Orkuskiptin í skýjunum

Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi og varaþingmaður:

Töluverðar breytingar munu að öllum líkindum eiga sér stað í flugiðnaði og ferðaþjónustu í Evrópu á næstu árum. Þær breytingar gætu haft í för með sér hættur fyrir velferð og hagsæld á Íslandi.

Evrópusambandið (ESB) ætlar að gera kröfu um minni notkun jarðefnaeldsneytis í flugi á næstu árum og krefjast íblöndunar þess sem er kallað sjálfbært flugeldsneyti, eða SAF (e. Sustainable Aviation Fuel). Hugmyndir eru uppi um að frá og með 2025 verði byrjað að krefjast íblöndunar og frá og með 2050 verði SAF helmingur alls þotueldsneytis innan ESB. Alþjóðasamband flugfélaga, IATA, hefur bætt um betur og heitir því að árið 2050 verði hlutfall SAF 65% af öllu flugeldsneyti.

Vottað SAF þarf að vera með a.m.k. 50% minni losun en hefðbundið þotueldsneyti en yfirleitt er losun SAF um 80-90% minni en hefðbundins þotueldsneytis. SAF er annars vegar framleitt úr lífmassa en sú aðferðafræði er takmörkuð þótt ekki sé nema bara fyrir skort á hráefnum til slíkrar vinnslu.

Hin aðferðin er með rafgreiningu sjálfbærs vetnis og koltvísýrings þar sem til verður „tilbúið eldsneyti“, (Synthetic fuel) eða rafeldsneyti sem er hæft í flugiðnað. Vaxtarmöguleikar þeirra vinnslu eru miklir.

SAF er nú umtalsvert dýrara í framleiðslu en venjulegt flugvélaeldsneyti, allt að fimm til sjö sinnum dýrara. Kröfur ESB munu því að öllu óbreyttu hækka til muna verð á flugmiðanum og jafnvel setja strik í reikning íslenskrar ferðaþjónustu. Það á þó eftir að koma í ljós því eflaust mun tækniþróun gera framleiðslu SAF ódýrari en nú er.

Við munum þurfa að fylgja þessum kröfum hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það mun ekki hafa neitt með EES-samninginn eða meinta þjónkun við ESB að gera, heldur mun ESB ætlast til þess að flug innan flughelgi sambandsins uppfylli fyrrnefndar kröfur.

Þannig að ef við viljum fljúga til Kaupmannahafnar eða Parísar eða við viljum fá ferðamenn til landsins þá munu eldsneytistankar flugvélanna þurfa að vera blandaðir SAF og hefðbundnu þotueldsneyti.

400 þúsund tonn af olíu

Árið 2018 voru fjögur hundruð þúsund tonn af þotueldsneyti flutt til landsins. Það er ekki óvarlegt að áætla að við förum langleiðina í 300 þúsund tonn á þessu ári og yfir það á næsta ári. Það er a.m.k. ljóst að til að reka ferðamannalandið Ísland þarf að brenna verulegu magni af eldsneyti.

Þessi bruni er ein undirstaða þeirra lífskjara sem við þekkjum, undirstaða fjölbreytni í samfélaginu og þjónustu og velferðarsamfélagsins sem við búum við. Þessi bruni gefur okkur líka færi á að fljúga til fleiri tuga áfangastaða austan hafs og vestan, stunda viðskipti, sækja nám, flytja vörur og upplifa eitthvað meira en stinningskalda yfir sumarmánuðina.

Sjálfbærni er okkar (val)

Ef við Íslendingar viljum vera sjálfbær í samgöngum þá getum við framleitt SAF með rafgreiningu vetnis og koltvísýrings. Það kallar á raforku. Mjög mikla raforku. Miðað við tækni dagsins í dag þyrftum við 4000 MW af nýrri orku til að framleiða eldsneyti sem kæmi í stað þess mengandi jarðefnaeldneytis fyrir millilandaflug sem nýtt er í dag.

Það er næstum því tvöfalt meira en öll orkuframleiðsla á Íslandi í dag. Við getum framleitt eldsneyti og tekið þátt í þessari framtíð, ekki með því að virkja hverja sprænu heldur með því að velja vel og nýta þá kosti sem við höfum, svo sem vindorku á láði og legi.

Við þurfum þó að taka ákvörðun um framhaldið og byggja þá ákvörðun á raunverulegum hugmyndum um það hvernig hægt er að byggja upp frekari hagsæld til lengri tíma. Það á við í þessu sem öðru þegar kemur að orkunýtingu.

Hinn valkosturinn er að flytja inn alla þá orku sem við neitum að framleiða. Sá valkostur er aðferðafræði strútsins sem stingur höfðinu í sandinn.

Við skuldum komandi kynslóðum það að viðhalda og bæta lífskjör. Við þurfum því að vera þátttakendur en ekki áhorfendur þegar kemur að því að vinna í loftslagslausnum. Ef við getum gert bæði í einu þá er þetta allt til einhvers.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 11. ágúst 2022.