Höldum vel á góðum spilum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra: 

Kaupmáttur meðallauna á Íslandi er um þessar mundir sá þriðji hæsti innan OECD og hefur hvergi vaxið hraðar á undanförnum árum – þeim tíma sem þeir flokkar sem nú skipa ríkisstjórn Íslands hafa staðið vaktina í brú þjóðarskútunnar. Einungis í Bandaríkjunum og Lúxemborg er kaupmáttur meðallauna hærri en hér á landi. Í þessum efnum stöndum við öllum frændþjóðum okkar á Norðurlöndum framar, en þar má segja að Ísland sé að miða sig við þau samfélög þar sem best hefur tekist að skapa íbúum velsæld og góða samfélagsumgjörð.

Þessi staðreynd er áhugaverð í ýmsu ljósi, meðal annars því að landsframleiðsla á mann er ögn minni hér á landi en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Sú hlutdeild verðmætasköpunar sem fer í laun til starfsmanna er því hærri á Íslandi en víðast annars staðar. Þetta er jákvæð staða sem ég tel endurspegla eftirsóknarverða eiginleika í íslensku samfélagi. Ég trúi því að það sé að jafnaði betra að sem stærstur hluti verðmætanna skili sér í vasa vinnandi fólks. Í samfélagi sem byggist í auknum mæli á hugviti og nýsköpun eru það starfsmennirnir sem eru uppspretta stærsts hluta verðmætasköpunarinnar og því sanngjarnt og eðlilegt að þeir njóti góðs af því þegar vel gengur. Þá blasir við að samfélagið treystir ekki síður á að margvísleg störf, sem krefjast mismunandi mikillar skólagöngu og þjálfunar, eru ómissandi. Laun og önnur starfskjör í slíkum störfum þurfa einnig að vera með þeim hætti að öflugt fólk fáist til að sinna þeim af metnaði og fagmennsku.

Stöndum vel á viðsjárverðum tímum

Víða um heim fara áhyggjur vaxandi af því að efnahagsþrengingar, meðal annars vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, verði svo alvarlegar á komandi mánuðum að það leiði til skorts á nauðþurftum hjá vaxandi hluta almennings. Orkukostnaður hefur hækkað hratt og hafa ýmis lönd Evrópu brugðist við stöðunni með því að gera auknar kröfur um að almenningur dragi úr neyslu og búi sig undir að klæða af sér vetrarkulda fremur en að kynda upp í húsum sínum. Verðbólga klifrar víða upp í hæðir sem eru hærri en sést hafa í mörg ár eða áratugi. Þessu til viðbótar er erfiðleikum bundið að manna margvísleg störf sem eru nauðsynleg til þess að tryggja eðlilegan gang mikilvægra innviða í samfélaginu.

Óhætt er að segja að í þessum samanburði blasi við að staða Íslands sé góð. Þar er fyrir að þakka bæði góðri gæfu og skynsamlegum ákvörðunum. Efnahagsástand hér er gott og horfur ágætar, verðbólga er minni en víðast, við framleiðum og seljum um heim allan afurðir ríkulegra náttúruauðlinda; sjávarfang og orkutengda framleiðslu – en verð hefur hækkað bæði á matvöru og orku. Samkvæmt nýjustu gögnum Alþjóðabankans er tekjujöfnuður mestur á Íslandi meðal Norðurlandanna og einn sá allra mesti í heimi. Þessi jöfnuður er einn af styrkleikum okkar samfélags og er þess virði að standa vörð um. Þá býr Ísland við þá stöðu í varnarmálum að vera hluti af Atlantshafsbandalaginu og hafa tvíhliða samning um að öflugasta herveldi heims, Bandaríkin, verji Ísland ef þörf er á. Við búum í einu ríkasta, jafnasta og öruggasta samfélagi heims á tímum þegar óvissa er mikil víða í kringum okkur. Mörg ríki Evrópu búa við háa verðbólgu, vöntun á vinnandi höndum, fyrirsjáanlegan skort á orku, pólitískan óstöðugleika og þurfa í ofanálag að hafa mun nærtækari áhyggjur af öryggi sinna landamæra en við Íslendingar.

Ég tel að það sé mikilvægt að Ísland sinni af ábyrgð og auðmýkt þeim hlutverkum sem við getum í tengslum við ástand heimsins og hrósum ekki bara happi yfir okkar stöðu heldur tökum fagnandi öllum þeim tækifærum sem upp koma til þess að láta gott af okkur leiða. Það gerum við til dæmis með því að tryggja að íslenskar auðlindir séu nýttar með skynsamlegum og hagkvæmum hætti, því þannig leggjum við af mörkum til heimsins – en þjónum okkar eigin hagsmunum á sama tíma.

Í vetur mun reyna á

Fram undan er vetur þar sem reyna mun á hvernig íslenskt samfélag heldur á þeim góðu spilum sem það hefur á hendi. Þótt meðaltöl og hagvaxtartölur séu ekki huggun þeim sem raunverulega glíma við fátækt og skort, þá er mikilvægt að missa ekki sjónar á heildarmyndinni í opinberri umræðu og stefnumörkun. Það er sameiginleg skylda allra þeirra sem fara með forystu og ábyrgð í íslensku samfélagi að fara fram af ábyrgð, sanngirni, hógværð og gætni til þess að viðhalda góðri stöðu okkar samfélags.

Það er af einlægum metnaði mínum til þess að tryggja, treysta, efla og bæta stöðu íslensku þjóðarinnar að ég mun sækjast eftir stuðningi landsfundar Sjálfstæðisflokksins nú í haust til þess að gegna áfram embætti varaformanns. Með því að keppast við að gera hið góða samfélag okkar enn betra gerum við mest gagn fyrir okkur sjálf og umheiminn.

Morgunblaðið, 20. ágúst 2022.