfsemi grunnskóla og leikskóla í Reykjavík er víða í uppnámi. Áralöng vanræksla innviða og innantóm fyrirheit um hvers kyns endurbætur skilja fjölskyldur eftir í þröngri stöðu.
Leikskólastarf í uppnámi
Á dögunum bárust fregnir af því að flytja þyrfti alla starfsemi leikskólans Grandaborgar á aðra leikskóla. Í ljós hafði komið að skólplögn undir húsinu hafði farið í sundur, með þeim afleiðingum að mengun barst í jarðveg. Kanna þarf hvort skólpmengun gæti hafa borist í loftræstikerfi hússins og skapað óheilnæmt umhverfi fyrir börn og starfsfólk.
Einungis örfáum vikum fyrr hafði skólastarf í Grandaborg þegar orðið fyrir töluverðu raski vegna myglu sem upp kom í húsnæðinu. Ekki er langt síðan skólastarf komst í uppnám á leikskólunum Vesturborg og Ægisborg – sem tilheyra sama borgarhverfi – af sömu ástæðu. Athygli vekur að heildarúttekt á skólahúsnæði borgarinnar, sem framkvæmd var síðastliðið haust, leiddi ekki í ljós fyrirliggjandi skemmdir – og vekur upp spurningar um áreiðanleika úttektarinnar.
Leikskólavandinn snýr nefnilega ekki aðeins að skorti á leikskólarýmum, heldur jafnframt áralöngu viðhaldsleysi.
Til að kóróna vitleysuna – og fullkomna afneitun borgarstjóra á fyrirliggjandi vanda – veitti borgin sjálfri sér verðlaun á dögunum fyrir hálfkláraðar endurbætur á húsnæði sem nú hýsir leikskólann Brákaborg. Viðbrögð starfsmanna létu ekki á sér standa. Þarna var borgarstjóri að verðlauna sjálfan sig fyrir ófullnægjandi verk – á leikskóla sem ekki hefur verið fullkláraður og starfar nú við óviðunandi skilyrði. Skilyrði sem hvorki geta talist viðunandi fyrir börn né starfsfólk.
Grunnskólastarf í uppnámi
Melaskóli náði hámarksafkastagetu fyrir fjölmörgum árum og kosningar eftir kosningar lofa fulltrúar meirihlutans bót og betrun. Á liðnu kjörtímabili skilaði stýrihópur niðurstöðu forgangsröðunar vegna viðbygginga og endurbóta á skólahúsnæði í Reykjavík. Af fjórum verkefnum sem röðuðust í fyrsta forgang voru tveir skólar í Vesturbæ – Melaskóli og Hagaskóli – auk Réttarholtsskóla og skólanna í Laugardal.
Nemendur og starfsfólk Hagaskóla hafa verið á vergangi vegna myglu sem upp kom í húsnæðinu. Tveir árgangar voru fluttir í Ármúla meðan viðgerðir standa yfir en á dögunum var þó ákveðið að senda einn árgang í Korpuskóla í Grafarvogi, vegna óviðunandi brunavarna í Ármúlanum. Hver vitleysan rekur aðra.
Vandamálin eru víða og sannarlega ekki aðeins í Vesturbæ. Laugardalur glímir við erfiða stöðu vegna plássleysis. Skólastarf í Vogaskóla er nú í uppnámi vegna myglu. Öll þekkjum við vandræðaganginn úr Fossvogsskóla. Skólastarf var lagt niður í Staðarhverfi. Mygla hefur komið upp í skólum víða um borg og komið óviðunandi uppnámi á skólastarf.
Gerum betur
Starfsfólk grunnskóla og leikskóla borgarinnar á þakklæti og hrós skilið fyrir að starfa undir krefjandi aðstæðum við erfið skilyrði. Áralöng uppsöfnuð viðhaldsþörf á skólahúsnæði borgarinnar virðist nú hafa komið skólastarfi í uppnám víða um borg. Þúsundir barna fá ekki þann aðgang að menntun sem þau eiga rétt til.
Á borgarstjórnarfundi í dag hefur Sjálfstæðisflokkur sett skóla- og íþróttamál í Vesturbæ á dagskrá. Áður höfum við fjallað um stöðuna í Laugardal – og munum á komandi mánuðum taka stöðuna innan sérhvers borgarhverfis. Málaflokkinn þarf að setja í forgang, því öll viljum við tryggja börnum í borginni aðgang að heilnæmu skólahúsnæði og framsæknu skólastarfi. Við getum gert betur.
Greinin birtist á Vísi, 4. október 2022.