Hún er veik. Hann er sterkur.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra:

Hann er snjall, hún er heimsk. Hann er sjálfs­ör­ugg­ur, hún er óör­ugg. Svona þýðir þýðing­ar­vél­in, Google Translate, orðin veik­ur og sterk­ur, klár og heimsk­ur, sjálfs­ör­ugg­ur og óör­ugg­ur. Já­kvæð og per­sónu­lýs­andi orð eru þýdd í karl­kyni en nei­kvæð per­sónu­lýs­andi orð eru þýdd í kven­kyni.

Eðli­lega vek­ur þetta at­hygli og varp­ar ljósi á veru­leika sem við þurf­um að breyta. Það voru BA-nem­ar í al­menn­um mál­vís­ind­um sem bentu á þetta í rit­gerð sinni á dög­un­um. Þýðing­ar­vél­ar byggja meðal ann­ars á textum víða á net­inu, úr greina­söfn­um og sam­fé­lags­miðlum, og end­ur­spegla því meðal ann­ars hvernig fólk tjá­ir sig. Sem dæmi má nefna að aðeins 13% höf­unda á Wikipediu eru kven­menn og það eru að mestu leyti karl­menn sem tjá sig um þjóðfé­lags­mál á hinum ýmsu miðlum – og fóðra þannig meðal ann­ars þýðing­ar­vél­arn­ar.

Jafn­rétti er ekki sjálf­gefið, við þurf­um alltaf að vera á vakt­inni. Kynja­halli leyn­ist víða og virk­ar í báðar átt­ir. Við sjá­um þetta víða í sam­fé­lag­inu. Í há­skól­un­um hall­ar á karl­menn í námi á sviði mennt­un­ar og heil­brigðis­greina og það vant­ar fleiri kon­ur í raun­vís­indi. Þessi skipt­ing end­ur­spegl­ast síðan einnig í at­vinnu­líf­inu. Karl­menn eru í mikl­um meiri­hluta í tækni­geir­an­um og það end­ur­spegl­ast m.a. í end­ur­greiðslum vegna rann­sókna og þró­un­ar en 75% af um­sækj­end­um eru karl­menn. Stuðnings­kerfi ný­sköp­un­ar á Íslandi er víðfeðmt en það er mjög mis­jafnt hvernig kyn­in nýta sér þetta stuðningsnet. Þessu vil ég breyta. Til dæm­is eru tæki­færi til þess að líta til auk­inn­ar fjöl­breytni hvað varðar at­vinnu­grein­ar og þarf­ir þeirra.

Við náum aldrei ár­angri ef við nýt­um aðeins helm­ing mannauðsins. Ég trúi því að lyk­ill­inn að bætt­um lífs­gæðum og fleiri tæki­fær­um sé að hug­vitið verði stærsta út­flutn­ings­grein þjóðar­inn­ar. Til að svo megi verða er mik­il­vægt að all­ir taki þátt og hafi til þess jöfn tæki­færi. Sköp­um far­veg þar sem kon­ur og karl­ar koma að mál­um. Þannig tök­um við þátt í því að fjölga tæki­fær­um og bæta lífs­gæði fólks. Án þátt­töku allra end­ur­spegl­ar hug­vitið ekki raun­veru­leg tæki­færi sam­fé­lags­ins.

Allt virk­ar þetta sem ein heild. Við get­um lagt okk­ar af mörk­um til að fjölga kon­um í tækni­geir­an­um og að sama skapi vilj­um við fjölga þeim kon­um sem taka þátt í þjóðfé­lagsum­ræðunni. Ef tölvurn­ar lesa nei­kvæðan tón í garð kvenna úr þátt­töku í þjóðfé­lagsum­ræðum, þá bend­ir allt til þess að fólk geri það líka, þar á meðal það unga fólk sem á eft­ir að móta sam­fé­lagið í framtíðinni. Það er ekki nóg að segja að kon­ur þurfi bara að vera dug­legri við að gera eitt­hvað, held­ur þurf­um við að skapa vett­vang þar sem hindr­un­um í vegi kynj­anna er rutt á brott – hvort sem það er í tækni­heimi eða raun­heimi. Það er verk­efni okk­ar allra.

Morgunblaðið, 9, júní. 2022.