Enn er þörf á breytingum

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Nýbirt­ur árs­hluta­reikn­ing­ur Reykja­vík­ur­borg­ar ber fjár­hagn­um ekki fag­urt vitni. Tap af reglu­bundn­um rekstri nam um 8,9 millj­örðum króna á fyrstu sex mánuðum árs­ins og var af­kom­an rúm­lega fjór­um millj­örðum lak­ari en áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir. Enn síg­ur á ógæfu­hliðina í rekstri borg­ar­inn­ar.

Rjúk­andi rúst?

Á lands­fundi Sam­fylk­ing­ar árið 2018 sagði Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri fjár­hags­stöðu borg­ar­inn­ar hafa verið „rjúk­andi rúst“ eft­ir stutt­an valda­tíma Sjálf­stæðismanna sem lauk árið 2010. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tók við stjórn­artaum­um í borg­inni árið 2008, í aðdrag­anda banka­hruns. Við sam­fé­lag­inu blöstu krefj­andi aðstæður og allt benti til þess að rekst­ur borg­ar­sjóðs yrði þung­ur. Yfir þenn­an tveggja ára tíma tókst þó að halda ör­ugg­lega um fjár­hag borg­ar­inn­ar. Skuld­ir borg­ar­sjóðs juk­ust ein­ung­is um þrjá millj­arða meðan tekj­ur dróg­ust sam­an um tæp­an millj­arð. Borg­ar­sjóður var einn fárra sem skiluðu já­kvæðri rekstr­arniður­stöðu mitt í djúpri efna­hags­lægð.

Hið sama verður ekki sagt um fjár­mála­stjórn sitj­andi borg­ar­stjóra. Ekki ein­ung­is er borg­in rek­in með nærri níu millj­arða króna tapi, held­ur standa skuld­ir sam­stæðunn­ar nú í 420 millj­örðum króna, en skuld­ir hækkuðu um 13 millj­arða fyrstu sex mánuði árs­ins. Það sam­svar­ar rúm­lega tveim­ur millj­örðum króna mánaðarlega eða 72 millj­ón­um króna dag­lega. Það er því óhætt að segja að und­ir stjórn borg­ar­stjóra stefni fjár­hag­ur borg­ar­inn­ar í rjúk­andi rúst.

Útgjalda­vandi, ekki tekju­vandi

Þeir tekju­stofn­ar Reykja­vík­ur sem lög gera ráð fyr­ir eru nær full­nýtt­ir. Borg­in inn­heimt­ir hæsta lög­leyfða út­svar, fast­eigna­skatt­ar á at­vinnu­hús­næði eru ósam­keppn­is­hæf­ir og krónu­tala fast­eigna­gjalda fer hækk­andi ár­lega. Tekjutusk­an er und­in til fulls og rekstr­ar­kostnaður eykst sam­hliða. Tekj­ur fyr­ir tíma­bilið voru nær 1,5 millj­örðum yfir áætl­un en rekstr­ar­út­gjöld voru 3,4 millj­örðum yfir fjár­heim­ild­um. Vandi borg­ar­inn­ar er því ekki tekju­vandi – vand­inn er mun frem­ur út­gjalda­vandi. Borg­in er illa rek­in.

Burt með báknið

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tel­ur mik­il­vægt að rekst­ur borg­ar­kerf­is­ins verði end­ur­skipu­lagður. Stjórn­kerfi borg­ar­inn­ar er orðið að bákni – minnka þarf yf­ir­bygg­ingu, stöðva skulda­söfn­un og sýna ráðdeild þegar sýslað er með fjár­muni borg­ar­búa. Vinda þarf ofan af hömlu­lausri hækk­un fast­eigna­skatta, draga úr sam­keppn­is­rekstri og stefna að lækk­un út­svars um leið og for­send­ur hafa skap­ast.

Því miður verður þó ekki séð að þess­ar breyt­ing­ar verði að veru­leika und­ir stjórn nú­ver­andi meiri­hluta. Enn er þörf á breyt­ing­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. september 2022