Bakslag í Bandaríkjunum áhyggjuefni

Nanna Kristín Tryggvadóttir formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í 68. þætti Pólitíkurinnar. Þar ræddi Nanna Kristín um starf Landssambandsins, hlutverk þess og um árangur LS í jafnréttismálum innan Sjálfstæðisflokksins.

Landssambandið var stofnað 17. apríl 1956 í gamla sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og er því 66 ára í ár. Innan sambandsins eru starfandi 13 sjálfstæðiskvenfélög um allt land. Markmiðið sambandsins eru m.a. að efla þátttöku kvenna í innra og ytra starfi Sjálfstæðisflokksinns. Að efla, styðja og hvetja konur til þess að gefa kost á sér í vali á lista í sveitarstjórnum og á Alþingi og að efla, styðja og hvetja konur til þess að gefa kost á sér í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksinns.

Óhætt er að segja að góður árangur hafi náðst á undanförnum árum og áratugum í átt að jafnrétti en í dag eru 7 af 17 þingmönnum flokksins konur eða 41% og 55 af 113 sveitarstjórnarfulltrúum eru konur eða 49%. Oddvitar á framboðslistum til alþingis eru 3 af 6 eða 50%. Þá hefur hlutur kvenna í ríkisstjórn á síðustu árum verið með jafnasta móti í ráðherrahópi Sjálfstæðisflokksins.

Nanna ræddi um áherslur sambandsins í sinni formannstíð og það hvernig LS hefur verið að styðja við konur til áhrifa í flokknum, m.a. með bakvarðasveit LS sem komið var á fót fyrir nokkru. Þar geta konur sem vilja stíga skrefið inn á hið pólitíska svið í flokknum leitað til reynslumikilla kvenna og fengið ráðleggingar og aðstoð.

Rætt var um kynjakvóta, um hvað flokkurinn geti gert betur til að jafna hlut kynjanna í starfi flokksins, hvort enn sé þörf á LS, um bakslag í réttindum kvenna m.a. í Bandaríkjunum, um golfmót LS í vikunni sem er uppselt á og eins afhverju konur eigi að taka þátt í starfi LS og hvernig þær geta komið inn í starfið.

Þáttinn má nálgast hér.