Samstarfssáttmáli orðskrúðs og lítils innihalds

Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Það var skrifað í skýin eftir sveitarstjórnarkosningarnar að Dagur B. Eggertsson héldi áfram sem borgarstjóri, þrátt fyrir að flokkur hans hefði tapað verulegu fylgi og þrátt fyrir að meirihluti undir hans forystu hefði fallið í annað skipti í röð. Hægt er að gagnrýna Dag B. Eggertsson borgarstjóra fyrir margt ef ekki flest þegar kemur að stjórn og rekstri borgarinnar. En fáir íslenskir stjórnmálamenn búa yfir sömu hæfileikum og hann til að spila úr þröngri stöðu. Að snúa ósigri í kjörklefanum í sigur við samningaborð margra flokka er ekki gert án klókinda.

Dagur B. er betur læs en flestir á pólitíska möguleika þegar fáir virðast í boði. Það var forvitnilegt – sumir gætu sagt aðdáunarvert – að fylgjast með hvernig hann setti öngulinn strax í Framsókn. Með þolinmæði og áreynsluleysi gamalreynds laxveiðimanns landaði Dagur B. þeim sem krýndur hafði verið sigurvegari kosninganna. Boðberi breytinga gerist sæll og glaður liðsmaður gamla tímans. Stjórnmálamaður sem nær að tryggja völd sín og áhrif þrátt fyrir kosningaósigur er þyngdar sinnar virði í gulli. Þetta vita Samfylkingar sem leita að nýjum formanni flokksins.

Ekkert breytist

Meirihluti borgarstjórnar heldur áfram enda búið að setja enn eitt varadekkið undir. Ekkert breytist – haldið verður áfram á sömu braut og undanfarin ár. Að þessu leyti vita borgarbúar á hverju þeir mega eiga von. Og þess vegna hefði verið óþarfi að eyða miklum tíma (og peningum) í samstarfssáttmála með litlu innihaldi, miklu orðskrúði og mörgum fallegum orðum.

„Við viljum að það sé aðgengilegt og gott að flytja til Reykjavíkur,“ segir í sáttmálanum enda ætlar meirihlutinn að halda áfram „að þroska Reykjavík sem fjölmenningarborg“. Kannski að boðaðar breytingar felist í því að „hafa viðburði og hátíðir allt árið um kring þannig að Reykvíkingar hafi alltaf eitthvað til að hlakka til“. Og ekki má gleyma „tilraunaverkefni“ meirihlutans með miðnæturopnun einn dag í viku í einni sundlaug.

Meirihlutinn ætlar að kanna og skoða ýmislegt. „Við ætlum að kanna vilja ríkisins til að setja upp vísindasafn í Reykjavík“ og „skoða sölu á Malbikunarstöðinni Höfða“, en auðvitað ekki fyrr en að lokinni „greiningu“, sem er nauðsynleg eftir að fyrirtækið varð landflótta til Hafnarfjarðar.

„Útsvar verður óbreytt“

Eitt af því fáa sem er alveg skýrt í samstarfssáttmálanum: „Útsvar verður óbreytt.“ Borgarbúar munu því áfram að greiða hæsta útsvarið en á móti er ætlunin að „efla þátttökulýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð með innleiðingu lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar“. Borgarbúum er lofað að innleidd verði sameinuð „lýðræðisgátt“. Og meirihlutinn heitir því að „bjóða börnum borgarinnar að koma í heimsókn í Ráðhús Reykjavíkur til að kynnast lýðræðinu og fá kynningu á störfum borgarstjórnar“!

Ekki virðist meirihlutinn hafa áhuga á að koma til móts við íbúana sem horfa fram á stórkostlega hækkun fasteignagjalda vegna hækkunar fasteignamats enda hefur skortstefnan sem fylgt hefur verið leitt til gríðarlegrar hækkunar íbúðaverðs. Forvitnilegt verður að fylgjast með hvernig meirihlutinn tekur tillögu Hildar Björnsdóttur og félaga hennar í Sjálfstæðisflokknum um lækkun álagningarprósentu fasteignagjalda til að koma til móts við borgarbúa, jafnt eigendur íbúða sem leigjendur. En til að gæta allrar sanngirni þá ætlar meirihlutinn „að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í lok kjörtímabils“ enda búinn að njóta árlegrar hækkunar fasteignamats og Dagur búinn að snúa sér að öðrum verkefnum.

Ekki er eitt orð um að eyða eða stytta biðlista eftir leikskólaplássum en þess í stað lofað að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað „með fjölbreyttum aðferðum“. Hvaða aðferðum verður beitt liggur ekki fyrir en systkinaforgangur verður innleiddur sem og stafræn innritun á leikskólum. Kannski gleðjast borgarbúar yfir því að ætlunin er að „skipuleggja borgina út frá hagsmunum barna og barnafjölskyldna“. Þannig á að ráðast í „heildstæða stefnumótun um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára í samstarfi við fjölskyldur, börn, ríkið, sveitarfélög, fagfólk og atvinnulífið“. Fyrst fá grunnskólabörn frítt í strætó og sund.

Lofa að virða samninga

Breytingarnar sem boðaðar voru fyrir kosningar birtast ekki í skipulagsmálum. Þar verður stefnan óbreytt, byggt á „aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 en með ákveðnum breytingum, svo sem þeirri að flýta uppbyggingu Keldnalands“ (breyting sem er hluti af samgöngusáttmálanum og markar enga nýja sýn meirihlutans).

Umbúðirnar vantar hins vegar ekki um skipulagsmálin. Áhersla verður á „þróunarása borgarinnar“ og „vistlok og grænar tengingar“. Borgarskipulagið á að stuðla „að því að efla tengsl á milli íbúa til að vinna gegn einmanaleika“.

Það er í sjálfu sér umhugsunarvert að það sé talið nauðsynlegt að skrifa inn í sáttmála að meirihlutinn ætli „að virða alla samninga Reykjavíkurborgar og ríkisins um innanlandsflug“. Meirihlutinn lætur sig dreyma um að flugvöllurinn verði fluttur í Hvassahraun, en ætlar óhikað, áður en það gerist, að byggja nýtt hverfi í Skerjafirði og lofar að taka „tillit til Reykjavíkurflugvallar á byggingartíma“ hverfisins.

Fyrir íbúa höfuðborgarinnar skapar samstarfssáttmálinn ákveðið vandamál. Þeir geta illa fylgst með eða áttað sig á, í lok kjörtímabilsins, við hvað var staðið og hvað ekki. Engin skýr markmið eru sett en falleg orð notuð sem flestir geta tekið undir að hluta eða öllu leyti. Allir vilja – jafnt borgarbúar sem aðrir landsmenn – að Reykjavík sé borg „þar sem ofbeldi er aldrei liðið“. Allir vilja vera samstiga í því að „taka enn stærri skref í átt að ofbeldislausri Reykjavík með því að hrinda nýrri aðgerðaáætlun gegn ofbeldi hratt í framkvæmd“. Hvernig það verður gert er fullkomlega óljóst – kannski vegna þess að borgarfulltrúar meirihlutans hafa lítið annað til málanna að leggja en ráðast í aðgerðaáætlun.

Rauði þráðurinn sem liggur í gegnum orðskrúð samstarfssáttmálans sem pakkað hefur verið inn í litríkar umbúðir er að ekkert mun breytast í Reykjavík á næstu fjórum árum.

Morgunblaðið, 22. júní 2022.