Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Mér barst nýlega svar frá dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi um vörslu ávana- og fíkniefna til eigin nota. Svarið sem ég fékk var því miður ófullkomið, sem sagt á þá leið að ekki væri unnt að fá svar varðandi umbeðið tímabil. Tilgangur fyrirspurnarinnar var að skoða þróun lagaframkvæmdar varðandi ávana- og fíkniefni sem lýtur að vörslu svonefndra neysluskammta.
Það sem er athyglisvert við svarið er hversu gríðarlega stór hluti mála, sem varða vörslu neysluskammta, er skráður í tengslum við önnur brot, eða 84%. Þar er akstur undir áhrifum fyrirferðamesti brotaflokkurinn. Afskipti lögreglu einvörðungu vegna vörslu neysluskammta virðast fátíð. Mikilvægt er að átta sig á þessu umfangi þar sem enginn hefur enn haldið því fram að ekki eigi að refsa fólki fyrir glæfraakstur, ofbeldisbrot og innbrot, svo dæmi séu tekin. Ekki var unnt að fá upplýsingar um viðurlög fyrir brot sem eingöngu varða vörslu neysluskammta eða um færslu í sakaskrá einstaklinga vegna þessara brota, en slíkar upplýsingar væri gagnlegt að hafa.
Mikilvæg viðhorfsbreyting hefur orðið í samfélaginu í þá veru að fíknisjúkdómar eigi að vera meðhöndlaðir innan heilbrigðiskerfisins. Við aðstandendur þekkjum vel hversu mikilvæg sú þróun er, en því miður hefur nægilegt fjármagn ekki fylgt þessari breytingu í kerfinu. Það er síðan umhugsunarvert að ekki sé haldið betur utan um upplýsingar og greiningu í þessum málaflokki með tilliti til þessa og áberandi umræðu í samfélaginu. Við ættum auðvitað að líta sérstaklega til einstaklinga með vímuefnavanda í þessu tilliti. Það er mikilvægt að við áttum okkur á hvort og þá hvernig hægt væri að taka sérstakt tillit til þessara einstaklinga í refsivörslukerfinu og leggja áherslu á að þeir fái meðhöndlun í heilbrigðiskerfinu.
Ég hef líka fengið svar við fyrirspurn minni á Alþingi til heilbrigðisráðherra um skaðaminnkandi aðgerðir. Það er mikilvægt að halda stjórnvöldum við efnið við að innleiða og framkvæma skaðaminnkandi aðgerðir í heilbrigðiskerfinu, enda hafa þau skuldbundið sig til að leggja áherslu á slíkar aðgerðir. Nýlegt verkefni heilbrigðisráðherra sem sneri að kaupum á naloxoni í nefúðaformi er mikilvæg aðgerð en betur má ef duga skal. Ef við tölum um að hjálpa einstaklingum með vímuefnavanda eigum við að gera einmitt það. Þar þurfa gerðir að fylgja orðum.
Greinin birtist á visir.is 7. júní 2022.