Jákvæð þróun kaupmáttar og skattbyrði

Birgir Ármannsson forseti Alþingis:

Engum dylst að fram undan eru flókin viðfangsefni á sviði efnahagsmála. Staða atvinnuveganna er á heildina litið góð og þær greinar sem urðu fyrir mestu höggi vegna Covid-19 virðast vera að rétta hratt út kútnum. Verðbólguþróun bæði innanlands og erlendis er hins vegar mikið áhyggjuefni og ljóst er að efnahagsleg áhrif innrásar Rússa í Úkraínu eiga enn eftir að koma fram af fullum þunga. Fram undan er því margháttuð óvissa og ljóst að stefnumótun á sviði ríkisfjármála, peningamála og kjaramála á næstu misserum felur í sér bæði viðkvæmar og vandasamar ákvarðanir. Aðhaldssemi verður óhjákvæmileg bæði í opinberum útgjöldum og stjórn peningamála og um leið mikilvægt að kjarasamningar verði byggðir á ábyrgum grunni en ekki óskhyggju.

Margir þeirra þátta sem nú valda áhyggjum eru ekki bundnir við Ísland heldur eru líka fyrir hendi í helstu viðskiptalöndum okkar. Í alþjóðlegum samanburði stöndum við þó vel að vígi. Hagvöxtur hefur að undanförnu verið kröftugur, útflutningur vöru og þjónustu gengið vel og atvinnuleysi dregist hratt saman.

Í þessu sambandi er líka vert að vekja athygli á því að þróunin hér á landi hefur verið afar jákvæð þegar horft er til tekjuþróunar og kaupmáttar. Nýjar upplýsingar, sem fjármálaráðuneytið hefur tekið saman og byggðar eru á gögnum frá skattyfirvöldum, gefa ótvírætt til kynna að kaupmáttaraukning síðustu ára hefur haldið áfram og nær til allra tekjuhópa. Tekjur hafa með öðrum orðum hækkað umtalsvert meira en verðlag og hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna þannig aukist verulega. Þessi gögn sýna jafnframt að tekjuskattsbreytingar undanfarinna ára hafa dregið úr skattbyrði, sérstaklega hjá þeim sem hafa lágar- eða meðaltekjur. Stefnumótun að þessu leyti hefur með öðrum orðum skilað ótvíræðum árangri. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, ekki síst vegna þess að í opinberri umræðu er hinu gagnstæða afar oft haldið fram.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. júní 2022