Fólk skiptir máli

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skrifar:

Fyrir daga samgöngubyltingarinnar, samfélagsmiðla og internetsins var ekki einfalt fyrir almennan Íslending að átta sig á þeirri magnþrungnu fegurð sem hálendi og afskekktari staðir landsins geyma. Það var einna helst í gegnum ljóð skáldanna sem fólk gat séð fyrir sér dýrðina. Dæmi um slíkt er ljóðið Fjallið Skjaldbreiður eftir Jónas Hallgrímsson en við lesturinn stendur fjallið manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þar sem segir í fyrsta erindi:

Fanna skautar faldi háum
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógnaskjöldur bungubreiður
ber með sóma réttnefnið.

Mín kynslóð fékk að kynnast náttúru Íslands gegnum myndefni í sjónvarpi. Einn af helstu áhrifavöldunum á því sviði,  Ómar Ragnarsson, færði þjóðinni hvert náttúrundrið á fætur öðru alla leið heim í stofu, jafnt með Stikluþáttunum og öðrum myndum og fréttaefni. Hans framlag til náttúruverndar verður þannig aldrei metið að fullu, því með sínum einstaka hætti opnaði hann augu almennings fyrir þeim auðæfum sem íslensk náttúra hefur að geyma. Fyrir það er ég þakklátur og því var það mér heiður að afhenda Ómari Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á Degi íslenskrar náttúru.

Íslensk náttúra væri svo miklu fátækari ef ekki væri fyrir eldhuga sem eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar fyrir hana. Framtak og atorka einstaklinga skiptir nefnilega máli og hvert okkar getur haft áhrif. Skýrt dæmi um það er Ómar Ragnarsson.

Í dag njótum við íslenskrar náttúru í gegnum myndefni á samfélagsmiðlum samferðamanna okkar. Það er sérstakt ánægjuefni hversu margir Íslendingar kjósa að opna glugga fyrir okkur hin inn í sína upplifun á hálendinu. Í því var Ómar Ragnarsson sannkallaður brautryðjandi með níðþunga myndavél og Frúna sér til fulltingis.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.