Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:
Það hefur verið ánægjulegt að verða vitni að því frá fyrstu hendi hversu mikið alþingismenn þjóðarinnar brenna fyrir því að betrumbæta samfélagið okkar. Þeir vilja styðja við foreldra sem missa barn, styðja við nýsköpun og styrkja stöðu lántaka og leigjenda. Þeim er annt um velferð dýra og um umhverfið. Alþingismönnum er umhugað um geðheilsu þeirra sem vinna við að hjálpa öðrum, vilja jafna stöðu fólks á vinnumarkaði og auðvelda og einfalda aðgengi að tæknifrjóvgunum. Þingmenn eru auðvitað ekki alltaf sammála, og kannski sjaldnast, sérstaklega um leiðir að settu marki. En þeim gengur gott til.
Munurinn á hugarfari þingmanna, hugsunarhætti og hugsjónum, kom hins vegar glöggt fram í umræðum á þinginu um fjármálaáætlun næstu ára. Þjóðin hefur glímt við næstmesta efnahagsáfall seinni tíma og ljóst er að aðgerðir hafa skilað árangri og efnahagurinn tekið hratt við sér. Hins vegar stafar okkur ógn af verðbólgu og versnandi efnahagshorfum í heiminum. Hvernig eigum við að bregðast við?
Á Alþingi heyrast raddir þar sem amast er við skattalækkunum undanfarinna ára, hækkun frítekjumarks og lækkun gjalda. Aðgerðir sem stjórnvöld geta sannarlega hreykt sér af, enda byggist þessi gagnrýni á hugmyndum um að samfélagskakan sé óbreytanleg stærð og ágreiningurinn snúi að því hvernig eigi að skipta henni. Efnahagsstjórn undanfarinna ára undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar sannarlega stækkað kökuna. Um það verður ekki deilt.
Stjórnvöld geta vel við unað þann árangur sem ráðstafanir þeirra hafa skilað til varnar efnahagslífinu. Hins vegar mættu stjórnvöld standa sig mun betur í aðhaldi og hagræðingu. Þar mætti vera meira af „harða hægrinu“, svo vísað sé til orða þingmanns Samfylkingarinnar. Og ég hvet stjórnvöld til að halda aftur af eilífri þörf til að hækka skatta og gjöld þegar að kreppir og fara einfaldlega betur með þær tekjur sem við heimtum af fólkinu í landinu.
Greinin birtist í morgunblaðinu 20. júní 2022