Innanlandsflugvöllur í Vatnsmýrinni er ekki á förum

Þorkell Sigurlaugsson varaborgarfulltrúi í Reykjavík og formaður velferðarnefndar

Komið hefur fram í fjölmiðlum að eldgosin á Reykjanesi hafa almennt breytt afstöðu sérfræðinga jafnt sem almennings til Hvassahrauns sem mögulegt stæði fyrir nýjan flugvöll. Aðrir staðir, sem gætu komið til greina, s.s. Löngusker, Hólmsheiði eða Bessastaðanes ganga illa upp eða alls ekki; Löngusker vegna mikils kostnaðar við umfangmiklar uppfyllingar og landtengingar. Þá geta slíkar uppfyllingar sigið og/eða yfirborð sjávar hækkað á næstu áratugum. Garðabær og umhverfisverndarsjónarmið útiloka Bessastaðanes og Hólmsheiði liggur að flestra mati of hátt og of nærri fjöllum fyrir hentugan flugvallarkost. Aðrir valkostir en Vatnsmýrin nálægt höfuðborgarsvæðinu eru ekki álitlegri. 

Meirihluti borgarstjórnar heldur leitinni áfram

Barátta sumra borgarfulltrúa, fyrir lokun Reykjavíkurflugvallar, heldur samt áfram. Á það m.a. við um Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarmanna og formann borgarráðs. Hann vill samkvæmt viðtali á vef Túrista (5. ágúst sl.) eftir sem áður finna Reykjavíkurflugvelli annað stæði. Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir í pistli í fréttablaðinu 17.ágúst, alla oddvita flokkanna nema Miðflokksins vilja frekar byggð en flugvöll í Vatnsmýrinni, EN MEÐ FYRIRVÖRUM ÞÓ, eins og hann segir. Fyrirvararnir eru að sjálfsögðu aðalatriðið. Fyrirvari margra var að það yrði að vera búið að finna annan jafn góðan eða betri valkost og koma honum í rekstur áður en byggð getur hafist á flugvallarsvæðinu. 

Einar hefur þegar orðið fyrir einhverjum áhrifum af Degi B. Eggertssyni og núverandi meirihluta enda á hann ekki marga kosti í stöðunni. Fyrir kosningar sagðist Framsóknarflokkurinn vilja tryggja sem best rekstrarskilyrði flugvallarins í samræmi við þá stefnu hans að þrengja ekki frekar að honum. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins leggst gegn uppbyggingu ný hverfis í Skerjafirði. Hann segir borgina ekki fá að byggja upp á flugvallarlandi í „Nýja Skerjafirði“ fyrr en búið verði að finna nýjan stað undir Reykjavíkurflugvöll.

Er ekki nóg komið af skýrslum?

Ef litið er til skýrslu vinnuhóps sem hét “Flugvallarkostir á suðvesturhluta landsins” frá 2019, eða skýrslu Rögnunefndarinnar svokölluðu frá 2015, er ekkert sem bendir til þess að Reykjavíkurflugvöllur fari næstu 15-20 árin og afar vafasamt að Hvassahraun sé álitlegur kostur og síðustu atburðir hafa þar vissulega áhrif.  

Árið 2013 kom út rit, “Náttúruvá á Íslandi – eldgos og jarðskjálftar”, 785 blaðsíðna fræðirit. Að ritun verksins komu 53 fremstu jarðvísindamenn Íslands. Á bls. 379-401 er sérstaklega fjallað um Reykjanesskaga, og þar birt meðfylgjandi mynd, sem sýnir nokkur skilgreindu eldstöðvakerfi skagans. Bæði Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur eru utan og norðan við þessi kerfi. Umræddur flugvöllur í Hvassahrauni er hins vegar innan eldstöðvakerfis, sem nefnist “Eldvörp – Svartsengi”. Næsta kerfi fyrir austan það er “Fagradalsfjall”.

Gæti Reykjavíkurflugvöllur orðið enn mikilvægari?

Styrkur Reykjavíkurflugvallar er mikill, bæði fyrir höfuðborgina og landsbyggðina. Það er að mörgu leyti sjálfsögð krafa að höfuðborgin tryggi viðunandi flugsamgöngur út um land. Núverandi staðsetning gerir flugvellinum kleift að þjóna landsbyggðafólki sem þarf að sækja margvíslega heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, æðri menntun og nýsköpunarverkefni og almennt samskipti við vini og ættingja. Sama með Reykvíkinga og ferðamenn sem fara út á land og vilja nýta flugsamgöngur.   

Með hliðsjón af fyrirliggjandi skýrslum og úttektum, fjárhagsstöðu þjóðarinnar og eldgossins á Reykjanesi er ljóst að Reykjavíkurflugvöllur verður þar sem hann er a.m.k. næstu 20 árin og eflaust talsvert lengur, nema grundvöllur innanlandsflugs leggist hreinlega af. Rafmagnsflugvélar gætu styrkt samkeppnisstöðu flugvallarins. 

Í frétt á Vísi árið 2013 sagði í umfjöllun um flugvallarmálið þegar ákveðið var að leggja niður minnstu norðaustur-suðvestur brautina. „Samkomulag innanríkisráðherra [Ögmundar Jónassonar] og borgarstjóra [Jóns Gnarr með Dag B sem formann borgarráðs] „..ekki er gert ráð fyrir að hnikað verði frá áformum borgarstjórnar Reykjavíkur að norður-suðurbrautinni verði lokað árið 2016 og Reykjavíkurflugvöllur verði rekinn með einni flugbraut, austur-vesturbrautinni, til árs 2024 þegar honum verður endanlega lokað.“ Að sjálfsögðu voru þetta óraunhæfar og vanhugsaðar yfirlýsingar eins og mörgu sem verið að lofa í dag. 

Niðurstaðan er augljós

Mikil og kostnaðarsöm verkefni eru framundan, s.s. Sundabraut, bygging 35.000 íbúða á næstu 10 árum, miklar úrbætur í samgöngumálum um allt land ekki í síst í Reykjavík og dýr jarðgöng bíða í röðum. Ljúka þarf byggingu nýs Landspítala og endurbyggingu gamalla bygginga þar og mörg verkefni bíða á sviði velferðar- og menntamála. Svo þarf að fjárfesta í ýmsum innviðum á sviði tækniþróunar og nýrra atvinnugreina. Á sama tíma geisar hér verðbólga og verja þarf sem best lífskjör almennings. Af nægu er að taka.

Þrátt fyrir loforð hefur verið þrengt að flugvellinum. Hæstu tré í Öskjuhlíð hafa ekki verið höggvin, eins og lofað var og tilraun er nú gerð að byggja í Skerjafirði. Hvers vegna er ekki lögð áhersla á að lengja núverandi austur vestur braut yfir Suðurgötu og setja hana og göngu- og hjólaleið í stokk undir flugbrautina? Það myndi stórauka notagildi þessarar brautar og minnka notkun norður suðurbrautar sem truflar mest vegna flugs yfir miðborgina.

Reykjavíkurflugvöllur verður þar sem hann er a.m.k. næstu 20 árin eða lengur, en ekkert að því að hafa væntingar til þess að einhvern tíma í framtíðinni verði þar létt íbúðabyggð. Þá þarf einnig að skipuleggja svæðið sem nýsköpunar-, vísinda- og þekkingarsamfélag tengt háskólum og atvinnulíf. En fyrst og fremst þarf þetta að vera glæsilegt útivistarsvæði alla leið niður í Nauthólsvík.  En það gerist ekkert í þessu strax.  Þangað til er brýnt að viðhaldi hans sé sinnt og nauðsynlegri uppbyggingu, svo að hann geti gegnt mikilvægu hlutverki sínu sem innanlandsflugvöllur og alþjóðlegur varaflugvöllur ásamt bættri aðstöðu á Akureyri og sérstaklega Egilsstöðum. Annar alþjóðlegur varaflugvöllur minni en í Keflavík, á Suðurlandi eða annars staðar, er svo allt önnur umræða sem bíður betri tíma. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. ágúst 2022