Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Samkvæmt lögum um opinber innkaup er markmið þeirra að tryggja jafnræði fyrirtækja og stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum kemur fram að þar sé lögð áhersla á að draga úr hindrunum og auka aðgengi fyrirtækja að opinberum innkaupum. Lögin eru skýr en framkvæmdin virðist því miður oft á reiki. Hið opinbera fer t.a.m. gegn skýrum markmiðum laganna með því að skipta innkaupum upp í sjálfstæða samninga og gera viðvarandi eða endurnýjanlega samninga þannig að erfitt verður að átta sig á samanlögðu virði þeirra, án þess að hafa jafnræði og hagkvæmni að leiðarljósi. Og hagsmunaárekstrar geta verið til staðar sem raska jafnvægi bjóðenda.
Þessir starfshættir hins opinbera eru til viðbótar þeirri tilhneigingu að ráða opinbera starfsmenn í stað þess að úthýsa verkefnum og kaupa þjónustu af einkaaðilum. Gott (vont) dæmi um það er svokölluð stafræn umbreyting Reykjavíkurborgar sem sneri að miklu leyti að fjölgun á opinberum tæknimenntuðum starfsmönnum í beinni samkeppni um mikilvæga sérþekkingu við einkaaðila.
Fyrirtæki þurfa t.a.m. ósjaldan að sækja rétt sinn vegna innkaupa Reykjavíkurborgar og samningsgerð borgarinnar er því viðvarandi viðfangsefni kærunefndar útboðsmála.
Við höfum fylgst með raunum nýsköpunarfyrirtækisins Kara Connect í fjölmiðlum. Það á í miklu stappi við landlækni vegna kaupa embættisins á hugbúnaðarlausnum. Eftir kvörtun Kara Connect komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að innkaup landlæknis á hugbúnaðarlausn Heilsuveru og áframhaldandi þróun þess kerfis, ásamt Heklu heilbrigðisneti, væru ólögmæt. Embættið hefur nú stefnt fyrirtækinu til að freista þess að fá úrskurði nefndarinnar hnekkt. Þrátt fyrir áralanga baráttu við hið opinbera, m.a. um að fá afhentar upplýsingar um umrædd viðskipti, þar sem niðurstaða var kæranda í hag er ljóst að málinu er hvergi nærri lokið heldur rétt að byrja. Framkvæmdastjóri Kara Connect hefur lýst því að hún hafi fengið áfall við fréttirnar, enda um lítið frumkvöðlafyrirtæki að ræða.
Þessi staða er ekki einsdæmi. Fyrirtæki þurfa t.a.m. ósjaldan að sækja rétt sinn vegna innkaupa Reykjavíkurborgar og samningsgerð borgarinnar er því viðvarandi viðfangsefni kærunefndar útboðsmála. Nýleg dæmi eru útboð á uppsetningu og rekstri hleðslustöðva fyrir rafbíla og rekstur og viðhald vegna götulýsingar.
Þessa framkvæmd þekkjum við lögmenn vel, enda er slæleg framkvæmd opinberra innkaupa stöðug uppspretta verkefna fyrir okkar starfsstétt. En við þekkjum líka vel hversu lýjandi hún er þessi barátta atvinnulífsins við vindmyllur kerfisins. Það er nefnilega atvinnulífið sem heldur hinu opinbera á tánum til að það framfylgi reglum um opinber innkaup, reglum sem eru settar til hagsbóta fyrir atvinnulífið, neytendur – og fyrir skattgreiðendur.
Með þetta í huga hef ég sett fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um opinber innkaup innan heilbrigðiskerfisins, m.a. hvernig embætti landlæknis tryggi samkeppni og hagkvæmni í innkaupum. Það er nefnilega mikilvægt að Alþingi sinni eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdarvaldinu og styðji þannig við atvinnulífið.
Greinin birtist fyrst í Innherja.