Samstaða um öryggi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra:

Vest­ræn ríki hafa staðið þétt saman í for­dæmingu á ó­lög­mætri inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Pólitísk sam­staða ríkir um þvingunar­að­gerðir og fram­lög til mann­úðar­að­stoðar, her­gagna og búnaðar. At­lants­hafs­banda­lagið hefur jafn­framt brugðist við af festu og sannað gildi sitt sem máttar­stoð öryggis og varna banda­lags­ríkjanna.

Inn­rásin hefur líka orðið til þess að ríki Evrópu endur­skoða fyrir­komu­lag öryggis- og varnar­mála. Aðildar­um­sókn Finn­lands og Sví­þjóðar að At­lants­hafs­banda­laginu er skýrasta birtingar­mynd þess. Ís­land fagnar á­kvörðunum Finn­lands og Sví­þjóðar og verður allt kapp lagt á að full­gilda aðildar­samninga ríkjanna eins skjótt og þeir hafa verið undir­ritaðir.

Ís­land gegnir um þessar mundir for­mennsku í Norður­hópnum, sam­ráðs­vett­vangi tólf Norður-Evrópu­ríkja í varnar- og öryggis­málum. Varnar­mála­ráð­herrar þeirra funda hér á landi í vikunni og verður breytt staða öryggis­mála og við­brögð við inn­rás Rúss­lands í Úkraínu í brenni­depli. Í Norður­hópnum eru tíu aðildar­ríki að At­lants­hafs­banda­laginu, á­samt Finn­landi og Sví­þjóð.

Í for­menns­kunni í Norður­hópnum, sem Ís­land gegnir nú í fyrsta sinn, felst dýr­mætt tæki­færi til að efla inn­sýn og skilning sam­starfs­ríkja okkar á fyrir­komu­lagi öryggis og varna Ís­lands sem endur­speglar sér­stöðu okkar sem her­laust ríki. Liður í fundar­dag­skránni er heim­sókn ráð­herranna á öryggis­svæðið á Kefla­víkur­flug­velli þar sem þeir kynna sér varnarinn­viði.

Fréttablaðið, 7. júní. 2022.