Þar sem ánægjan mælist mest

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins er slitrótt og biðlistar virðast einkenna þjónustuna. Jafnvel á stórum þéttbýliskjörnum eins og á Akureyri. Einstaklingar njóta því enn síður valfrelsis í heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarinnar, ef þeir hafa um einhverja þjónustu að velja yfir höfuð.

Fyrsta skrefið í eflingu heilsugæsluþjónustu um land allt var stigið á síðasta kjörtímabili með innleiðingu fjármögnunarlíkans heilsugæslu á landsbyggðinni. Þótt líkanið sé ekki fullkomið tókst loksins að tryggja að fjármagn fylgi notendum heilsugæslunnar alveg óháð rekstrarformi hennar. Þannig búa notendur og veitendur heilbrigðisþjónustu við sambærilegar leikreglur, sem er frumforsenda þess að hægt sé að færa þjónustuna nær íbúum.

Annað skref var tekið í sumar þegar rekstur annarrar af tveimur heilsugæslum í Reykjanesbæ var boðinn út, en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafði einmitt lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis fyrr í vor. Íbúafjöldi Reykjanesbæjar er sambærilegur og Akureyrarbæjar og því fátt ef eitthvað sem stendur í vegi fyrir því að endurtaka leikinn á Akureyri. Það er þess vegna sem ég hef nú lagt fyrir á Alþingi þingsályktunartillögu þess efnis að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum Íslands að bjóða út rekstur annarrar heilsugæslustöðvarinnar sem til stendur að opna á Akureyri.

Næsta skref gæti verið að gera sveitarfélögum í samstarfi við heilbrigðisstarfsmenn eða heilbrigðisfyrirtæki kleift að semja við Sjúkratryggingar Íslands um að færa hluta heilsugæsluþjónustunnar heim í hérað. Þannig gætu smærri sveitarfélög tryggt íbúum sínum aðgengi að heimilislæknum, hjúkrunarfræðingum og jafnvel sálfræðingum í samræmi við fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar, t.d. hluta úr viku, og eftirlit/eftirfylgni með fjarheilbrigðisþjónustu. En það er efni í aðra þingsályktunartillögu.

En af hverju einkarekstur?

Reglulega kviknar umræða um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og um fjölbreyttar leiðir í rekstri heilbrigðisþjónustu. Áður en lengra skal haldið er mikilvægt að því sé haldið til haga að leikreglurnar eru þær sömu óháð rekstrarformi; jafnt aðgengi íbúa, sama komugjald og sambærileg fjármögnun. En af hverju höfum við þetta þá ekki bara allt í höndum ríkisins?

1. Val fyrir notendur og starfsfólkMeð því að opna á möguleika íbúa til að velja milli heilsugæslustöðva sem reknar eru hver af sínum aðilanum mun íbúum standa til boða að velja þann veitanda þjónustu sem hentar þeim best hverju sinni, veitir bestu þjónustuna, er með styttri biðtíma eða skemmra frá heimilinu. Þannig munu fjármunirnir fylgja notandanum þangað sem hann kýs að fara og heilsugæslurnar hafa aukinn hvata til þess að bjóða upp á betri þjónustu.

Það sama má segja um starfsfólkið, sem mun hafa á milli fleiri kosta að velja og geta valið þann vinnustað sem hentar þeim betur, hvort sem hann er rekinn af ríkinu, sveitarfélaginu eða einkaaðila. Leiða má líkur að því að auknir valmöguleikar um rekstrarform hafi í för með sér að auðveldara verði að fá heimilislækna til starfa á Akureyri, en oft hefur reynst erfitt að fá sérfræðinga, hvort sem er á sviði læknisfræðinnar eða annarra sérfræðigreina, til starfa á landsbyggðinni og því mikilvægt að gera starfsumhverfi þeirra eins fjölbreytt og aðlaðandi og unnt er.

Akureyri hefur góða sögu að segja frá því að Heilsuvernd tók við rekstri hjúkrunarheimilanna Hlíðar og Lögmannshlíðar. Þar hefur tekist að snúa við rekstrinum en fyrir skiptin stefndu hjúkrunarheimilin í þrot. Ekki nóg með það heldur hefur ánægja íbúa, aðstandenda og starfsfólks með starfsemina aukist.

2. Ánægja og aukið traust

Samkvæmt þjónustukönnun Maskínu fyrir allar 19 heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2021 njóta einkareknar heilsugæslustöðvar almennt meira trausts en aðrar. Þar kom fram að allar fjórar einkareknu heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins voru yfir meðaltali þeirra heilsugæslustöðva sem nutu mests trausts, eins þegar spurt var um ánægju viðskiptavina, þá röðuðu þær sér í fjögur efstu sætin.

Ekki nóg með það heldur hefur traust og ánægja með þjónustu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu almennt aukist, sem gefur til kynna að valfrelsi notendanna hefur ýtt undir bætta þjónustu á öllum stöðvunum, ekki aðeins þeim einkareknu. Ég afsaka enskuslettuna en þetta er augljóst dæmi um svokallaða „win-win situation“.

Betri heilbrigðisþjónusta á landsbyggðunum

Kostir einkarekinna heilsugæslustöðva eru ótvíræðir og því full ástæða til þess að bjóða ekki einungis upp á þann kost á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig að tryggja landsbyggðunum möguleika á að nýta sér þjónustu þeirra. Á höfuðborgarsvæðinu geta notendur valið milli heilsugæsla sem reknar eru af ríkinu og þeim sem eru einkareknar og þannig valið þann þjónustuveitanda sem þeim hugnast best. Valfrelsi neytenda ætti að vera aukið á landsbyggðunum einnig.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.