Undir lok þings

Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Þegar þetta er skrifað er óljóst um hvenær yfirstandandi vorþingi lýkur. Það eina, sem vitað er með vissu, er að starfsáætlun þingsins um þingfrestun næsta föstudag, stenst ekki. Hversu lengi þingið stendur er undir þingmönnum og þingflokkum komið. Hvort vonir rætist um að hægt verði að ljúka þingstörfum fyrir þjóðarhátíðardaginn með sómasamlegum hætti, á eftir að koma í ljós.

Yfirstandandi þing hefur í mörgu verið sérstakt og ekki alltaf áferðarfallegt eða þingheimi til sóma. Heilu vikurnar fóru í innihaldslitlar umræður, þar sem fá mál þokuðust áfram – allra síst þau sem horfa til framfara. Gallar þingskaparlaga hafa komið enn betur í ljós – gallar sem þingmenn geta ekki lengur litið fram hjá og komið sér undan að sníða af. Í raun getur minnihluti tekið þingið „í gíslingu“ – hindrað að mál sem njóta stuðnings meirihlutans nái fram að ganga. Málþóf tryggir yfirleitt ekki pólitíska landvinninga en þó eru dæmi um að málþóf hafi skipt þjóðina miklu. Ég hef haldið því fram að stjórnarandstaða hafi sjaldan, ef nokkru sinni, unnið betur fyrir sínu kaupi en í „málþófi“ gegn Icesave-samningum árið 2009.

Tugir mála í biðstöðu

Tugir stjórnarmála – frumvörp og þingsályktunartillögur – bíða afgreiðslu. Einhver eru umdeild en flest virðast í sæmilegri sátt. Líklega hafa þingmannamálin sjaldan verið fleiri – framleiðsla þeirra virðist stundum líkjast færibandi en vel útfærðri vinnu og margt er endurnýtt ár eftir ár. Fyrirspurnir, annað hvort til skriflegs eða munnlegs svars eða munnlegar í óundirbúnum fyrirspurnatímum, eru á þriðja hundrað.

Miðað við reynslu má gera ráð fyrir að tugir þingmála verði samþykktir eða afgreiddir með öðrum hætti á síðustu starfsdögum þingsins, hvenær sem þeir renna upp. Þingmenn þurfa á öllu sínu að halda til að fylgjast með.

Það er ekki auðvelt að fá innsýn í öll þau mál sem koma til kasta þingsins – sum eru einföld en önnur flókin. Þingmenn eiga litla möguleika á því að kynna sér öll þingmál ofan í kjölinn, hvað þá að öðlast skilning á hugsanlegum áhrifum og afleiðingum væntanlegrar lagasetningar. Til þess er hvorki tími né á stundum nauðsynleg þekking á flóknum viðfangsefnum. Þingmenn þurfa því að treysta á samverkamenn sína – skipta liði og sérhæfa sig. Til þess njóta þeir ráðgjafar sérfræðinga á nefndasviði þingsins og starfsmanna eigin þingflokka. Þeir verða einnig að reiða sig á sérfræðinga ráðuneyta og stofnana, á fulltrúa hagsmunaaðila og einstaklinga með sérþekkingu á viðkomandi málasviði. En fyrst og síðast verða þeir að treysta eigin hyggjuviti og byggja afstöðu sína á grunnhugsjónum og pólitísku mati á hvað er framkvæmanlegt og hvað ekki, hvar rétt er að gefa eftir og hvar ekki.

En sé það erfitt fyrir þingmenn að kynna sér í þaula hvert einasta frumvarp og lagagrein, segir það sig sjálft að fyrir almenning er útilokað að öðlast yfirsýn yfir það hvernig leikreglum er breytt. Oftar en ekki fela breytingarnar í sér að reglur eru hertar og þær gerðar flóknari, útgjöld og völd kerfisins aukin með beinum eða óbeinum hætti. Frelsismálin sitja fremur á hakanum. Mér hefur alltaf fundist það athyglisvert (og áhyggjuefni) hve margir þingmenn hafa lítinn áhuga á eða eru hreinlega andvígir því að stíga skref í átt að auknu frelsi einstaklinga. Þess vegna daga litlu og stóru frelsismálin uppi í nefndum eða þau komast ekki á dagskrá þingsins.

Vítahringur og lítið breytist

Í mörg ár hefur forsetum Alþingis, ekki síður en óbreyttum þingmönnum og ráðherrum, – þvert á flokka – orðiðtíðrætt um nauðsyn þess að breyta vinnubrögðum. Umræðan hefur litlu skilað, eins og berlega kom í ljós á liðnum vetri. Endurskoðun þingskaparlaga er nauðsynleg, eins og áður hefur verið vikið að, en fleira þarf að koma til.

Í mörg ár hef ég reglulega minnt á að Alþingi verði að brjótast út úr þeim vítahring sem búinn hefur verið til með mælistiku sem þingmenn og fjölmiðlar nota til að meta þingstörfin. Hreyknir fara þingmenn og ráðherrar út í sumarið og benda á ótrúlegan fjölda frumvarpa og tillagna sem samþykkt hafa verið. Magnið yfirtekur gæðin. Metnaðurinn liggur í fjölda en ekki innihaldi, skýrleika eða einfaldleika. Áherslan, ekki síst stjórnarþingmanna, er að koma „uppskerunni“ í hús, óháð því hvernig hún gagnast almenningi og fyrirtækjum í landinu.

Afkastamikil þing eru yfirleitt ekki góð þing.

Morgunblaðið, 8. júní. 2022.