Raunhæf loforð í leikskólamálum

„Staðan hjá okkur er þannig að við erum að minnsta kosti ekki að fá foreldra vikulega til okkar að mótmæla vegna þess að við vorum ekki að stíga fram með óraunhæf loforð og byggja upp væntingar sem myndu valda vonbrigðum síðar. Við erum núna að taka inn 15 mánaða börn,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs sem er gestur í 69. þætti Pólitíkurinnar.

Hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi haft lagt ríka áherslu á að koma með raunhæf og ábyrgð loforð m.a. í leikskólamálum. Það þurfi að byggja upp aðstöðu og skapa umhverfi þannig að áhugi og hvati sé fyrir fólk að vilja vinna í leikskólunum.

Vilji standi til að börn geti fengið vistun um leið og fæðingarorlofi lýkur. Eitt af því sem verið sé að vinna að núna séu skammtímalausnir þar sem foreldrar hafi val um annars vegar heimgreiðslur og hinsvegar að bjóða upp á færanlegar húsnæðiseiningar á næsta ári fyrir dagforeldra því mikilvægt sé að tryggja að dagforeldrum fækki ekki. Með þessu vonast meirihlutinn að koma til móts við foreldra sem fá ekki leikskólapláss fyrir börn sín frá 12-15 mánaða aldri.

Talið barst að skipulagsmálunum í Kópavogi, um þéttingu byggðar í Kársnesi og Hamraborg og að nýjum hverfum í efri byggðum Kópavogs. Þar verður kallað eftir hugmyndum og sjónarmiðum bæjarbúa.

„Við verðum auðvitað að vanda vel til verka og þéttingarverkefni eru alltaf erfið. Við vitum það og þau eru kostnaðarsöm og taka lengri tíma. Sérstaklega er þetta erfitt gagnvart þeim bæjarbúum sem búa við þéttingarreitina. Það skiptir líka mjög miklu máli að við séum í góðu samtali við íbúa sem búa á þessum svæðum. Við leggjum ríka áherslu á það,“ segir Ásdís.

Þá vilja þau leggja áherslu á að það sé hvati í kerfinu til að flýta fyrir verkferlum. Það séu tækifæri til að gera betur til að draga úr byggingarkostnaði til að byggja upp hraðar og hagkvæmar án þess að slá af kröfum um gæði.

Einnig var rætt um stafræna þróun í Kópavogi, um nýja brú yfir Fossvoginn, um Reykjanesbraut í stokk, um móttöku íbúa af erlendu bergi, orkuskipti í samgöngum og átak í uppsetningu hleðslustöðva, eflingu menningarstarfs, áherslur í geðheilbrigðismálum í starfi grunnskóla og í æskulýðsstarfi og um fasteignaskatta, en meirihlutinn í Kópavogi mun koma til móts við fasteignaeigendur í Kópavogi með lækkun á álagningarprósentu fasteignaskatts um næstu áramót og lækkanir á öðrum álögum verða jafnframt skoðaðar við næstu fjárhagsáætlunargerð.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.