Matvælaframleiðsla er kostnaður fyrir fullveldi þjóðar

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

All­ur heim­ur­inn er að bregðast við af­leiðing­um stríðsátak­anna í Úkraínu með því að auka mat­væla­fram­leiðslu inn­an­lands, en hvar stönd­um við á Íslandi? Fjöl­marg­ar þjóðir hafa nú þegar lagt til aukið fjár­magn til land­búnaðar til að koma í veg fyr­ir hrun í mat­væla­fram­leiðslu. Kostnaðar­hækk­an­ir á inn­fluttu hrá­efni eru langt um­fram það sem eðli­legt er að velta yfir á neyt­end­ur. Það þarf viðbótar­fjármagn við þær 700 millj­ón­ir króna sem sett­ar voru í land­búnaðinn til að bregðast við allt að 120% áburðar­verðshækk­un­um í byrj­un árs. Þær hækk­an­ir voru aðeins forsmekk­ur­inn að því sem síðar kom.

Finn­ar styrkja land­búnað og sjáv­ar­út­veg

Í liðnum apr­íl­mánuði ákvað finnska ráðherra­nefnd­in sem fjall­ar um neyðarviðbúnað að setja 300 millj­ón­ir evra til styrkt­ar inn­lendri mat­væla­fram­leiðslu. Neyðarpakk­inn inni­held­ur m.a. greiðslur til að styðja við lausa­fjár­stöðu bænda og lang­tímaaðgerðir inn­an­lands. Yfir 27 millj­ón­um evra var varið til bygg­ing­ar á eld­is­hús­um, gróður­hús­um, geymsl­um fyr­ir græn­met­is- og garðyrkju­af­urðir, stuðning við hrein­dýra­rækt og sjáv­ar­út­veg. Það vek­ur at­hygli Íslend­inga að ná­grannaþjóðirn­ar styrki sjáv­ar­út­veg, sem hér er sér­stak­lega skattlagður. Þá var 45 millj­ón­um evra varið til lækk­un­ar á orku­skatti og í raun allt gert til að styrkja og auka mat­væla­fram­leiðslu inn­an­lands.

Það er lán Íslend­inga að vera ekki hluti af raf­orku­markaði Evr­ópu­sam­bands­ins en mikl­ar hækk­an­ir á raf­orku ganga nærri fjár­hag heim­ila og at­vinnu­lífs í sam­band­inu. Á Íslandi standa heim­il­in og at­vinnu­lífið styrk­ari fót­um með stöðugt raf­orku­verð þegar aðrar inn­flutt­ar kostnaðar­hækk­an­ir dynja á þjóðinni þrátt fyr­ir veru­lega styrk­ingu krón­unn­ar.

Norðmenn bæta kjör bænda

Í Nor­egi hafa bænd­ur og stjórn­völd ný­lega lokið samn­ingaviðræðum um land­búnaðarstuðning fyr­ir 2022-2023. Síðustu ár hafa norsk­ir bænd­ur setið eft­ir í tekjuþróun sam­an­borið við aðrar grein­ar í land­inu en núna hafa norsk stjórn­völd komið til móts við bænd­ur og bæta þeim versn­andi kjör síðustu ára. Þeim kostnaðar­auka sem nú blas­ir við bænd­um í Nor­egi er að fullu mætt með hærra afurðaverði og op­in­ber­um stuðningi (90% tek­in í gegn­um auk­inn stuðning með styrk­ingu bú­vöru­samn­inga og 10% með hækk­un afurðaverðs). Með þess­um ráðstöf­un­um mun stuðning­ur við norska bænd­ur aukast um 10,9 millj­arða norskra króna og hækk­un afurða 1,5 millj­arða norskra króna á samn­ings­tíma­bil­inu.

Viðspyrnuaðgerðir fyr­ir bænd­ur

En hvað geta stjórn­völd hér á landi gert til að treysta fæðuör­yggi þjóðar­inn­ar? Væri það ekki góð hug­mynd að skoða viðspyrnuaðgerðir fyr­ir land­búnaðinn líkt og gert var í kór­ónu­veirufar­aldr­in­um, en nú til að lækka kostnað sem lagst hef­ur á mat­væla­fram­leiðsluna í land­inu vegna stríðsaðgerða Rússa í Úkraínu? Í bygg­ing­ariðnaði er þeim kostnaði óhikað velt út í verðlagið, á herðar neyt­end­um.

Með því að fara að hætti Norðmanna mætti koma í veg fyr­ir hækk­an­ir til neyt­enda og þeir bænd­ur sem hafa þurft að taka á sig aukn­ar hækk­an­ir fái þær bætt­ar en kom­ist hjá því að velta þeim út í verðlagið. Það mun líka gera bænd­um auðveld­ara í sam­keppni að mæta und­ir­boðum inn­fluttra land­búnaðar­af­urða. Það á að vera stefna stjórn­valda að auka og treysta mat­væla­fram­leiðslu í land­inu. Það er hluti af þeim kostnaði að vera frjáls og full­valda þjóð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júní 2022.