„Stjórnvöld mættu treysta okkur fyrir þessum málaflokki“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra og Vera Illugadóttir, ritari Samtakanna 78 eru gestir Ingvars P. Guðbjörnssonar í 67. þætti Pólitíkurinnar þar sem málefni hinsegin fólks voru til umræðu. Hlusta má á þáttinn hér.

Í þættinum var rætt um stöðu mannréttindabaráttu hinsegin fólks og um ýmsar vísbendingar um aukið ofbeldi og neikvætt viðhorf í garð hinsegin fólks sem hefur verið að sjást í samfélaginu og víðar um hinn vestræna heim að undanförnu. Rætt var um Hinsegin daga í Reykjavík sem nú standa yfir, gleðigönguna á morgun, um baráttumál Samtakanna 78 og um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur og getur áfram staðið vörð um frelsi einstaklingsins óháð kynhneigð og kynvitund og um ýmis mál sem flokkurinn hefur komið að til að styðja við baráttuna í gegnum tíðina.  Markmið Hinsegin daga báru á góma og í lokin var rætt um hvernig halda eigi baráttunni áfram.

Rætt var um tvíkynhneigð og hvort tvíkynhneigðir njóti fulls skilnings. Nefnt var að sú umræða hafi ef til vill setið eftir en að nú sé verið að gera átak í að ræða þau mál á vettvangi Samtakanna 78.

„Ég veit að sumir tvíkynhneigðir upplifa eins og þeir mæti fordómum úr báðum áttum,“ sagði Vera og vísaði m.a. til þess að þeir mæti fordómum frá gagnkynhneigðum sem ekki hafi skilning og eins frá hinsegin samfélaginu, sérstaklega þeir sem búa með fólki af öðru kyni og séu þá ekki álitnir nógu hinsegin.

„Þú getur alveg verið umburðarlyndur án þess að skilja alla skapaða hluti,“ benti Þórdís Kolbrún á og sagði: „Í grunninn snýst þetta einfaldlega um frelsi til að vera það sem þú ert og frelsi til að elska. Mér finnst að ekki þurfi að gera kröfu um að allir skilji. Þetta snýst um að vera umburðarlyndur fyrir allskonar fólki til að vera þú sjálfur.“

„Það á enginn annar rétt á að skilgreina þig“

Þá sagði hún jafnframt: „Ef allir hefðu raunverulegt frelsi til að elska og raunverulegt frelsi til að vera það sjálft, það á enginn annar þann rétt að skilgreina þig – þú átt þann rétt aleinn, því fleiri sem eru hamingjusamir því betri heimur er þetta. Nógu ljótur er hann fyrir. Ég skil ekki þörfina hjá fólki að þurfa að gera öðrum lífið leitt til að koma í veg fyrir það sé hamingjusamt og fái að vera það sjálft.“

Hún sagðist tala um þessi mál sem utanríkisráðherra allsstaðar þegar hún fari erlendis.

„Við gerum það í ræðum, ávörpum. Hvort sem það er ég sjálf eða okkar fólk. Alls staðar þar sem við erum í forsvari, hvort sem það er í Evrópuráðinu eða annarsstaðar þá setjum við þetta á oddinn. Það er hægt að gagnrýna og það er hægt að hrósa. Því oftar sem maður talar um það og því meira „mainstream“ sem þetta er því betra. Þegar það hættir að vera ögrun í sjálfu sér að nefna svona sjálfsagða hluti,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hinsegin samfélagið orðið djarfara

„Við í hinsegin samfélaginu og mörg í samfélaginu erum orðin djarfari. Með bættu réttarumhverfi og minni fordómum þá er fólk að tjá sig miklu meira. Krakkar eru að koma út úr skápnum mjög ung. Það er yndislegt að fylgjast með krökkunum hvað þeir eru ánægðir í eigin tjáningu,“ sagði Vera. Hún sagði að það gerði það þó að verkum að fólk hefði ekki alltaf skilning á nýjum hugtökum sem eru að koma fram s.s. kynsegin og eins ný fornöfn. Fólk verði hrætt við það sem það skilji ekki.

„Það er miklu víðari kyntjáning núna en fyrir nokkrum árum. En í baráttunni fyrir nokkrum árum snerist það kannski mikið um að hinsegin fólk ætti að vera eins „straight“ og það gæti verið,“ sagði Vera. Fólk ætti að gifta sig og lifa þessu eðlilega lífi. Þau grínist stundum með „straight“ homma og „straight“ lesbíur sem kjósa að lifa þessu hefðbundnu lífi en það sé ekki það sem allir vilji. Það séu komin önnur lifnaðarform og einkenni.

Full fjármögnun helsta baráttumálið í dag

Spurð út í helstu baráttumál Samtakanna 78 í dag og hvernig pólitíkin geti hjálpað sagði Vera: „Okkar baráttumál og aðal áhersla á þessum Hinsegin dögum er eitthvað sem pólitíkin getur gert mjög mikið í. Við viljum aukið fjármagn frá hinu opinbera. Við ætlum að ganga með borða sem á stendur „full fjármögnun“.

Hún sagði samtökin í dag fá fjármagn frá ríki og nokkrum sveitarfélögum en það dugi ekki til. Starfsemi Samtakanna 78 hafi vaxið mjög mikið á síðustu árum.

„Ég veit ekki hvort fólk geri sér grein fyrir því hvað við gerum mikið annað en að ganga í gleðigöngunni og eitthvað að kjafta. Við erum með mjög öfluga ráðgjafaþjónustu. Mjög mikið af fólki sem leitar til okkar í ráðgjöf með sínar tilfinningar og líf. Síðan erum við með mjög öfluga fræðslustarfsemi sömuleiðis. Við erum með frábæra fræðara sem fara um landið og tala í skólum, á vinnustöðum og út um allt um þessi mál. Við erum með aðstoð við hinsegin hælisleitendur sömuleiðis sem getur verið mjög flókin, erfið og viðkvæm. Auk ýmissa stuðningshópa og félagsstarfs. Svo erum við með hinsegin félagsmiðstöð í samstarfi við Reykjavíkurborg fyrir krakka og unglinga. Þangað koma 120 krakkar í viku á öllum aldri. Yndislegir krakkar. Mikilvægt fyrir þá. Það er rosalega mikið sem við erum að gera og við þurfum meiri peninga til þess. Ég held að stjórnvöld mættu auka framlag sitt til okkar og treysta okkur fyrir þessum málaflokki. Við erum búiin að standa í þessu síðan 1978 og erum með rosalega mikla reynslu og kunnum að fara með þessi viðkvæmu mál. Það væri rosalega gott að fá aukið fé til að geta haldið þessu áfram,“ sagði Vera.

Kjarnar grunngildi flokksins

Aðspurð um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn geti gert sagði Þórdís Kolbrún: „Ég held að í grunninn sé það að standa vörð um það sem hefur verið gert. Það er barátta í sjálfu sér sem þarf að halda áfram, vera aldrei værukær og líta svo á að einhverju sé lokið og fara að einbeita sér að öðru. Þetta er viðvarandi verkefni sem auðvitað bæði breytist vegna þess að með áunnum réttindum, eins og Vera benti á, þá koma ný verkefni. En líka það að tryggja að við séum ekki að taka skref afturábak heldur áfram. Það á bæði við um orðræðu, upplifun fólks sem tilheyrir þessu samfélagi, löggjöf – allt saman. Þar hafa stjórnmálin mikilvægu hlutverki að gegna. Slagorð SUS ár eftir ár um að „fjölbreytni þrífist best í frjálsu samfélagi“ finnst mér kjarna bæði almennt baráttuna en mér finnst það kjarna líka grunngildi flokksins sem ég er varaformaður í.“

Þá nefndi hún þegar SUS vildi fara að taka formlega þátt í göngunni og kallaði til allar hinar ungliðahreyfingarnar. „Mér finnst líka mikilvægt að sýna að ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka séu sammála um það að fjölbreytni þrífist best í frjálsu samfélagi og séu sammála um að vilja vera þátttakendur í því stolti og ganga með í göngunni. Ég hef sjálf gert það í mörg ár og ætla að mæta seint á ættarmót á laugardaginn til að geta tekið þátt,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagði að Ísland hefði trúverðugleika í þessum málum og gæti gert mjög margt. Hlutverk okkar væri mikilvægt. „Við erum smáríki sem að hefur raunverulegan trúverðugleika í þessum málum. Það er mismunandi trúverðugleiki í mismunandi málaflokkum hjá ríkjum og Ísland hefur trúverðugleika þegar kemur að þessu. Þar finnst mér að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að tala hátt og skýrt, stjórnmálaflokkar eiga að tala hátt og skýrt og Ísland eigi að nota öll tækifæri sem það getur. Það er okkar vopn. Orðin eru okkar vopn og þau eru bara ansi sterk,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Eigum ekki að setja markið lægra en að vera fremst

Hún sagði að síðan væri mikilvægt fyrir stjórnmálaflokka að hlusta. „Hlutverk Sjálfstæðisflokksins á að vera það. Við sem stjórnmálaafl vitum ekki best hvað þarf að gera. Við finnum út úr því með því að hlusta. Með því að ráðfæra okkur við þá sem eru að leggja krafta sína í Samtökunum 78, í sjálfboðastarfi, eru þar starfsmenn og svo framvegis. Að við séum að hlusta, skilja og taka svo við keflinu þar sem við getum, unnið áfram og gert það með sóma og gleði. Auðvitað langar manni og það er gott að sjá að við erum að færast upp á listum. En auðvitað eigum við að vera bara fremst bara alltaf í þessu eins og í öðrum mannréttindum. Við höfum alla burði til að vera það. Við höfum alla getu til að vera það og eigum ekki að setja markið lægra en að vera fremst,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Full þörf áfram á Hinsegin dögum

Tilgangur og hlutverk Hinsegin daga bar á góma. „Það er tvíþætt. Þetta er bæði gleðigangan til að sýna að við erum stolt og finna stuðninginn frá víðara samfélaginu. En þetta er líka okkar árshátíð og mikil gleði í samfélaginu að geta haldið alvöru Hinsegin daga eftir tvö ár þar sem var lítið á döfinni. Það er rosalega mikil dagskrá búin að vera síðan á þriðjudaginn. Það er bæði fræðsla, fyrirlestrar, pallborðsumræður og allskonar um mjög vítt svið úr hinsegin samfélaginu. Sömuleiðis allskonar gleðiviðburðir og djamm. Ég held að fólk sé mjög fegið að geta komið saman og rætt þessi mál því það er jú ótti í samfélaginu við þetta bakslag. En bara að geta komið saman í hópi sinna vina og systkina. Það er búin að vera rosaleg stemning hjá okkur þannig að ég held að það sé alls ekki hægt að segja að það sé ekki þörf á þessu lengur,“ sagði Vera.

„Hvort sem þú ert í göngunni eða utan við hana. Ég fæ alltaf gæsahúð – bara alltaf. Hvort það sé kominn tími? Börn halda áfram að vaxa úr grasi. Ef það er einhver einn drengur eða ein stúlka sem stendur þarna og sér; þetta má, þetta er í lagi og fólk er allskonar,“ sagði Þórdís Kolbrún og benti á að gangan væri þess virði þó það væri ekki nema bara ein og ein sál sem áttaði sig á því að það mætti vera það sjálft. Það að finna stuðninginn í göngunni væri gott veganesti út í lífið. „Að við séum bara saman í því að segja „you do you“. Gangi þér vel og ég vona að þú verðir hamingjusamur. Það er partur af því sem ég upplifi þegar ég tek þátt,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Alls ekki hugsa að nú er þetta komið

Aðspurð um hvernig halda eigi baráttunni áfram sagði Vera: „Með því að halda áfram að pönkast í öllum. Halda áfram að reyna að fá peninga. Halda áfram að vekja athygli á okkar málaflokkum með einum og öðrum hætti og vera á varðbergi. Alls ekki hugsa að nú er þetta komið. Eins og við höfum verið að sjá verður afturför ef maður hættir að pönkast. Þessu lýkur aldrei ekki frekar en almennri mannréttindabaráttu almennt.“

Þórdís Kolbrún sagði að ef einhver hefði sagt sér fyrir nokkrum árum hvaða bakslag yrði í allskonar grundvallarmannréttindum í dag hefði hún ekki trúað því. Baráttunni ljúki ekki og nefndi mikilvægi þess að halda gleðinni í baráttunni. „Mér hefur fundist að gleðin sem frussast út um allt í þessu, ég held að hún hafi skilað miklum árangri og fengið allskonar fólk með sem hefur vonandi hjálpað til við að ryðja brautina áfram,“ sagði Þórdís Kolbrún.