Mælti fyrir aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, mælti í gær fyrir tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn (NATO) um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

Í ræðu sinni fagnaði ráðherra umsókn þjóðanna að NATO. „Með aðild Finnlands og Svíþjóðar og bandalaginu mun hverfa ákveðin óvissa sem hefur ríkt um alþjóðlega stöðu þeirra og varnir kæmi til þess að öryggi þeirra yrði ógnað. Aukinn fyrirsjáanleiki í öryggis- og varnarmálum á Eystrasaltssvæðinu verður því heilladrjúgt skref í þágu friðar og aukins stöðugleika í okkar heimshluta,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„Ísland hefur ávallt skipað sér í hóp þeirra ríkja sem hafa lagt áherslu á að bandalagið stæði opið þeim lýðræðisríkjum sem sækjast eftir inngöngu að því tilskildu að þau uppfylli öll viðeigandi skilyrði. Þannig hefur Ísland staðfastlega stutt þá stækkun bandalagsins sem átt hefur sér stað í áföngum frá því að ríkin voru 12 við stofnun þess árið 1949. Við höfum litið svo á að með útvíkkun bandalagsins myndum við renna frekari stoðum undir stöðugleika og frið í Evrópu en sömuleiðis að treysta grunnhugmyndir lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis í sessi,“ sagði hún enn fremur.

Hún sagði að á tímum þegar friðsamar grannþjóðir okkar og nágrannar í Evrópu upplifi á eigin skinni ógn og óvissu telji hún rétt að við Íslendingar, ríkisstjórn og Alþingi sýni samhug og samstöðu í verki. Það gerum við m.a. með því að samþykkja þessa heimilt hratt og vel.