Norrænu og baltnesku löndin eru í fararbroddi í Evrópu þegar kemur að stafrænni þróun. Við vinnum nú þegar saman á mörgum sviðum, svo sem þróun 5G og stafrænnar þjónustu þvert á landamæri. Hin mikla stafvæðing hefur einnig í för með sér að við erum útsett fyrir stafrænum árásum. Þess vegna vilja norrænir og baltneskir ráðherrar sem fara með málefni stafvæðingar efla samstarfið um stafrænt öryggi.
Markmið Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna er að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Eigi það að nást skipta öflugar og öruggar stafrænar lausnir miklu máli.
Á fundi sínum í Ósló þann 6. september s.l. samþykktu norrænir og baltneskir ráðherrar stafvæðingarmála yfirlýsingu þar sem mikilvægi aukins samstarfs um stafrænt öryggi er undirstrikað.
„Engar atvinnugreinar og fá lönd, ef nokkur, ráða ein við alla áhættuþætti og veikleika. Því er mikilvægt að við á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum hittumst til að skiptast á upplýsingum og reynslu á þessu sviði,“ segir Sigbjørn Gjelsvik, ráðherra sveitarstjórnar- og byggðamála í Noregi.
Í faraldrinum sáum við hvernig stafrænar lausnir geta gagnast þegar vá steðjar að. Á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum var hægt að reka opinbera þjónustu þrátt fyrir að samfélögin lokuðust. Víða voru nýjar stafrænar lausnir teknar í notkun með skömmum fyrirvara. Jafnframt sýnir stríðið í Úkraínu hversu viðkvæm við erum þegar markvissar árásir eru gerðar á stafræna innviði.
„Yfirlýsingin sýnir skýrt vilja ráðherranna til að vinna saman að stafrænum öryggismálum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Það er mikilvægt að öll séu með. Almenningur lítur á það sem sjálfsagðan hlut að hafa stafrænt aðgengi að opinberri þjónustu og ber mikið traust til yfirvalda og kerfanna. Markmið okkar er að á næstu árum verði stafræn þjónusta einnig aðgengileg þvert á landamæri. Það er mikilvægt að við stöndum vörð um traustið,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar