Sjálfstæðisflokkur í meirihluta í Fjallabyggð

Sjálfstæðisflokkurinn og A-listi Jafnaðarfólks og óháðra hafa náð samkomulagi um meirihlutasamstarf í Fjallabyggð. Viðræður eru sagðar hafa gengið vel enda verið opnar og hreinskiptar.

Í málefnasamningi framboðanna kemur fram að lögð er „áhersla á samgöngumál, atvinnumál, búsetumál, umhverfis- og innviðamál og það að efla enn frekar þjónustu við íbúa Fjallabyggðar.“ Þar að auki kemur fram í tilkynningu framboðanna að hingað til hafi rekstur sveitarfélagsins verið traustur og áhersla sé lögð á að hann verði það áfram.

S. Guðrún Hauksdóttir, oddviti D-lista, verður forseti bæjarstjórnar og Guðjón M. Ólafsson, oddviti A-lista, formaður bæjarráðs.

Elías Pétursson, fráfarandi bæjarstjóri í Fjallabyggð, sækist ekki eftir endurráðningu og því verður auglýst eftir nýjum bæjarstjóra.