Ætlum að verða með þeim fyrstu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Ísland mun fylgja Norðmönn­um og Dön­um og sýna þannig tákn­ræna, nor­ræna sam­stöðu með Sví­um og Finn­um, er kem­ur að aðild­ar­um­sókn þeirra að Atlants­hafs­banda­lag­inu en bæði rík­in hafa til­kynnt um áform þess efn­is.

„Við ætl­um okk­ur að verða með fyrstu ríkj­un­um til að af­greiða þetta,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, ut­an­rík­is­ráðherra við Morg­un­blaðið.

Um leið og rík­in tvö leggja fram form­lega um­sókn sína mun Þór­dís Kol­brún mæla fyr­ir þings­álykt­un­ar­til­lögu á Alþingi, um að Ísland samþykki um­sókn­ina. Sú álykt­un hlýt­ur svo hefðbundna þing­lega meðferð, þ.e. fer í gegn­um tvær umræður og til meðferðar hjá ut­an­rík­is­mála­nefnd.

Þór­dís Kol­brún á ekki von á öðru en að það ferli taki ör­fáa daga. Hún hef­ur rætt við for­menn allra þing­flokka og seg­ir sam­stöðu ríkja um málið.

Rík­is­stjórn­in fundaði í gær um málið. Innt eft­ir því hvort ein­hug­ur sé meðal ráðherra, seg­ir Þór­dís Kol­brún að full­ur ein­hug­ur sé um að virða sjálfs­ákvörðun­ar­rétt Svía og Finna og bjóða þá vel­komna í NATO. Hún bend­ir á að í stefnu­skrá Vinstri grænna, sé afstaða flokks­ins skýr hvað varðar aðild Íslands að banda­lag­inu, en Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráðherra og formaður Vinstri grænna, hafi þó lýst því yfir fyr­ir fimm árum að hún myndi styðja og vinna eft­ir þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands.

Aðild Svía og Finna að NATO mun koma til með að styrkja banda­lagið og auka við ör­yggi þess, að mati Þór­dís­ar Kol­brún­ar. „Bæði hernaðarlega og líka af því að þetta eru mjög sterk ríki þar sem lýðræði, mann­rétt­indi og rétt­ar­ríkið er í há­veg­um haft.“

Muni aðstoða rík­in ef þurfi

For­sæt­is­ráðherr­ar Íslands, Dan­merk­ur og Nor­egs hafa gefið út sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu þar sem fram kem­ur að nor­rænu rík­in muni leggja sig fram um að tryggja að um­sókn­ar­ferlið gangi hratt fyr­ir sig.

Þá taka for­sæt­is­ráðherr­arn­ir jafn­framt fram að rík­in muni aðstoða Finn­land og Svíþjóð með öll­um ráðurm, verði ör­yggi þeirra ógnað. Þór­dís Kol­brún seg­ir að þessi hluti yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar hafi meiri þýðingu fyr­ir þær þjóðir sem búi yfir her, en þær bjóði fram ör­ygg­is­trygg­ingu til að brúa bilið frá því um­sókna­ferlið hefst og þar til Sví­ar og Finn­ar njóta vernd­ar banda­lags­ins. Íslandi eru sett ákveðin tak­mörk, sök­um her­leys­is síns, en mun þó ekki hika við að leggja sitt af mörk­um ef til þess kæmi að ann­ars kon­ar aðstoðar væri þörf.

Þór­dís Kol­brún kveðst skilja að Svíþjóð og Finn­land vilji tryggja sig með þess­um hætti. Þótt inn­ganga þeirra í varn­ar­banda­lagið ætti ekki að vera ógn fyr­ir Rúss­land, sé ljóst að skoðun þeirra á aðild breytt­ist í kjöl­far inn­rás­ar Rússa í full­valda og sjálf­stætt ríki.

Sann­færð um að rík­in fái aðild

Til þess að ríki fái aðild að NATO þarf samþykki allra 30 aðild­ar­ríkj­anna. Að sögn Þór­dís­ar Kol­brún­ar ligg­ur fyr­ir já­kvæð afstaða 29 ríkja. Recep Tayyip Er­dog­an, for­seti Tyrk­lands, lýsti því yfir í gær að hann myndi ekki samþykkja um­sókn­ir Svíþjóðar og Finn­lands. Hann hef­ur stutt þá af­stöðu sína þeim rök­um að Tyrk­land geti ekki fall­ist á inn­göngu þjóða sem beiti refsiaðgerðum gagn­vart Tyrklandi, jafn­framt seg­ir hann rík­in tvö hafa stutt við hryðju­verk­a­starf­semi með því leyfa Kúr­d­um að sinna stjórn­mála­starfi í lönd­um sín­um.

Þór­dís Kol­brún er sann­færð um að þjóðirn­ar muni út­kljá sín mál og hef­ur enga trú á því að Tyrk­ir setji sig í þá stöðu að koma í veg fyr­ir inn­göngu Svía og Finna. Of mikl­ir hags­mun­ir séu í húfi.

„Mál sem er komið þetta langt, svo breið samstaða er um, þar sem þjóðirn­ar hafa unnið sína heima­vinnu vel og hags­mun­irn­ir und­ir eru þetta mikl­ir, finnst mér skipta máli að gangi hnökra­laust fyr­ir sig, þar af leiðandi kann ég ekki að meta þegar mál eru sett á dag­skrá sem standa því í vegi að þetta gangi hnökra­laust fyr­ir sig.“

Morgunblaðið, 17. maí. 2022.