Óþörf umræða um ESB-aðild?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Reykjavíkur skrifar:

Í vikunni ræddi þingið tillögu ESB-sinna á Alþingi, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata, um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Klárlega er hægt að ræða margt þarfara, en það var nýlunda að ESB-sinnar tækju þátt í efnislegri umræðu um málið.

ESB-sinnar reyna reglulega að koma aðild að sambandinu í umræðuna, vanalega við litlar undirtektir. Undanfarið hafa þeir tengt umræðuna um aðildarumsókn við efnahagsstöðuna, og þegar stríð brast á í Evrópu var það notað sem átylla þar sem „vatnaskil hafi orðið í umræðunni um stöðu Íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu“. Vatnaskilin voru auðvitað þau að forystumenn Evrópusambandsins urðu uppvísir að allt að því glæpsamlegri vanrækslu með því að auka viðskipta- og hagsmunatengsl við rússnesk stjórnvöld. Og það þrátt fyrir ógnartilburði og árásargirni þeirra. Innrásin hefur opnað augu flestra fyrir skelfilegri stöðu Evrópusambandsins. Það er ömurlegt að hugsa til þess að ESB hafi fjármagnað stríðsrekstur Pútíns með olíu- og gaskaupum. Og við bætist að Evrópusambandslönd, m.a. Þýskaland og Frakkland, urðu uppvís að því að selja Rússum vopn þrátt fyrir vopnasölubann eftir innlimun Rússlands á Krímskaga. ESB-sinnum er hreinlega ekki stætt á því að ræða inngöngu í ESB á grundvelli öryggishagsmuna.

Auðvitað gætu ýmsir kostir hugsanlega fylgt aðild að ESB þótt lítið fari fyrir að þeir séu rökstuddir. En hagsmunir og réttindi sem við myndum tapa vega miklu þyngra en kostirnir. Hagsmunir okkar standa einfaldlega ekki til þess að við framseljum vald frá lýðræðislega kjörnu Alþingi og ríkisstjórn til yfirþjóðlegra valdastofnana sambands sem glímir við tilvistarkreppu þar sem lýðræðishallinn verður sífellt meira áberandi. Þar er sífellt lengra gengið í kröfum um að afmá vald þjóðríkja og um myndun eiginlegs sambandsríkis. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Þýskalands kemur þetta markmið m.a. fram berum orðum.

Meirihluti Íslendinga er mér sammála. Úrslit kosninga fyrir tæpu ári, þar sem flutningsmenn þessa máls settu aðild að ESB á oddinn, sýna það. Niðurstaðan er skýr: ESB-sinnar fengu áheyrn rétt rúmlega fjórðungs kjósenda samtals. Vilji kjósenda er skýr og vilji meirihluta Alþingis er skýr. Hagsmunum okkar er best borgið utan Evrópusambandsins og mikill meirihluti þingmanna er andvígur aðild. Við verðum því trú stefnu okkar og munum ekki styðja vonlausa villuferð sem miðar að inngöngu í Evrópusambandið.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.