Hundrað dagar

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs:

Það var ánægjulegt að setjast í bæjarstjórn í júní, á sama tíma og bærinn skartar sínu fegursta með fallegum blómatorgum sem vekja athygli út fyrir bæjarmörkin, og um leið tilhlökkunarefni að hefja þá vegferð að starfa í þágu bæjarbúa næstu fjögur árin. Nú eru tæplega 100 dagar liðnir af þeirri vegferð.

Mitt fyrsta verk í embætti var að mæta í ferð Félags eldri borgara í Kópavogi í Guðmundarlundi, sem var ákaflega skemmtilegur viðburður í einum af okkar fallegri stöðum. Eldri bæjarbúar eru ört vaxandi og fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir sem mikilvægt er að veita góða þjónustu. Rík áhersla verður því lögð á að þjónusta þennan hóp enn betur.

Leiðandi bær

Samvinna er lykilorð í verkefninu Virkni og vellíðan en þar taka íþróttafélögin og Kópavogsbær höndum saman við að hvetja eldri íbúa til hreyfingar og styrkja þannig við líkamlega, andlega og félagslega heilsu. Verkefnið gengur vel og eykur enn frekar það fjölbreytta íþróttastarf sem er að finna í Kópavogi. Á næstunni verður verkefnið útvíkkað þannig að það nái til stærri hóps og gefi þannig fleirum tækifæri til heilsueflingar allt árið um kring.

Í júlí bar Símamótið hæst, en þetta stórmót yngri flokka stúlkna í knattspyrnu setur ætíð afar skemmtilegan svip á bæinn. Árið í ár var engin undantekning og afar gaman að fá að hitta stjörnur framtíðarinnar á Kópavogsvelli.

Kópavogur er leiðandi í íþrótta- og æskulýðsmálum og við ætlum að tryggja að við verðum áfram framúrskarandi samfélag þegar horft er til aðstöðu til hreyfingar í nærumhverfi bæjarbúa, sem og viðhald og uppbyggingu innviða samfara fjölgun bæjabúa.

Á kjörtímabilinu verður börnum 5-6 ára tryggt gjaldfrjálst að stunda eina íþrótt eða tómstund. Þá verður frístundastyrkur barna og ungmenna á aldrinum 7-18 ára hækkaður í 70.000 krónur. Frístundastyrkurinn mun nýtast til almennrar heilsueflingar ungmenna en verður ekki takmarkaður eins og nú er.

Áhersla á val

Þegar leikskólarnir hófu göngu sína að loknu sumarleyfi fór „rútínan“ af stað hjá flestum fjölskyldum Kópavogs. Það var ánægjulegt að skipulag leikskólanna hefur almennt gengið vel í haust þó enn sé skortur á starfsfólki í einstökum skólum. Mikilvægt er að mæta þeim áskorunum sem felast í fjölgun ungra barna í bænum okkar og vöntun á vistunarúrræðum. Því leggjum við áherslu á að foreldrar hafi val um heimgreiðslu, dagvistun og leikskóla. Á næsta ári verða heimgreiðslur í boði fyrir foreldra ungbarna sem ekki fá leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi lýkur en auk þess verður farið af stað í tilraunaverkefni með færanlegar dagvistunarstofur við leikvelli bæjarins í þeim hverfum þar sem þörfin er mest.

Góð menntun gegnir lykilhlutverki í samfélagi okkar. Til að tryggja að skólar í Kópavogi verði áfram í fremstu röð þarf að tryggja áframhaldandi framþróun á sviði tækni og nýsköpunar. Fyrstu skref voru stigin á hundraðasta fundi Menntaráðs nýverið, þegar samþykkt var að fela grunnskóladeild að vinna áfram og greina kennsluhugbúnað hjá Ásgarði með það að markmiði bæta starfsumhverfi kennara og námsumhverfi skólabarna sem eykur gæði náms og starfsánægju skólasamfélagsins.

Fallegur bæjarbragur

Menning og listalíf spilar lykilhlutverk í því að búa til fallegan bæjarbrag sem bæði bætir ímynd og eykur hróður Kópavogs og gerir hann eftirsóknarverðari stað til að búa á. Í byrjun september var haustdagskrá Mekó kynnt með glæsibrag á sólríkum degi við menningarhús okkar. Pönkganga, slökunarjóga, ritsmiðja fyrir skúffuskáld ásamt fjölbreyttum tónleikum í Salnum og sýningarhald í Gerðarsafni eru dæmi um viðburði sem eru fram undan.

Á kjörtímabilinu verður áhersla lögð á aukið aðgengi allra bæjarbúa að viðburðum og stuðla að fjölbreyttu menningarstarfi í öllum hverfum bæjarins. Við viljum færa menninguna nær fólkinu og njóta þess sem listafólk Kópavogs hefur upp á að bjóða.

Kópavogur mun vaxa mikið á næstu áratugum og mikilvægt að vanda vel til verka þegar kemur að skipulags-, samgöngu- og umhverfismálum. Fjárfesting innviða þarf að haldast í hendur við þróun hverfa og íbúafjölda en þá gegnir þétting byggðar, vistvænir ferðamátar, greið og skilvirk umferð og virðing gagnvart umhverfinu lykilhlutverki.

Traustur rekstur

Ábyrgur rekstur er forsenda þess að unnt sé að tryggja innviði og veita sveigjanlega og góða þjónustu. Því skiptir höfuðmáli að standa vörð um traustan rekstur og safna ekki skuldum. Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand á fyrri hluta þessa árs voru skuldir Kópavogsbæjar greiddar niður um ríflega tvö hundruð milljónir króna, umfram hækkun verðbólgu. Til að mæta gríðarlegri hækkun á fasteignaverði ætlum við í Kópavogi að lækka fasteignaskatta á íbúa og fyrirtæki.

Eins og þessi stutta yfirferð sýnir höfum við hafist handa við þau verkefni og loforð sem núverandi samstarfsflokkar kynntu í vor. Verkefnin eru fjölbreytt og skemmtileg og til þess fallin að bæta og einfalda líf bæjarbúa. Kópavogur hefur um langt skeið verið farsælt sveitarfélag í fremstu röð og þannig verður það áfram undir okkar stjórn. Ég hlakka til næstu 1.360 daga sem eftir eru á kjörtímabilinu.