Hugrekki kvenna í Íran

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Okk­ur hef­ur lengi verið kunn­ugt um of­beldið sem kon­ur þurfa að sæta af hálfu klerka­stjórn­ar­inn­ar í Íran. Þeim er refsað grimmi­lega fyr­ir að brjóta gegn ströng­um regl­um um klæðaburð. Dag­lega eru kon­ur hand­tekn­ar og færðar til yf­ir­heyrslu fyr­ir þær sak­ir að víkja sér und­an skyld­unni til að ganga með hijab-höfuðslæðu.

Mahsa Am­ini, 22 ára kúr­dísk kona, lést í haldi siðgæðis­lög­regl­unn­ar í Teher­an fyrr í þess­um mánuði. Hún var hand­tek­in fyr­ir það eitt að hafa ekki hulið hár sitt nægi­lega að mati lög­regl­unn­ar. Aðeins tveim­ur klukku­stund­um eft­ir hand­tök­una fór Mahsa í dá. Hún var flutt á sjúkra­hús þar sem lækn­ar sögðu hana hafa fengið hjarta­slag og heila­blæðingu. Greint hef­ur verið frá því að hún hafi verið beitt miklu harðræði í bif­reið lög­regl­unn­ar og á lög­reglu­stöðinni.

Mik­il mót­mæla­alda braust út í kjöl­farið á þess­um hræðilega at­b­urði. Mót­mæl­in hafa breiðst út um landið og auk­in harka færst í viðbrögð stjórn­valda. Íransk­ar kon­ur á öll­um aldri hafa sýnt mikið hug­rekki og tekið for­ystu í mót­mæl­un­um. Klerka­stjórn­in hef­ur virkjað her­inn og látið skjóta á mót­mæl­end­ur, en þær aðgerðir hafa ekki skilað ár­angri enn sem komið er. Krafa mót­mæl­enda hef­ur einnig breyst og bein­ist nú ekki ein­göngu að því að af­nema skyld­una til að hylja hár sitt held­ur er kraf­ist rót­tækra breyt­inga á stjórn lands­ins.

Í ljósi þess mis­rétt­is og þeirr­ar kúg­un­ar sem ír­ansk­ar kon­ur þurfa að sæta af hálfu klerka­stjórn­ar­inn­ar er hug­rekki þeirra ein­stakt og aðdá­un­ar­vert. Frá valda­töku klerka­stjórn­ar­inn­ar 1979 hafa þúsund­ir kvenna verið tekn­ar af lífi vegna bar­áttu sinn­ar fyr­ir auknu umb­urðarlyndi og lýðræði. And­spyrna þeirra og fórn­ir hafa opnað augu og verið leiðarljós þeirr­ar kyn­slóðar ír­anskra kvenna sem nú er í far­ar­broddi í frels­is­bar­átt­unni. Mik­il óvissa rík­ir um fram­haldið í Íran og full ástæða er til að ótt­ast að mót­mæl­in verði brot­in á bak aft­ur af enn meiri hörku. Óánægj­an mun þó áfram krauma und­ir niðri og á end­an­um leiða til breyt­inga.

Segja má að nokk­ur þverstæða fel­ist í því að sitja við tölvu í frjálsu sam­fé­lagi á Íslandi og ætla að ímynda sér hvernig það er að vera kona í Íran og búa þar við kúg­un og of­beldi af hálfu yf­ir­valda öll­um stund­um. Lík­lega er eng­in leið til að setja sig í þau spor bú­andi við ör­yggi og frelsi hér á landi. Dýr­mæt­asta lexí­an kann þó að vera sú að þrátt fyr­ir að það séu mörg dæmi um það í sög­unni að stjórn­völd hafi kúgað íbúa til lengri eða skemmri tíma – og gera sums staðar enn – þá kem­ur von­andi að þeim tíma­punkti að fólk geti risið upp og varpað af sér ok­inu. Við sem búum þegar við frelsi eig­um að styðja það með öll­um mögu­leg­um ráðum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. september 2022.