Byrjuð að undirbúa öflun á heitu vatni fyrir sveitarfélagið

Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri í Árborg er nýjasti gesturinn í Pólitíkinni. Sjálfstæðisflokkurinn fór með sigur í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Árborg og fékk 6 bæjarfulltrúa kjörna af 11. Fjóla tók því við bæjarstjórastólnum í síðasta mánuði.

Nýr meirihluti í Árborg stendur frammi fyirr fjölmörgum áskorunum en þar hefur verið mikil fólksfjölgun síðustu árin samhliða mikilli uppbyggingu. Unnið er að byggingu þriðja skólans á Selfossi. Miklar skuldir hafa safnast upp í Árborg á síðustu árum og mikilvægt að halda vel utan um fjármálin samhliða nauðsynlegri innviðauppbyggingu næstu árin. Það er stór áskorun.

Fjóla segir að nú þegar hafi verið hafist handa við að ræða við bændur í nærsveitum til að tryggja meira heitt vatn fyrir sveitarfélagið. Þá ræðir hún um atvinnumálin í Árborg og nýja brú yfir Ölfusá sem skapar tækifæri. Þá er verið að byrja á nýrri skolphreinsistöð á Selfossi.

Hún segir að framjóðendahópur Sjálfstæðisflokksins í Árborg sé samhentur og að það hafi skilað þeim miklu í kosningabaráttunni, en ekki síst að haldið hafi verið prófkjör sem hafi verið feikna sterkt og skilað sér vel inn í kosningabaráttuna. Hún er bjartsýn á komandi ár við stjórn bæjarins.

Fasteignamat í Árborg hefur verið að hækka og enn frekari hækkanir boðaðar á næsta ári. Nýr meirihluti ætlar að koma til móts við fasteignaeigendur með því að lækka álöguprósentur í komandi fjárhagsáætlunargerð til að draga þannig úr hækkunum.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.