Hræðslan við að fagna árangri

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Það hafa verið og verða alltaf til stjórn­mála­menn sem hafa horn í síðu ein­stakra fyr­ir­tækja eða jafn­vel heilla at­vinnu­greina. Sum­ir vegna þess að þeir boða bylt­ingu sam­fé­lags­ins og þjóðnýt­ingu fram­leiðslu­tækj­anna. Aðrir vegna þess að þeir eru í leit að vin­sæld­um – eru á veiðum eft­ir at­kvæðum. Þar fara fremst­ir póli­tísk­ir lukk­uridd­ar­ar og tæki­færissinn­ar. Ólíkt bylt­ing­ar­mönn­um byggja þeir ekki á skýrri hug­mynda­fræði. Í sókn að lýðhylli flæk­ist hug­mynda­fræði fyr­ir.

Stjórn­mála­menn lýðhyggj­unn­ar voru ekki lengi að taka við sér þegar frétt­ir bár­ust um að Síld­ar­vinnsl­an í Nes­kaupstað hefði keypt fjöl­skyldu­fyr­ir­tækið Vísi í Grinda­vík – rót­gróið og glæsi­legt sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki. Hátt var reitt til höggs með dyggri aðstoð fjöl­miðla sem virðast hafa það í rit­stjórn­ar­stefnu sinni að flytja frétt­ir sem ýta und­ir tor­tryggni og öf­und í garð fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi. Þannig er vatni veitt á myllu lýðhyggj­unn­ar – po­púl­ism­ans.

Það er um­hugs­un­ar­vert að ann­ars veg­ar er lagst gegn því að auk­in hagræðing verði í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi (hagræðing sem styrk­ir sam­keppn­is­stöðu fyr­ir­tækj­anna á hörðum alþjóðleg­um markaði) og hins veg­ar er þess kraf­ist að álög­ur á fyr­ir­tæk­in verði hækkaðar stór­kost­lega. Þannig er sótt að fyr­ir­tækj­un­um frá öll­um hliðum. Verði lýðhyggju­stefna – po­púl­ismi lukk­uridd­ar­anna – ofan á verður hægt en ör­ugg­lega grafið und­an sjáv­ar­út­vegi og hann gerður að þur­fa­lingi líkt og sjáv­ar­út­veg­ur flestra þjóða. (Við erum fljót að gleyma þeim tíma þegar stjórn efna­hags­mála sner­ist um að tryggja rekst­ur óhag­kvæms sjáv­ar­út­vegs, þar sem auðlind­um var sóað með rotnu kerfi milli­færslna, bæj­ar­út­gerða og geng­is­fell­inga, þar sem launa­hækk­an­ir voru étn­ar upp með óðaverðbólgu).

Fyr­ir þann sem bar­ist hef­ur fyr­ir beinni þátt­töku al­menn­ings í ís­lensku at­vinnu­lífi eru kaup Síld­ar­vinnsl­unn­ar á Vísi fagnaðarefni. Fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki kemst í eigu al­menn­ings­hluta­fé­lags með vel á fimmta þúsund hlut­hafa, – öfl­uga fjár­festa, líf­eyr­is­sjóði og ein­stak­linga. Verk­efnið sem blas­ir við er að fjölga þeim sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­um sem eru skráð á op­inn hluta­bréfa­markað – vinna að kerf­is­breyt­ing­um sem auðvelda fyr­ir­tækj­un­um og jafn­vel knýja þau til að stíga skrefið til fulls og verða opin hluta­fé­lög. Þannig samþætt­ast enn bet­ur hags­mun­ir sjáv­ar­út­vegs­ins og al­menn­ings.

Gagn­leg lesn­ing

Ég hef áður í skrif­um um ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg sótt í smiðju Daða Más Kristó­fers­son­ar, pró­fess­ors í hag­fræði og nú­ver­andi vara­for­manns Viðreisn­ar. Árið 2010 vann hann grein­ar­gerð um áhrif svo­kallaðrar fyrn­ing­ar­leiðar á af­komu og rekst­ur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja. Grein­ar­gerðin var unn­in að beiðni nefnd­ar um end­ur­skoðun á stjórn­kerfi fisk­veiða. Þing­menn allra flokka, jafnt flokks­fé­lag­ar Daða Más sem aðrir, hefðu gagn af því að lesa grein­ar­gerðina í heild sinni en þar seg­ir meðal ann­ars:

„Afla­marks­kerfið hef­ur skapað mik­il verðmæti gegn­um hagræðingu og verðmæt­ari afurðir. Stærst­ur hluti hlut­deild­ar­inn­ar í heild­arafla­marki, var­an­legu veiðiheim­ild­anna, hef­ur skipt um eig­end­ur síðan kerf­inu var komið á. Sá um­fram­hagnaður sem afla­marks­kerfið skapaði hef­ur því þegar verið fjar­lægður að mestu úr fyr­ir­tækj­un­um með sölu afla­heim­ild­anna. Nýir eig­end­ur afla­heim­ilda hagn­ast ekki meira en eðli­legt er miðað við áhætt­una í rekstri út­gerðarfyr­ir­tækja. Þetta tak­mark­ar mjög tæki­færi rík­is­ins til að auka gjald­töku á út­gerðinni án þess að það feli í sér eigna­upp­töku og hafi veru­leg nei­kvæð áhrif á rekstr­ar­skil­yrði henn­ar.“

Okk­ur Íslend­ing­um hef­ur tek­ist að byggja upp arðbær­an sjáv­ar­út­veg með fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfi sem stuðlar að hag­kvæmri og sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda hafs­ins. Aðrar þjóðir sem hafa sjáv­ar­út­veg í súr­efn­is­vél­um skatt­greiðenda líta öf­und­ar­aug­um til Íslands. Sú staðreynd að sjáv­ar­út­veg­ur greiðir skatta og gjöld til rík­is­ins, í stað þess að vera á op­in­beru fram­færi líkt og keppi­naut­ar í öðrum lönd­um, hef­ur ekki komið í veg fyr­ir að tæki­færissinn­ar í stjórn­mál­um og fjöl­miðlun, geri ár­ang­ur­inn tor­tryggi­leg­an. Þrátt fyr­ir að sjáv­ar­út­veg­ur­inn sé eina at­vinnu­grein­in sem greiðir sér­stakt auðlinda­gjald, er stöðugt hamrað á því að lands­menn njóti ekki „rétt­mætr­ar“ hlut­deild­ar í hagnaði af nýt­ingu auðlind­ar. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn greiðir þriðjung af af­komu fisk­veiða í veiðigjöld, auk annarra skatta og gjalda, s.s. tekju­skatt af hagnaði. Hversu langt á að ganga?

Auðvitað er fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfið ekki galla­laust. Hið sama má segja um inn­heimtu veiðigjalda, ekki síst hversu lang­ur tími líður frá lok­um rekstr­ar­árs til þess sem veiðigjöld eru lögð á og inn­heimt. Þessi langi tími hef­ur skapað jarðveg sem hent­ar lukk­uridd­ur­um. Sam­hengið milli veiðigjalda og af­komu verður illskilj­an­legt.

Brimbrjót­ur fram­fara

Fyr­ir rúm­lega ári kom út skýrsla óháðra sér­fræðinga um stöðu og horf­ur í sjáv­ar­út­vegi og fisk­eldi, sem unn­in var að beiðni þáver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra. Niðurstaðan var skýr: Sjáv­ar­út­veg­ur hef­ur verið upp­spretta helstu tækni­fram­fara og ný­sköp­un­ar í hinu ís­lenska hag­kerfi. Árang­ur Íslands er ein­stak­ur þar sem við höf­um tekið alþjóðlega for­ystu, ekki síst í ný­sköp­un og verðmæta­sköp­un sem teng­ist hinum ýmsu hliðargrein­um sjáv­ar­út­vegs. Mögu­leik­ar til auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar eru gríðarleg­ir, sé rétt haldið á spil­un­um.

Fyr­ir utan grein­ar­gerð Daða Más, sem áður er nefnd, er skýrsl­an gagn­leg lesn­ing fyr­ir þing­menn og fjöl­miðlunga. Öflug sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki á grunni fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­is­ins hafa verið upp­spretta annarra auðlinda og til hafa orðið glæsi­leg fyr­ir­tæki sem eiga ræt­ur í þjón­ustu við sjáv­ar­út­veg og eru leiðandi á sínu sviði í heim­in­um. Þannig hef­ur sjáv­ar­út­veg­ur verið brimbrjót­ur tækni­fram­fara og ný­sköp­un­ar á síðustu ára­tug­um. En um það vilja þau sem sækja fram á grunni lýðhyggju ekki tala.

Er ekki kom­inn tími til þess að nálg­ast sjáv­ar­út­veg með öðrum hætti en gert hef­ur verið. Spurn­ing­in sem stjórn­mála­menn ættu að velta fyr­ir sér er hvað við get­um gert til að styrkja ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg í harðri alþjóðlegri sam­keppni. Hvernig get­um við lagað reglu­verkið? Hvernig get­um stutt við arðsemi fyr­ir­tækj­anna og þannig aukið sam­eig­in­leg­ar tekj­ur og lagt grunn að enn meiri fjár­fest­ingu í ný­sköp­un og þróun? Hvernig eru skatt­ar og gjöld á sjáv­ar­út­veg hér á landi borið sam­an við helstu sam­keppn­islönd? Með hvaða hætti get­um við stuðlað að skrán­ingu allra helstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja á hluta­bréfa­markað og byggt und­ir beina þátt­töku al­menn­ings í at­vinnu­rekstri? Þetta eru sömu spurn­ing­ar og eiga við um allr­ar aðrar at­vinnu­grein­ar.

Það er miður hve marg­ir stjórn­mála­menn veigra sér við að tala með stolti um glæsi­leg fyr­ir­tæki sem byggð hafa verið upp af elju og hug­viti í sjáv­ar­út­vegi og tengd­um grein­um. Hræðslan við að sam­fagna þegar vel geng­ur í sjáv­ar­út­vegi hef­ur náð yf­ir­hönd­inni. Föng­um tor­tryggni og öf­und­ar stend­ur stugg­ur af vel­gengni og dug­mikl­um fram­taks­mönn­um. En það er ekk­ert nýtt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. júlí 2022.