Af breytni presta

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Það er vel þekkt og skiljanlegt að fólk skipti um starfsvettvang yfir ævina. Hvað þá þegar horft er til þess hve ævi manna hefur lengst og heilsan batnað og þar með starfsgeta og -þrek. Fólk á miðjum aldri sem er orðið eirðarlaust og gramt, jafnvel þannig að það smitist út í umhverfið, ætti e.t.v. að hugsa sér til hreyfings.

Mér varð hugsað til þessa þegar ég eins og fleiri varð óstöðugrar hegðunar og skrifa sóknarprests í Reykjavík áskynja. Til prestsstarfa eru þeir valdir sem búa yfir hæfileikum í mannlegum samskiptum og til að miðla málum, enda er sáttamiðlun hluti af starfi presta. Auk þess að stýra trúarlegum athöfnum, felst í starfi þeirra að útskýra kennisetningar kristni og tengja þær við líf fólks í samtímanum. Umræddur prestur nefnir tiltekið fólk fasista og dæmir það til helvítisvistar og réttlætir skrifin með vísan til Biblíunnar. Það er því sannarlega ekki hægt að aðgreina prestinn og persónuna.

Þeir breyta ekki sem þeir bjóða

Umræddur prestur hefur að vísu áður og æ oftar notað hempuna og Guðs hús til þess að predika eigin stjórnmálaskoðanir yfir fækkandi sóknarbörnum sínum. Ég er því fegin eins og fleiri að hann er ekki minn sóknarprestur. Þegar hatur og mannfyrirlitning er farin að vella daglega upp úr prestinum undir þeim formerkjum að hann sé kærleiksríkari og betri en aðrir, er þá ekki kominn tími á breytingar?

Grunngildi kristinnar trúar eru kærleikur, umhyggja og virðing fyrir náunganum. Fyrirgefning og auðmýkt. Það er grundvallarforsenda að þeir sem starfa á vegum kirkjunnar hafi þessi kristnu gildi í heiðri, bæði í orði og á borði. Prestar sem fara fram með offorsi, uppnefna og dreifa hatri eru ekki góður vitnisburður kristinnar trúar – eru einfaldlega ekki starfi sínu vaxnir. Þeir mættu gjarnan hvíla siðferðilega mælistiku sína á aðra og skoða sinn innri mann.

Fréttablaðið, 3. júní. 2022.