Nýtt ráðuneyti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar

Rúmlega 500 manns fylgdust með kynningu Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á nýju ráðuneyti í fullum sal í Grósku og í gegnum streymi.

Kynningin var haldin í upphafi nýsköpunarviku en í nýju ráðuneyti er unnið með nýja sýn og nýtt verklag en við breytingarnar var litið til reynslu og fyrirmynda hjá framúrskarandi alþjóðlegum fyrirtækjum sem skara fram úr í nýsköpun.

,,Eitt mikilvægasta verkefni okkar nú er að fjölga stoðum samfélagsins til að tryggja að við getum áfram búið við ein bestu lífskjör í heimi. Það þarf að styðja frekar við og efla mikilvægustu auðlind okkar Íslendinga, hugvitið. Hugvitið getur orðið stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Ekki bara að hugvitið verði sérstök stoð í atvinnulífinu heldur einnig stækkar hún og styrkir okkar hefðbundnu atvinnugreinar.“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra, m.a. á kynningunni. 

Breytingarnar í ráðuneytinu fela það m.a. í sér að í stað þess að hafa háskóla, iðnað, fjarskipti og nýsköpun á sér skrifstofum þá eru málaflokkar leiddir saman og ráðuneytinu skipt upp í tvær skrifstofur. Annars vegar skrifstofu um stjórnsýsluna, fjármálin og dagleg samskipti við undirstofnanir og hins vegar skrifstofu um framtíðarsýn og stefnumörkun. Yfirbygging er minnkuð og ætlunin er að koma í veg fyrir að daglegt amstur og ýmis konar uppákomur trufli stór og mikilvæg mál. Nýtt verklag er innleitt með teymisvinnu og lotum.

Nokkur forgangsverkefni ráðherra hafa þegar verið sett í farveg og má þar nefna:

  • Efla stuðningskerfi nýsköpunar.
  • Ný nálgun í fjármögnun háskólanna.
  • Fjölga útskrifuðum nemendum úr STEAM greinum.
  • Auðvelda erlendum sérfræðingum að koma til landsins.
  • Störf án staðsetningar – fyrsta ríkisstofnunin sem gefur það skýrt út.
  • Gígabita nettengingu yfir ljósleiðara og/eða fullburða 5G um allt land, engin heimili eða vinnustaðir verða skilin út undan.  Ísland verður fyrsta gígabita land heimsins.
  • Aðgerðaráætlun í netöryggi.
  • Áhersla á innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu.