12 tillögur við leikskólavandanum

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa síðustu vikuna lagt fram alls 12 tillögur til að bregðast við leikskólavandanum. „Við sjálfstæðismenn höfum alltaf verið reiðubúin í samtal og samvinnu um lausn leikskólavandans. Við vöruðum við óraunhæfum loforðum síðasta haust og nú hefur komið á daginn að við höfðum á réttu að standa. Það sem mestu skiptir er að vinna fljótt og örugglega að lausnum, bæði til skamms tíma en jafnframt til lengri framtíðar. Leikskólamálin eru stærsta jafnréttismálið sem sveitarstjórnarstigið fæst við” segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Á síðasta fundi borgarráðs þann 11. ágúst lögðu fulltrúar flokksins fram tvær tillögur. Annars vegar var lagt til að foreldrar barna, 12 mánaða eða eldri, sem enn eru á biðlista eftir leikskólaplássi fái um 200.000 kr. í mánaðarlegar biðlistabætur og hins vegar að niðurgreiðslur til dagforeldra hækki við 12 mánaða aldur barns, svo kostnaður foreldra verði til samræmis við þau gjöld sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði óskuðu í kjölfarið eftir sérstökum aukafundi vegna leikskólavandans, en sá fundur fór fram í gær. Þar voru lagðar fram 7 tillögur, þar af þrjár sem snúa að mönnunarvanda leikskólanna, en þær voru: Að komið verði á bakvarðarsveit til að mæta manneklu á leikskólum, að komið verði á fót starfsnámi í leikskólum fyrir nemendur í leikskólaliðanámi og að starfsmönnum frístundaheimila verði boðið upp á heilsdags- og hálfsdagsstörf svo starfskraftar þeirra geti nýst fyrri part dags á leikskólum.

Jafnframt voru lagðar fram tvær tillögur sem snúa að því að flýta fyrir fjölgun húsakosta undir starfsemi leikskóla en þær eru: Að rekstrarheimildir verði rýmkaðar svo hægt sé að taka í notkun nýja leikskóla þó lóðin sé ekki fullfrágengin og að komið verði fyrir færanlegum kennslustofum á lóðum þeirra leikskóla þar sem aðstæður eru fyrir hendi í þeirri viðleitni að fjölga leikskólarýmum á meðan unnið er að varanlegum lausnum. Þar að auki var lögð fram tillaga um svokallað mæliborð en með því er átt við að upplýsingar um laus leikskólarými og biðlista verði settar á vef Reykjavíkurborgar og uppfærist í rauntíma. Að síðustu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði fram tillögu um að fé fylgi barni á leikskólaaldri og að sjálfstætt reknum leikskólum verði fjölgað svo foreldrar hafi raunverulegt val um úrræði fyrir börnin sín.

Fleiri foreldrareknir leikskólar og daggæsla á vinnustað

Á fundi borgarráðs18. ágúst lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram þrjár tillögur til viðbótar, tvær þeirra leitast við að fjölga valkostum foreldra um dagvistun barna þeirra, þvert á rekstrarform. Tillögurnar snúa að því annars vegar að skóla- og frístundasvið bjóði vinnustöðum sveigjanleikann til að opna daggæslu eða leikskóla á vinnustaðnum, fyrir börn starfsmanna, og hins vegar að borgin styðji við fjölgun foreldrarekinna leikskóla í Reykjavík með því að tryggja húsnæði og niðurgreiðslur með starfseminni. Þriðja tillagan sneri að því að kanna möguleikann á fjölgun leikskóla á núverandi og fyrirhuguðum uppbyggingarreitum í borginni

„Lausn leikskólavandans mun ekki liggja fyrir nema til komi breyttar áherslur og nýjar lausnir. Við þurfum skammtímaaðgerðir sem viðbragð við bráðavanda – en jafnframt langtímalausnir til framtíðar. Vandinn verður ekki leystur án kerfisbreytinga og nýrra lausna sem raunverulega þjóna þörfum fjölskyldna í borginni“ segir Hildur Björnsdóttir.